Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
fimm mínútna fullnæging...
13.10.2007 | 10:50
Allt er einsog það á að vera þennan laugardagsmorguninn. Hvert eitt og einasta atriði. Sólin er hjá pabba sínum.
Þá vakna ég ein undir himnasæng með logandi hjörtu. Fyrsta hugsunin er; ummm! enginn vinna, hvað skildi klukkan vera? átta? tíu? tólf? Whoe cares! Vöðla sænginni á milli lappanna og knúsa koddann. Sný mér á hina hliðina og reyni að sofa. Tekst að dorma. Opna annað augað, svo hitt. Stíg berrössuð fram úr og teygi mig í sloppinn. Inn á bað, kíki í spegill. -Nei, mikið ósköp ertu hugguleg svona nývöknuð Heiðan mín og Góðan daginn. Hárið bara einsog á reyttu hanarassgati og augun bæði í pung! Gullfalleg alveg hreint! Sný mér frá speglinum sæl og ráfa inn i eldhús og kveiki undir katlinum. Gríp húslykilinn og rölti niður að sækja blöðin. Þau standa enn óhreifð á borðstofuborðinu.
Þurrkaður ostur gónir á mig á stofuborðinu....og líka þrútin vínber. Sting upp í mig æði og einum grænum súkkulaðifrosk...helli niður úr goslausri appelsínflösku og set glös í uppþvottavélina.
Ég fer út á svalir og horfi til veðurs, með vindinn í fanginu, kaffið í hendinni þegar sólin byrjar að skína. Fyrirboði um góðan dag. Ekki spurning.
Ég lít á kaffibollann minn. Drekk alltaf úr þeim sama. Hann er gulur rétt einsog sólin. Á hankanum situr strákbjálfi með hendur í vösum og svart hár á kollinum. Það klikkar ekki að hann brosir. Ég er að horfa á hann núna. Ég ætla að skíra hann Palla. Hann er eitthvað svo palla-legur.
Palli brosir þarna sem hann situr og ég brosi líka, opna e-mailið mitt og....enn einu sinni, er þar póstur; Til hamingju Heida Bergthora Thordardottir þú hefur unnið xxx milljarða í lottói lífsins...ég eyði póstinum án þess að opna hann. Brosi hvorki meira né minna ...fyrir eða eftir mílljóna-vinninginn.
Pússa gullkortið og hugsa; jæja mín elskuleg...hvað eigum við að gera í dag? Eigum við að versla? Fjárfesta kannski? Spurning um nýtt naglalakk, nýja skó...mig vantar nú alltaf eitthvað smálegt...
...það veitir mér nú alltaf 5 mínútna gleði og fullnægju, þegar ég hef verslað mér einsog eitt stk. nýjan kjól.
Nei, daginn í dag ætla ég að nota og nýta til að fjárfesta í sjálfri mér og njóta þess einfaldleika sem lífið hefur upp á að bjóða.
Til lukku með annars góðan laugardag elskurnar. Hann lofar góðu...Palli brosir enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Ég er fluggáfuð
12.10.2007 | 00:09
Ég er specialisti í að endurnýta rusl. Ef ykkur vantar ráðleggingar eða þurfið að losa ykkur við, getið þið leitað til mín.
Sá síðasti var alltof gamall. Hann reykti of mikið og drakk einsog svín! Svo vitavonlaus að á morgun fer hann í endurvinnsluna með hinum þrem, sem þangað hafa lent á þessu ári.
Það verður að segjast einsog er að þeir hafa sótt í mig, þessir köldu, gömlu, ryðguðu kynköldu andskotar (afsakið orðbragðið...) en þetta er í engu ofsagt.
Nú í kvöld yngdi ég upp. Aðeins farið að slá í hann; en hann er yngri en ég....þó nokkrum árum meira að segja. Hann lofar góðu. Er hlýr og notalegur og nokkuð fallegur að innan. Myndi nú ekki segja að það sem snýr að útlitinu sé eitthvað sláandi fallegt. En fegurðin kemur að innan, ekki satt? Hann reykir lítið sem ekkert. Míglekur hvorki, né á við drykkjuvandamál að stríða. Ég datt í lukkupottinn, þennan eina sanna, sem alltof oft, virðist vera að flækjast fyrir fótum mínum, þessa dagana.
Nú eru tveir bílar í hlaðinu. Þangað til á morgun. Þvílík snilld. Þarf ekki að stoppa á leið í vinnu til að fylla á frekan tankinn. Algjör forréttindi að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að springa í loft upp á þessari 18 1/2 mín. leið sem tekur mig að keyra til vinnu.
Svo ofan á þessa hamingju mína er ég fluggáfuð í þokkabót!
Jebb;
...veit til að mynda að á móti hverjum 100 stúlkum fæðast 106 drengir!
Svo veit ég líka að Bangladesh er þéttbýlasta land heims með um 11.000 manns á ferkílómetra.
Maðkar eru hreint afbragð (bestir) til að hreinsa sár....og lengsta bók í heimi er 2,3 milljón síður í 36.381 bindum....
Að vísu væri ég ekki svona fluggáfuð nema fyrir tímaritið; Lifandi vísindi.
Góða nótt og heillaríkan dag sem er að vísu runninn upp....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Dagur hárprúður - Villi ekki...
11.10.2007 | 18:14
Var að tala við systir mína á msn-inu. Hún býr í Ameríkunni.
Hún spurði hvað væri að frétta. Ég sagði henni að borgarstjórnin væri fallinn. Hún spurði;
-Hver er og var borgarstjóri?
Ég sagði henni einsog var og er.... að Dagur hárprúði hefði tekið við af Villa vá-gesti.
Hún sagði;
-þekki þá ekki.
Ég sagði;
-það eina sem þú þarft að vita, er að Dagur er hárprúður en Villi ekki....
Hún sagði ok. Sátt og kvaddi.
Vilhjálmur: Ákvörðun Björns Inga um samstarfsslit fyrirvaralaus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Beðið um athygli
10.10.2007 | 23:29
Þetta með sjálfsvíg, er mér svolítið hugleikið. Ekki það að ég sé að gæla við hugmyndina, né að ég sjái útför mína og minningargreinar um mig í hyllingum. Er samt nokkuð viss um að ég fæ eina ljúfa frá einni góðri vinkonu ...og jú einum góðum vini.
Nú ef ekki, kem ég niður aftur bara og hristi vel upp í ofnunum hjá þeim.
Eftir því sem ég kemst næst, þá lendir maður annað hvort uppi eða niðri. Þeir sem taka sitt eigið líf, eru víst fastir einhversstaðar mitt á milli. Sem er ekki góður staður að lenda á. Hef ekkert fyrir mér um þetta, en las mér til í einhverri bókinni.
Ég átti eina góða vinkonu sem tók sitt eigið líf í mars á síðasta ári. Sonur hennar átján ára gamall kom að henni. Þetta var afar átakanlegt einsog gefur að skilja fyrir ungan mann. Vona að honum farnist að sjá móður sína í öðru ljósi í framtíðinni, en í síðustu minningunni, um annars fallega unga og góða konu. Um daginn ætlaði ég að hringja í aðra vinkonu, sem heitir sama nafni og sá þá að ég var ennþá með nafn hinnar látnu, í símanum mínum.
Það hlýtur að vera algjör örvænting og uppgjöf sem grípur það fólk sem tekur eigið líf.
Mín mesta samúð, liggur þó hjá aðstandendum sem eftir sitja með sárt ennið, oft fullt sjálfsásökunar í eigin garð.
Þekki dæmi þess; að þeir sem sífellt hóta því að láta verða af "aftökunni" tali fyrir daufum eyrum. Þar liggi ekki alvara að baki. Þegar um er að ræða tilraunir í að minnsta kosti einu sinni í mánuði...sé viðkomandi að biðja um athygli og öskri eftir hjálp. Hjálp sem ekki er hægt að veita eða gefa úr þeirri sálarangist, sem maður ekki þekkir.
Ég þarf reglulega að minna viðkomandi á, að kannski væri betra að hlusta...að það gæti heppnast í næsta skipti....en því miður tala ég fyrir daufum eyrum. Daufum eyrum sjálfrar mín.
Góða nótt elsku bloggvinir og þakka hlýjar kveðjur sem ég fékk í tilefni af afmæli Sólarinnar í lífi mínu.
Fórnarlamba sjálfsvíga minnst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
10.10.2004 - merkisdagur!
9.10.2007 | 23:46
Þann 10.10.2004 skeði sá merkisatburður nákvæmlega á slaginu; 10:16 að mér fæddist lítil englasól.
Henni líkaði ekki bumbuvistin og kom löngu á undan áætlun. Hún barðist fyrir lífi sínu í um tvo mánuði. Hver veikur andardráttur sem hún dró án aðstoðar, var sigur og mikið afrek.
Hún mældist við fæðingu; 1340 gr. og 38 cm.
Hún er gleðigjafi minn, engillinn minn. Hún er mér endalaus uppspretta vonar á allt sem er. Og allt sem ekki er. Með henni kom trúin á að að ekkert er ómögulegt. Á milli okkar er órjúfanlegur strengur og samhljómur sem aldrei deyr. Ég dreg vart andann án þess að finna fyrir henni í hjartanu mínu.
Litla englastelpan fékk nafnið; Sóldís Hind.
Merking nafnsins;
Sóldís; skínandi, björt heilladís.
Hind; auðmýkt, lítillæti, kærleikur og sakleysi.
Hindin er næstalgengasta trúartáknið í kristinni trú, næst á eftir krossinum.
Til hamingju með afmælið elskan.
Mömmukoss!
Bloggar | Breytt 10.10.2007 kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
Dansa berfætt í snjónum...
8.10.2007 | 21:58
Vatnsberi: Það er auðveldara að segja til um hvort eitthvað gerist eða ekki, en hvenær það gerist. Undirbúðu þig undir atvik sem mun gerast í náinni framtíð.
Hvaða spekúlant og snillingur semur stjörnuspánna fyrir Morgunblaðið? Hvaða vitleysingur les annars stjörnuspánna yfirhöfuð? Fuck....þetta var nú aldeilis til að toppa annars kalt og dapurt kvöld...er í raun himinlifandi að klukkan er langt gengin í ellefu þannig að ömurlegheitunum ljúki. Sniðugast væri í stöðunni að fara að sofa...og sofa fram á vorið ....en þvottavélin er á hægasnúningi, drullast og sullast þetta áfram einhvernveginn. Heppinn ef hún klárar að þeyta rjómann, fyrir jól.
Ertu ekki annars allir í stuði með Guði? Flott! Ég er það nefnilega ekki...
Ég hef nú alveg mátulega dásamað haustin hérna á blogginu mínu. Úthrópa þetta yfir allt og alla; Iss, piss; depurð? þunglyndi? Kjaftæði, þetta er bara hugarástand! Akkúrat! hvað varð af gleði-jákvæðnis-elementinu mínu? Frosnaði kannski í æðum mínum þegar ég var að skafa af bílrúðunum í morgun?
Hvað varð af "state-mentinu"; haustin eru æði; kertaljós og kúr og heitt kakó og leikhúsferðir? Kertin loga hjá mér allt árið...kúr kannski fjórða hvern dag...heitt kakó...hvað er nú það? og leikhúsferðir á fjögurra ára fresti.
Mig langar aftur í sólina og hitann á Nýja Sjálandi. Mig langar að hoppa og skoppa um allt skólaus og nærbuxnalaus í þunnum kjól með hárið slegið og finna hlýja goluna leika um vangann. Mig langar ekki að vera með frostrósir í kinnunum, geta ekki talað og kysst fyrir tannaglamri og finna ekki góða lykt fyrir frosbitnum nebba. Með grýlukerti í hárinu. OG MIG LANGAR EKKI AÐ HUGSA TIL KOMANDI MORGNA...dansandi berfætt í snjónum að skafa af bílnum!
Það tók mig nákvæmlega 4 klst. að moka mér uppúr sófanum í kvöld og fara út í göngu...sem kom ekki af góðu. Kaffileysi í morgunsárið er mér enganveginn bjóðandi. Ekki á þessum árstíma.
Annars sendi Konni mér e-mail... en málið er að ég er að verða drulluleið á honum Konberti! Ég er auðvitað búin að fyrirgefa honum yfirsjónina með nafnaruglið...en rúm vika er liðinn frá því að kynni okkar hófust...og ekkert nýtt undir sólinni á þeim bænum.... þá er komin tími til að skipta honum út fyrir aðra dægradvöl... einsog t.d. fyrir góða bók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Sá allra lakasti til þessa....Ísland 12 stig!
7.10.2007 | 04:52
Undanþáttur einhvers...eitthvað!
Það eina og allra, allra einasta sem hélt augunum við efnið; var samfestingurinn sem Ragga var í. Ég var engan veginn að fatta um hvað þátturinn snerist. En mig langar í samfestinginn!
Hvað var eiginlega málið?
....og hver ber ábyrgð á ábyrgðarleysinu, það vantar klárlega fleiri stafi í rófuna... ?(sjá færslu fyrir neðan)
Lag Guðmundar Jónssonar komst áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Farðu í rassgat!
7.10.2007 | 03:45
Einu sinni sá ég bíómynd, mér er hún afar minnistæð. Man ekki nokkur efnistök og innihald frekar, en eitt man ég þó. Hjón voru að skoða hús sem var til sölu. Þau stóðu og virtu fyrir sér fasteignina þegar flugvél kemur og lendir á húsinu. Karlinn verður frá sér numinn, lýtur á kerlinguna og segir; Við kaupum þetta hús! (sem var í nettu maski....) Kerlingin undrandi vægast sagt. Svo heldur hann áfram; -Hverjir heldurðu að séu möguleikarnir á að flugvél fljúgi aftur á húsið!
Eftir þessu lifi ég svolítið. Upp að vissu marki. Ég t.d. hélt út úr bænum fyrr á helginni. Með sprungið varadekk í skottinu. Hverjar voru svo sem líkurnar á því að það myndi springa hjá mér? Ekki smuga í helvíti! Hefði örugglega sprungið á að minnsta kosti þremur, ef ég hefði látið gera við dekkið, áður en ég fór. Og brotnar neglur fylgt í kjölfarið.
Var að hugsa um að setja ekki bensín á bílinn, en... gerði það samt. Hef ekki góða reynslu af því að aka um á bensínlausum bíl. Versla á innistæðulausu korti, hvað þá að fara svöng að sofa. Samlíkingin er engin, en þó einhver.
Fékk e-mail frá Konna.
Elsku Nadaline.
Sweatheart! I love you. Þú ert mér allt, græna eplið.....of my eyes. Ég er búin að vera að reyna að hringja í þig þúsund sinnum. Ekki gera mér þetta! Veistu hvernig mér líður! Gerði ég eitthvað rangt? Segðu mér frá því, ég sakna þín svo mikið og hugsa bara um þig. Get ekki sofið! Get ekki borðað!
Bíð þolinmóður, þinn að eilífu Konni.
NADALINE!!!!!
Ég sendi til baka;
Who the fuck is Nadaline?
...og fékk til baka; þetta var ásláttarvilla...elsku tíkin mín. Farðu í rassgat!
Já já einmitt!
H-ið er hjá Enninu ...A-ið....nálægt e-inu....d-ið við hliðina á i-inu....osfrv.
Hvaða vitleysingi datt í hug að troða stöfunum svona nálægt hvor öðrum á lyklaborðinu???!!!! Gerir viðkomandi, sér virkilega enga grein fyrir því; að þetta hefði getað haft alvarlegar afleiðingar i för með sér fyrir okkur Konna?! Örugglega ekki! Ég er bara virkilega þakklát fyrir það, að búa yfir þeim þroska, að treysta mínum manni!
Ég er brjáluð!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Gott að kyssa og strjúka brjóstið í miðjunni...
5.10.2007 | 01:30
Sjáiði myndirnar tvær hérna til hliðar? Fyrri myndinn er af dömu sem er búin að grilla sig feitt í bakarofni, af því er virðist í fljótu bragði. Ef smellt er á hana sést svo um munar að flassið vantaði á myndavélina..og hún er í raun hvít einsog fuglaskítur á heiði. Eða svona næstum því. Þessi sem er nær ykkur er af karlmanni í vafasamri stellingu. Ég held að hann sé að kúka. Sjáiði hjónasvipinn? Ég er viss um að þið sjáið hann sum hver. Heiða + Konni = sönn ást. Svo fer hugurinn með ykkur á flug til Nígeríu og þið hugsið e.t.v. um skreið og harðfisk. Kynlíf og framhaldslíf. Betra líf og Dalalíf. Nýtt líf og fyrri líf.
Ég skal alveg viðurkenna að stundum virðist ég ekki vera með öllum mjalla! En þið hin sem eruð ekki að ná "plottinu" og punktinum hjá mér. Eruð sko ekki með neinum mjalla! Hún Hrönnsla mín elskuleg nær þessu og fær hún tíuna á þessu annars ágæta kvöldi.
Stjórnuspá dagsins á vel við;
Þú hefur aldrei skilið þessa bullukolla. Hvað hafa þeir á móti bulli? Það er t.d. ljóðræn fegurð í öllu bullinu og ruglinu sem mætir þér í dag.
Þannig að ég held áfram það sem frá var horfið... fyrir ykkur búkollur og bullukolla.
Brjóstaummálið hefur ekki verið gefið upp, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, en ég sendi pappaglas.
Nú er ég ekki lengur epli...nú er ég draumaástin hans. Samband okkar er þvi að færast á hærra plan i tilverunni. Og ég er búin að kenna honum nokkur orð i íslensku. Ekki ætla ég að láta hann vera mállausan á íslandinu, og mér finnst einstaklega svona nett fallegt þegar hann er að spreyta sig.
Sýnishorn úr orðabók;
Ég elska þig - þú ert tík
ástin mín - mér er mál að pissa
ertu þarna? - farðu í rassgat!
Þannig að í kvöld kom á msn;
Heida ertu heima? Afhverju gerir þú mér þetta? Þú ert tík! Mér er mál að pissa...farðu í rassgat! Þú veist að þú ert tík, en samt svarar þú mér ekki! ert tík. Konni -þá hlýnaði mér í hjartanu einhvernveginn.
Þetta eru sjálfsagt þau fallegustu skilaboð sem ég hef fengið. Það kemst engin karlmaður með táfílu tærnar nálægt hælsærinu hans Konna! Minnist þess ekki í fljótu bragði að einn karlmaður hafi með jafn miklum þunga og ástríðu, kallað mig tík í eins fáum setningum! Í alvöru sko...þetta var svona að dreyfa sér yfir eina netta kvöldstund hérna í denn. Ferlega slappt og algjörlega óviðunandi, maður var að fá þetta.... i mesta lagi þrisvar sinnum tík ...í innskotum einhverjum, ef maður var heppinn. Svo slappt að maður tók varla eftir því og varla orðum takandi að tala um.
Og svona til að árétta það fyrir ykkur sem haldið að ég passi mig ekki á að verða ófrísk eftir Konna, þá er ég á pillunni, lykkjunni og hettunni, við notum smokkinn, krem og smyrsl...enda ekki vanþörf á þar sem það er fyrir löngu búið að taka mig úr sambandi...og ég tek enga áhættu!
Ekki fyrr en búið er að skrifa undir heilagan sáttmála um eilífa hamingju og unaðsstundir í Cyber-space! En kynlífið er mjög gott. Finnst til að mynda mjög ljúft þegar hann kyssir og sleikir á mér hálsinn, strýkur á mér brjóstið (sér í lagi þetta í miðjunni) og nartar í lærið (ekki staurfótinn). Rakspírinn hans heitir; Bláa blekið og lyktin er ómótstæðileg. Jebb!
Góða helgi elskurnar. Þið eruð æði!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Þetta er svona alvöru ást...
4.10.2007 | 12:31
Hæ elskan.
Hvað er eiginlega að þér? Þú svarar mér ekki. Ég sendi þér kort og þú svarar aldrei!!! Þú hlýtur að vera mjög upptekin þessa dagana! Ég er allavega ekki í forgangi hjá þér. Þú mátt alveg vita það hvað þetta gerir mér. Ég get ekki sofið, get ekki borðað, ég hugsa bara um þig!
Ertu kannski hætt með mér? Hvað gerði ég rangt? Ég verð að fá að vita það, ef ég á vita hvar ég á að byrja að biðjast afsökunar Heida. Ekki gera mér þetta! Ekki fara frá mér sweetheart! Epli augna minna. Ég dái þig svo mikið. Mig vantar málin þín; brjóst, mitti, mjaðmir, hæð og hversu síðan kjól þú vilt að ég "make-i" fyrir þig ástin mín.
Ég þoli ekki þessa höfnun, hvað er heimilisfangið þitt svo ég geti sent þér kjólinn?
Ég elska þig ástin mín, en ég er samt að verða mjög reiður út í þig.
Konni.
ja hérna hér...spurning að fara á örorku. Brjóta á sér bakið eða setjast niður í þunglyndi fyrir framan tölvuna, með prosac í glasi og vottorð stimplað af geðlækni; 'Ovinnufær og óferjandi með öllu! Ég gæti þá sinnt ástinni mun betur. Deginum ljósara að ég er ekki að standa mig í stykkinu.
Svo verð ég auðvitað að útiloka allt og allt og alla úr mínu lífi. Og sitja bara sljó og störfum augum, starandi á svart letrið uppfullt af ást á hvítum grunni. Draumastaða hverrar konu.
Hann er ástfanginn og hann er reiður.
Einhverju sinni (löngu áður en ég kynntist Konna auðvitað) þá fór ég að pæla í því...þetta með ástina. Hvort ég hefði einhverju sinni verið það í raun. Þetta voru svona sullumbull tilfinningar, en var þetta það sem fólk kallar ást? Ég hreinlega veit það ekki. Djúpsteiktur ástarpungur er! Hann er áþreyfanlegur og bragðast hreint ágætlega með rúsínum.
En ást er svona tilfinning sem ég er ekki viss um. Mér finnst þetta alveg hreint ekki mér bjóðandi, því þegar ég lít á aðrar tilfinningar þá er ég alveg alltaf með það á hreinu þegar ég er t.d. reið. Það eru allir með það á hreinu, þegar ég er reið. Og þegar ég lít til baka og hugsa; já ég var reið þarna! þá veit ég það með vissu.... Það sama á ekki við um ástina...ég er hreint ekkert viss.
Ég hef heyrt; ég elskaði hana/hann og geri enn, og mun alltaf gera! Fyrir mér flokkast það einfaldlega undir þráhyggju. Ekkert annað! Ekki síst ef einhver ár eru líðin frá sambandsslitum. Var ekki einhversstaðar skrifað að það þyrfti að rækta ástina, svona rétt einsog blómin? Ég veit það fyrir mín blóm að þau verða drullufúl, dauf og lufsandi einhvernveginn, ef ég sulla ekki vatni yfir þau. Ekki silki/gervi blómin þó, þau standa bara og rykfalla í versta falli. Alltaf eins gervileg og falleg. Svona rétt einsog þessi eilífðarástarþráhyggja sem ég var að tala um.
En svo kom Konni inn í líf mitt. Svífandi á takkaskóm með nesti í poka og nálapúða í rassvasanum. Fimlega flaug hann í gegnum alheimsnetið og reif hjartað mitt upp með rótum þar sem ég sat fyrir framan tölvuna í barnslegu sakleysi mínu....og flaug með hjartað í krukku til Nigeríu (millilent að vísu á leiðinni)....og búmm.
Svarinu laust niður.
Þarna kom það; Þetta er svona alvöru ást! Ég á aldrei eftir að efast meir...Ég er komin með svarið við þessu. Á laugardaginn kemur (e/ tvo daga) þá er nákvæmlega vika síðan hann bað mig um að byrja með sér...(og það var ekkert lítið rómatískt skal ég segja ykkur) Ég ætla að halda upp á afmælið. Vikuafmælið okkar Konna. Við erum búin að ganga í gegnum súrt og sætt (svona ups- and downs) allan þennan tíma. Álagið sem hefur verið á sambandi okkar hefur aðeins styrkt okkar í þeirri viðleitni að vera saman forever!
Og....sannfærir mig enn betur um að hann elskar mig og ég hann....og að hann er mjööööög reiður!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)