Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
Eitt stk. meyjarhaft. Takk!
30.4.2007 | 22:42
Það er deginum ljósara að ég fæddist ekki gær: ég fæddist 15. feb "69.
Held að ekkert meira markvert hafi hent á þessum degi nema það að hausinn á mér festist í xxxxxxx á henni móðir minni og áts!
Hef fengið að heyra það síðan með reglulega millibili, hvað það var ógeðslega vont! Og pabbi var sofandi inn í stofu á meðan.
Samkvæmt lýsingunni mætti ætla að ég hafi verið með risavaxinn haus.
En hann Arinbjörn læknir kom svífandi í Batman-búningnum sínum og settist ofaná bumbubúann (þ.e.mig)
Ég er hinsvegar sannfærð um að ég hafi alfarið neitað að segja upp leigunni og vildi halda mér inni í kotinu! Því að ekki minnkaði hausinn á mér í þvotti, svo mikið er víst.
En út skildi ég ....og út kom ég! Mikil, mikil og ómæld hamingja var hjá henni móður minni, þegar pabbi hrökklaðist uppúr sófanum við orgin og datt niður á gólf. Loksins vaknaði karlinn. Loksins sá mamma í honum augun. Þau voru blá einsog mín.
Þarna lá hún móðir mín semsé og sá stjörnur (bláar og hvítar) í loftinu á litlu loft- og litlausu herbergi. Sem útaf fyrir sig voru algjör forréttindi ef litið er til þess að engin voru litasjónvörpin á þessum tíma.
En Ok. Fæðingarnar sem á eftir komu gengu einsog í sögu og gott ef að ein grísin hoppaði ekki bara niður (sá yngsti) altalandi og gangandi, þegar mamma var á leið inn í eldhús að steikja kjötbollur.
Þökk sé mér ....og Arinbirni lækni -því ekki voru aukasporunum fyrir að fara í þá daga í saumaskapnum sem fylgir nú til dags.
Nú vona ég að ekki verði langt í það að maður geti látið sauma saman meyjarhaftið aftur!
Sem væri hrein snilld, því ef marka má orð Gunnars í Krossinum , eru allir menn bersyndugir ef þeir hafa drýgt hór. Gunnar skilgreinir hór;.....já ekki einsog ég skilgreini hór..... maður er hóra nú eða hóri....ef maður skilur við maka sinn...finnur sér nýjan og þó svo að maður láti sig ekki einu sinni dreyma um að prófa gripinn fyrir giftingarathöfnina. Þá hefur maður samt brotið eitt af boðorðunum tíu.
Bannað að skilja, bannað að láta sig dreyma.....bannað - bannað - bannað.
Það er vissuega vandlifað í þessum heimi....
.....og ég sem verð alltaf einsog einhver krumpaður afturkreystingur í framan þegar einhver segir mér að hann/hún hafi verið með eina og sama manninum/konunni síðan hann/hún var 15 ára!
Að öll börnin séu samfeðra/mæðra.
Og viðkomandi kannski að nálgast sjötugt!
Ég spurði eina sem ég vann með:
-hvernig er þetta hægt?
hún sagði:
-Hann Einar minn hefur alltaf verið svo góður við mig.
Yndislegra en orð fá lýst að heyra, en ég er engu nær, ekki einu sinni nálægt því. En trúið mér þetta er til, hef séð það og .......þið líka.
Ég sem sé vil meyjarhaftið, syndaraflausn, sálina og eitt stk. hreinan svein takk....yfir þrítugt! Áður en ég verð fertug!
Ég bið ekki um meira og ég bið ekki um meira, ekki seinna en strax
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Rassakrem undir augun
29.4.2007 | 18:10
Ég hef alveg notað ýmis ráð svona til að flikka upp á útlitið. Þó ég ætti að teljast frekar óvitlaus tel ég mér stundum trú um að hitt, þetta og eitt og annað virki!
Svínvirki.
Það er deginum ljósara að ég hef fengið nokkrar snilldarráðleggingar frá minni ástkæru móðir.
Samanber þegar hún hringdi eitt sinn í mig og sagði:
-Heiða mín, mér fannst þú hálfsvona "tussuleg" til augnanna með baugun lafandi niður á brjóst þegar þú komst til mín í gær...
- Nú! Segi ég og stóð upp úr sófanum og kíkti í stóran spegil sem þar er staðsettur, fyrir ofan.
Kerling hafði svo sem rétt fyrir sér og þar sem ég stóð í dágóða stund og virti fyrir mér hryllngsásjónuna, stækkuðu baugun með þvílíku offorsi á með sekúndurnar tipluðu hjá...
En kerla hafði ráð undir rifi hverju sem endranær, og benti mér á að það væri til undrakrem, sem allar flugfreyjurnar notuðu. Þetta væri keypt í næsta apóteki og kostaði nokkra skítna hundrað karla.
Með það, brunaði ég í næsta apóteki og þar sem ég stóð við afgreiðsluborðið hugsaði ég hlýlega til mömmu þegar ég sagði (frekar lágt ):
-mamma bað mig um að kaupa fyrir sig svona krem eitthvert ....fyrir gyllinæð.
-já einmitt, innvortis eða útvortis?
-hmmm, vá ahhh, útvortis held ég...
Kremið fékk ég og hamingjan fylgdi mér heim í túpu og kostaði innan við 500 spírur. Það er sem ég segi; hamingjan er ekki verðlögð.
Ekki veit ég heldur hvort einhver hafi verið áhrifamátturinn annar en hugurinn þegar ég svaf með þetta rassasmyrsl (útvortis) undir augunum..... en þetta virkaði... held ég.
Prófið bara
es: spurning um að ráðfæra sig við geðlæknirinn áður
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Kannski var einhver að prumpa
27.4.2007 | 01:05
Minnir mig á löngu liðna tíma.
Þegar gúanófílan með dökku skíta-skýi sveif yfir vötnum í núverandi Reykjanesbæ.
Rígurinn var allsráðandi um t.d. hvar bæjarmörkin lágu, hvor ætti betra körfuboltaliðið, en aldrei minnist ég þess að Keflavik eða Njarðvík, reyndu hið minnsta að eigna sér bölvaða fíluna....
Óútskýrð ólykt í Bergen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Tilgerðin hryllileg
23.4.2007 | 23:01
Það tók mig nákvæmlega 2 klst. og 13 mín. 24 sec. að svæfa dóttur mína núna í kvöld.
Alltaf sami hátturinn á: les þrjár bækur, syng og raula, slekk ljósið og svo kyssi ég hana góða nótt. Þykist sofna.
Svo er það undir litla englakroppnum mínum komið, hversu lengi þessi þykjustunni-leikur stendur yfir. Í kvöld var það langur leikur..... undir þeim kringumstæðum fer hugurinn á flug.
Á meðan litla dísin mín var að telja á sér fingurnar og tærnar, hugsaði ég mikið til ákveðins vinkonuhóps sem ég tilheyrði einhverntíma í fyrndinni.
Við vorum nokkuð margar stelpur og áttum fátt eitt sameiginlegt nema ef vera skildi áhuga á strákum, fötum, tísku og snyrtivörum. Umræðuefnin voru því harla grunn og ekki síst þegar tvær og tvær fóru saman á klósettið og oftar en ekki, gagngert baknöguðu þær stelpurnar sem frammi sátu. Þær sem frammi voru léku sama leik. Þegar allar voru sestar saman inn í einhverja stofuna, stofumottan bólgin af illkvittnislegum athugasemdum sem höfðu verið sópað þar undir. Kjaftablaðrinu hafði verið sturtað niður í klósettið. Var brosað smjaðrað og annað fórnalamb fundið sér til dundurs, að naga og narta í.
Hendur klósettkafaranna voru óþvegnar á meðan þær leituðu í snakkið eða að besta konfektmolanum.
Jebb, svona var þetta og ég dauðskammast mín fyrir að hafa verið í félagsskap sem þessum, þó mig gruni nú, að flestir tilheyri eða hafi gert, einum slíkum hóp.
Stundum var talað á heimspekulegum nótum um litasamsetningu á varalitum versus fötum. Hvernig ætti að draga athygli að augum osfrv. Ein sem komst í tímabundnar álnir gleymdi einatt verðmiðanum á skónum sínum nú og ef ekki sagðist hafa verð að kaupa sér skó. Og með fylgdi hvað þeir kostuðu. Ef þeir voru dýrir þ.e.a.s.
Tilgerðin var yfirmáta hryllileg. Árin liðu og þegar eitt sinn var smalað saman liðinu og ég varð þess vör að enn fóru þær sömu saman á klósettið, allar komnar yfir þrítugt. Skildu leiðir. Eða leiðir skildu við mig. Mér til mikils léttis.
Við sumar held ég sambandi. Afar fáar. 2-3. Þær vönduðustu verð ég að segja. Ein þeirra er reyndar ein mín besta vinkona.
Hinar eru flognar út í heim eða hafa plantað sér við mosavaxinn eldhúsgluggann og halda tilteknum hætti að ég held. Eitthvað losnaði um tennurnar á einni, mér segir svo hugar að hvorki barneignir eða lélegt mataræði, hafi verið orsakavaldurinn. Öllu heldur innrætið og nartið og nagið.
Leiðir okkar semsé skilja, við þroskuðumst í sitt hvora áttina.
Ég er ánægð í mínu liði. Sef án allrar sektarkenndar og vakna án andúðar við sjálfa mig fyrst og fremst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Týndi hringnum á hóruhúsi
22.4.2007 | 00:01
Ég fékk sms skeyti sent áðan sem er alveg í frásögur færandi:
eitthvað á þessa leið;
er staddur í Hamborg á ég að leita að trúlofunarhringnum þínum?
ég svaraði:
endilega takk, hef saknað hans sárlega.
Til baka kom;
vá sit hérna og ég get svarið að það eru sömu leikarar og voru þegar við vorum hérna fyrir 20 árum...
eftir smástund:
mikið djöfull ertu annars orðin gömul!
Sem fær mig til að hugsa um nokkra hluti.
Fyrir 20 árum semsé trúflofaði ég mig. Ég var ung að árum, sem sönnun þess fékkst ekki nógu lítill hringur. Ég fór á (hef ekki hugmynd um hvernig það er íslenskað) en svona leikhús þar sem dömurnar spíttu út úr sér logandi kertum. Aðalleikarinn var súperman sem flaug inn á svið í svaðalegri sveiflu og staðnæmdist við sköp kvennanna með miklum tilþrifum, vægast sagt. Og ég mundi nú ekki kalla það að njóta ásta, en eitthvað var það í þá veruna.
Innanum smóking klædda gesti, dragsíða-kjóla, og hágæðahórur, týndi ég trúlofunarhringnum mínum semsé.
Spurningarnar sem vöknuðu hjá mér voru:
Hefur umræddur ekki elst að sama skapi?
Er ég eina tilvonandi íslenska brúðurinn sem hefur týnt hringnum sínum á hóruhúsi í Hollandi?
... það eru sem sé ekki bara karlmenn, ég er sönnun þess.
Njótið helgarinnar og þið giftu (konur og karlar);
haldið hringnum á fingrinum og heiðrið hjónabandið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Hvað er svona merkilegt við það...
21.4.2007 | 02:10
að vera karlmaður?
Er búin að vera með þetta lag á heilanum í nokkra daga...
og hef komist að þeirri niðurstöðu;
að það er þrælmerkilegt!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Ég hlakka svoooo til!
18.4.2007 | 20:13
Ég les um í blöðum og á netinu, af hálf rænulausu fólki, eða fólki sem er við það falla í yfirlið af hrifningu, gæsahúðin yfirtekur 72% af húðinni, útaf landsfundinum. Hápunkturinn verður svo tilhlökkunin útaf komandi kosningslag.
Ég er sjálfsagt svona illa vönkuð, en ég finn ekki til neins...
nebb, ekki einu sinni þegar ég nýti mér tölvufærni mína og bý til svona súlurit einsog birtist með skoðanakönnunum í fjölmiðlum.
Ég er bara steingeld þó fylgi eins eða annars flokks nái yfirburðum, á meðan ég delate-a öðrum. Mér finnst það nú ekki einu sinni fyndið!
Ekki það að ég finni mér svona nokkuð til dundurs í frítíma mínum.
Kosningar í nánd og ég yfirmáta spennt einsog lömbin afþví sumarið er að koma ..., ef það kemur. Sem það gerir. Alltaf. Fyrr eða síðar. Þegar það kemur. Og mig hlakkar svo til!
Ég veit ekki nákvæmlega afhverju mér hlakkar svona til. Ekki veit ég það frekar en mig hlakkar alltaf svo óendanlega mikið til jólanna.
Þegar ég var barn fékk ég þvílíkan trylling í tærnar, mig hlakkaði svo til. Beið og beið, fannst einsog eitthvað alveg ótrúlegt myndi gerast þegar klukkan sló sex. En nei, ég varð fyrir vonbrigðum. Alltaf.
Pakkarnir voru ekki tilhlökkunarefnið, því ég vissi hvað var í þeim. Lýg því ekki þegar ég segji að ef ég var ekki búin að finna út hvað var í þeim. Þá einfaldlega opnaði ég þá (um nótt) ekki bara minn heldur líka minna nánustu.
Ætli ég hafi ekki líka opnað þá sem ég pakkaði inn, "just for the fun of it".
Sumrinu fylgdu gjafir, sérpantaðar gjafir. Maður myndi ætla að ég myndi nú láta af þessum barnaskap. Með það að hlakka alltaf til, væri búin að læra af reynslunni.
Guð forði mér frá því! Það er gott að hlakka til ....
Sumargjöfin mín í ár, frá mér til mín. Er ekki ómerkari gjöf en það -að finna alltaf eitthvað til að hlakka til.
Og ég ætla ekki að hnýsast í þann pakka.Ég ætla að láta sumarið koma mér á óvart. Og njóta hvers augnabliks.
Ég óska ykkur öllum Gleðilegs sumars, hausts, vor og vetrar
es. í sambandi við komandi kosningar...ég kýs ykkur -þúsund kossar...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Gamalt fólk veit ekki neitt...
16.4.2007 | 12:07
Móðuramma mín er Ingibjörg Sigurðardóttir rithöfundur. Lítillátari og kærleiksríkari manneskju hef ég aldrei hitt. Já, þó hún amma mín hafi selt á tímabili fleiri bækur en sjálfur snillingurinn Laxnes, þá má ALLS EKKI segja við hana: Skáldkona. Margur hefur afrekað minna en hún amma og sett sig á stóra tréstalla.
Hún sat alltaf á kistlinum góða sem var staðsettur í eldhúsinu. Í kistlinum geymdi hún handskrifuð handritin sín. Ef hún var að skrifa þegar einhvern bar að garði, stakk hún þeim ofaní og settist síðan ofan á hann, eftir að vera búin að servera kaffí og meðlæti.
Amma var drottning í sinni höll, sem voru nokkra fermetra hús, prinsessan á bauninni, sem var kistillinn hennar. Úr kistlinum komu svo gersemir fyrir okkur hin/ar til að njóta.
Ég gæti dásamað hana ömmu út í hið óendanlega, en hugsa að ég finni annan vettfang til þess. Í hjartanu mínu, sem er ofvaxið fyrir kroppinn minn og nær langt út fyrir hann...oftast nær.
En aðeins: ég hef stundum verið að velta fyrir mér í gegnum árin, í hvaða raunveruleika amma mín býr í. Kannski er hún stödd í einhverri fallegri sögu. Í hennar eigin kvikmynd sem er svo falleg og óraunhæf að ég veit ekki hvernig það er hægt. Hún er afar trúrækin kona, og trúir engu, engu illu upp á neinn.
Hvað hefur hún svo sem við þá vitneskju að gera að til séu Hommar? Ég uppýsti hana fyrir um 2 árum, grunlaus í framhaldi af einhverju umræðuefninu og hún vissi ekki um tilvist þeirra!
Hún sagði bara: -ja, hérna elskan, ég vissi um lesbíur, en ekki homma!
Kannski hefur hún ekkert með þá vitneskju að gera, nema að hún er þá allavegana hluttakandi í lífi okkar hinna.
Nefni þetta sem lítið dæmi um hvernig við tölum og setjum okkur í stellingar gagnvart gömlu fólki. Ekki við öll, en velflest. Hvernig við skrumskælum, felum, bætum í götin og allra helst gerum eldra fólk að "súkkulaðikleinum" í lífi okkar.
Eigum aðild að því að planta þeim á ómennska geymslustaði og bíða endalokanna. Eigum lítinn tíma afgangs til að létta þeim biðina endalausu.
Fyrir suma er það hrein kvöð að taka sveig á sunnudagsbíltúrinn til að kíkja (og verður aldrei annað en "rétt að kíkja við") á fólkið okkar.
Fólkið sem er svo stútfullt af visku og fróðleik.
Þó þau viti ekki neitt....
Finnst alveg hreint ömurlegt orð; gamalt fólk - prufið að setja inn í staðinn: gamall sófi. Svo neikvætt. Eitthvað slitið og lúið sem kominn er tíma á að losa sig við...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Jakkalaus og læst úti
15.4.2007 | 23:45
Jæja, þá hef ég skilað af mér jakkanum, lyklinum, bauninni og hluta af hjartanu. Meðferðis tók ég með mér stórann, fallegan pakka -stútfullan af ljúfum minningum. Innpakkaðan með rauðri slaufu.
Ég hreinsaði allt út úr skápnum og skildi hann eftir opinn...
Hætti semsé í vinnunni í dag og byrja í nýrri á þriðjudaginn. Daginn sem ruslakarlarnir mínir koma. Allt í lagi með það...veit þeir koma og hreinsa út hjá mér.
Þetta er svona hálfskrítin tilfinning, er hálfpartinn eins og tognaður, haltrandi fugl með sólgleraugu.
Jakkalaus og læst úti einhvernveginn.
Er full meðvituð um að stöðnun á hvaða sviði sem er er mér hættuleg. Sá það þegar ég tók eftir því að fóðrið var tekið að rifna úr (vinnu) jakkanum mínum, að tími var komin á mig að skipta um starf.
...flýg á vit nýrra ævintýra, hærra hærra hærra!
Ferðast jafn ört um tilfinningaskalann nú og veðurguðirnar skiptu ört um skap á einni klukkustund , í dag.
Sólhattinn, nei -regnhlífina? nei, -skóflan? nei
(á ekkert að fara að ákveða sig hérna?)
brosið? já....
Fleygi á ykkur sæluviku fyrir svefn hinna réttlátu
Bloggar | Breytt 16.4.2007 kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Loksins koma karlarnir mínir!
14.4.2007 | 23:26
Þegar ég kom heim í kvöld lá það ljóst fyrir að "Sæluvikan", er mín! Jebb hún byrjaði í dag og endar eftir viku....fæ engu um það breytt! Hvorki dagur til eða frá.
Sæluvika byrjar á laugardegi. Mér finnst alveg eins að sæluvika geti byrjað á hvaða degi vikunnar sem er. En Nei, laugardagur skal það vera.
Ég lauk námskeiði í morgun, tölvunámskeiði. Maður hefði ætlað að ég hefði lært einhver lifandis býsn og tölvufærni mín hefði margfaldast um fjölda vikudaganna allavegana. Frá byrjenda til sérfræðings. Neibb! Það sem ég lærði er: að sykur er góður!
Og ég segi það satt! Einn kennaranna var starfsmaður hjá Tollstjóraembættinu....og;
Súkkulaði ber hærri virðisaukaskatt en matvæli.
Kex flokkast undir matvæli.
Kex m/súkkulaði .....arggg! þarna vandaðist málið. Tekin var ákvörðun um að miða prósentuna við sykurmagnið. Tíminn var naumur og því brugðu nokkrir starfsmenn á það ráð að kaupa allt kex m/súkkulaði sem fyrir fannst/finnst. Smakka og ákvarða álagninguna, samkvæmt;
Ef kexið var gott (á bragðið) 24,5 %
Nú ef ekki 14% (leiðréttið mig ef röng %)
Án undantekninga reyndust bragðlaukarnir hafa rétt fyrir sér, þannig að sykur er bráð (segi kannski ekki hollur) en góður! Og dýr!
Jæja en "sæluvikan mín"...
í henni felst eftirfarandi: Hér minnkar letrið niður í smáaletrið, sem þið nennið ekki að lesa en ættuð öll að gera (hver hefur ekki heyrt um smáaletrið hjá Tryggingafélögunum?) Engin les fyrr en sæluvikan, tímabilið er liðið....
Þetta þarf að gera:
Þrífa tunnugeymslu, hjólageymslu, þvottahús og geymslugang
Ryksuga forstofu, pallinn niðri og stigann upp á 2. hæð
Pússa gler og póstkassa
Sópa stétt og týna saman rusl á sameignarlóð báðu megin hússins.
Á mánudagskvöldi
Þarf að skipta um ruslatunnu því sorpbíllinn kemur yfirleitt á þriðjudagsmorgni......
Þriðjudagsmorgnarnir eru einmitt toppurinn á sæluvikunni! Mig hlakkar óseganlega mikið til!
Það er eitthvað með mig og menn í uniformum. Hvítsloppar (hef alveg verið skotin í einum eða tveimur) , lögreglumenn (jebb - 2ár - fóðruð bleik handjárn og allur pakkinn), stöðumælaverðir (á það til að leggja upp á gangstétt, í, á, ofaná, Bankastrætinu, rétt til að sjá þá koma hlaupandi með ástarbréf til mín...) brunaverðir (með slönguna...) dettur ekki fleiri í hug í augnablikuna er límd með hugann við þriðjudagsmorguninn!
Þá koma ruslakarlarnir mínir. Bestu karlarnir!
Ég taldi mér trú um það fyrir um einu og hálfu ári síðan að þörf væri að losa sig við allt gamalt drasl. Að það myndi einfalda líf mitt. Trúi því enn.
Þegar ég svo flutti, henti ég óspart óþarfa. Húsgögnum, minningum og hluta af sálarlífinu. Sér ekki fyrir endann á þessu, þarf eilíflega að losa mig við meira, meira, meira...., endurskoða, raða, henda, velja, hafna. Verð eitthvað öll svo létt og lipur þegar ég sé þá keyra "karlana mína" í burtu frá mér....með draslið.
Þá byrjar sæluvikan mín ...
Að þessu slepptu er komin skilgreining frá Jens (bloggfélaga) á morgunógleðina.... stinga upp í hann/hana kleinu í morgunsárið. Morgunfíla, ku vera of hraðri brennslu um að kenna. Hungur semsagt. Er fyllilega sátt við málalok og mæli eindregið með að fólk sofi í sokkum með kleinupoka sér við hlið Vildi bara að ég hefði vitað þetta fyrr....
Njótið helgarinnar sem og allra annarra nammidaga vikunnar...
Ykkar einlæg.
es. ekki smuga að þið getið skýlt ykkur á bak við það að hafa ekki lesið smáaletrið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)