Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Handalaus og heilsulaus
30.12.2007 | 15:02
Prinsessan er ein í höllinni með brennóbolta fastan í hálsinum. Af tvennu illu kysi ég nú að frekar að vera heyrnalaus en handalaus. Laus við boltann í hálsinum og í stað þess væri ég til í að horfa á fótbolta á vellinum, jafnvel í blíðveðrinu sem heillar allt og alla uppúr skónum, án skó-fata....Sl. sólahring hefur nefnilega allflest sjónvarpsefni verið textað og ég er komin með upp fyrir haus og allt um kring af flensuófeti og fjárans exemi og sjónvarpi og einsmanns samræðum í síma. Nálægt mér vil ég engan þegar staðan er svona...
...en annars þrusugóð með smyrsli í hárinu á höndunum og nebbaling....og Diddi sefur sínum værasta...áhyggjulaus.
Ef ég lít yfir síðasta ár, stendur svo sem margt upp úr eða hvað? jú jú eitthvað...
Sá Gullfoss og Geysi í fyrsta skipti, jólasveinninn kom nefnilega og sótti mig í heim eina sumarnótt þessa árs...sýndi mér þessa tvo staði og ég var frá mér numin...helltust yfir mig áður óþekktar tilfinningar, ekki vegna félagsskaparins heldur þessum svakalegum krafti, fegurð og þeim áhrifum sem ég varð fyrir þegar ég stóð þarna hjá Gullfossi. Ætla aftur að sumri í góðum félagsskap, ekki spurning.
Sú tíðindi, sem eru tíðindi er; (sér í lagi ef litið er til þess að frá 0 - 12 ára aldurs flutti ég 24 sinnum....) bý ég enn á sama stað og uni mér vel. Og önnur tíðindi sem eru tíðindi, og vita þeir vel sem til mín þekkja,...að ég hef að mestu verið laus við að flækjast í sambönd sem ekki eru mér samboðin...gott að eldast, maður verður skynsamari með aldrinum. Verst kannski að maður verður vandlátari, sem að sama skapi er best.
Mun ég í framhaldi vanda mig í að hafa allt sem best í kringum mig. Hverja stund. Alltaf.
Ég byrjaði svo að blogga á árinu...sem hefur veitt mér meira en mikla gleði og ánægju. Svo hef ég verið svo lánsöm að hitta suma bloggvini mína á förnum vegi, einu sinni hitti ég Erlu1001, yndisleg stelpa og falleg og nú síðast Ásdísi Sig...skrítið en samt svo fallegt að segja frá því að í bæði skiptin varð ég pínu feiminn....mér fannst einnig gaman að sjá að Ásdís er svona alvöru einhvernveginn ástfanginn af manninum sínum....ÞAU VORU ÆÐISLEGA KRÚTTLEG OG FALLEG SAMAN.
Púff -ég veit ekki....en allavega veit ég...að ég skal minna sjálfa mig á það þegar ég verð komin með hendur og heilsu að vera þakklát þakklát þakklát!
Gleðilegt ár til ykkar allra, og þakklæti fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Þetta er kjaftæði
28.12.2007 | 17:54
Hugsa sér...ég á aðeins eina einustu mágkonu sem er og verður, alltaf, fyrrverandi - núverandi og sú eina í minningunni sem er mér kær. Svona uppáhalds. Sú hin sama dama (vú -mín komin í skáldagírinn bara)...skilaði mér bók á aðfangadagskvöld, sem ég hafi fengið að gjöf árið 1994. Sjálfsagt hef ég lánað henni bókina þau jólin, minnist þess ekki að hafa séð hana áður. Kannski er það mesti og besti kosturinn hennar mágkonu minnar, það er ekki bölvuðum göslaganginum fyrir að fara, í hennar fari. Bara svona einn dagur í einu í gangi í marga marga marga daga og ár...
Í nótt þegar ég lá við hliðina á Didda, sem er alltaf sofandi, neitar að vakna þrátt fyrir ítrekar tilraunir dóttur minnar við að rífa af honum hausinn og opna augun, bilti ég mér fram og tilbaka, eða þar til ég dreg fram bókina. Bókin er um meðvirkni og er ég nú sérfræðingur þegar kemur að meðvirkni, framvegis kem ég til með að segja nei nei og aftur nei, þegar ég meina já....engin sveiflar mér fram og tilbaka tilfinningalega, ....mörkin eru skýr.....ég lá semsagt yfir bókinni framundir morgun í notalegum faðmi Didda. Og er ég næstum orðin doctor í fræðunum...
Eitt einasta atriði stendur upp úr í bókinni samt;
Það er ekki auðvelt að finna hamingjuna innra með sér og ógerningur að finna hana annarsstaðar!
Ég er alls ekki sátt við þetta...bara alls ekki! Þetta er kjaftæði og fáránlegt að lifa samkvæmt þessari speki!
Hef sko alveg fundið hamingjuna annarsstaðar, skammvinnan og stundum til lengri tíma þótt ég hafi ekki verið beint sátt eða hamingjusöm með sjálfa mig eða mína stöðu. Og verið aldeilis sátt í eigin skinni þótt tilefnin væri nú beint ekki til staðar. Fann það til að mynda í dag þegar ég var að keyra af fundi v/vinnunnar... andvirði maskarans sem voru á augnhárum mínum var hærra en farartækið sem var að verða bensínlaust, renndi sér mjúklega á sumardekkjunum upp og niður hóla og brekkur...með skottið fullt af rifnum osti....
...að ég var drullu-happy! Drullu - djö - happy! Og mér fannst það fucking gott! Ég er ekki einu sinni á sýrutrippi ...bara er...og það er gott að vera.
Já og árið að fara...ég hugsaði í morgun...hjúkk að tjékkar eru ekki enn við líði! Þá væri ég að skrifa 2007 fram í júni...en þar sem þær áhyggjur eru frá, hef ég minnstu áhyggjur og kveð árið án nokkurs trega. Sátt við guð og menn og mýs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Gredda og steraputtar
27.12.2007 | 20:55
Einu sinni átti ég vin, hann var og er (held ég) samkynhneigður, hann var fíkill í margskonar skilningi. Þar á meðal skilgreindur kynlífsfíkill. Mér fannst þetta þá alveg þrælsmellið orðtak og skilgreining á því sem þá var í daglegu tali skilgreint hrein og klár gredda!
-hva....þú ert bara graður! sagði ég við hann þegar hann sagði mér að hann væri að sækja fundi vegna þessa.
-nei Heiða, ég er ekki bara graður! En þú ert einsog umferðaskilti....alltaf logandi á grænu!
-þegiðu fíflið þitt! í alvöru? .... ertu að segja að ég sé lauslát eða...? búin að vera með sama manninum í 10 ár! og enhverjum tveimur þar á undan...
-jebb, ég er hommi samt sé ég þessa fjandans orku frá þér -semsé alltaf logandi á grænu! .....osfrv.
-það er eitthvað meira en lítið að þér maður!
Með umferðaskiltislýsinguna á sjálfri mér og miður mín í aðra röndina spyr ég manninn sem var þá í mínu lífi...útí græna ljósið...
Hann segir; blessuð vertu, hann á bara við að þú sért ríðileg! Þetta er complement Heiða! Í guðana bænum vertu ekki svona mikil tepra...
RÍÐILEG! hvæsti ég á hann... setti hann svo í fimm daga farbann í himnaríki.
Síðan þá hef ég aldrei getað skilið á milli greddu og kynlífsfíknar... Aldrei getað skilið að fólk missi stjórn á eigin lífi útaf greddu, aldrei skilið vanmáttinn gagnvart greddu...aldrei skilið meðvirkni með greddu...þráhyggju útaf greddu...
...sumt ber manni einfaldlega ekki að skilja.
Hver vill svo sem vera ríðilegur? gáfulegur? álkulegur? greddulegur? ég vill bara vera ég!
Enda sit ég hér núna með hvíta bómullarhanska og innpakka fingur í sterakremi...afundinn og snúinn, kannski afþví ég skil ekki neitt. Og er bara ég...
Segir Lohan vera kynlífsfíkil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 28.12.2007 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
hálfrakaður pungur á aðfangadag
26.12.2007 | 22:23
Ja hérna hér...á aðfangadag elskaði ég alla, einsog ég alla jafna geri...
...á aðfangadag þegar ég stóð á náttsloppnum fyrir framan jólatréið mitt, nýkomin úr baði, á leiðinni suður með sjó...hugsaði ég með sjálfri mér;
-skrítið, nú er ég að fara að eyða aðfangadegi með mínum hitti-hitti-hitti-fyrrverandi...og ég er virkilega að gæla við þá hugmynd að opna pakkann frá mínum fyrrverandi og gefa hitti-hitti-hitti-fyrrverandi! Vissi að það var bók, vissi að það var góð bók...hann gefur mér alltaf góðar bækur...
...nei Heiða Bergþóra skammastu þín!
Mér fannst samt hugmyndin stórsmellinn þegar ég hugsaði til þess að minn hitti-hitti-hitti-fyrrverandi lægi í rúminu á aðfangadagskvöld með nátthúfu á höfðinu, með bók frá mínum fyrrverandi. Eiginlega mjög krúttleg tilhugsun, og ennþá fyndnara var að hugsa til þess að ef til vill væri hann með hálfrakaðan pung...
Þar sem ég sit svo við jólaborðið degi seinni og er eitthvað annarshugar með munninn fullan af hangikjöti heyri ég í fjarska á móts við mig...
...kiðlingur eða heimalingur....
...hvað það hefur með hálfrakaðan pung eða heilrakaðan pung að gera, hvað þá hrútspung er mér fyrirmunað að skilja...
...veit það þó eitt að umræðan var langt í frá listaukandi, á jólunum vill maður sem minnst heyra rómantískar sögur af heimalingur og ellirærðum rollum sem e.t.v. sitja til borðs með manni...ekki frekar en nokkur fær að vita að á heimilinu var sykurinn uppurinn og í stað sykurs fleygði ég út í uppstúið einum konfektmola...
Þakka ykkur öllum kveðjurnar elskurnar mínar, segi það satt og meina það heilshugar að mér þykir virkilega vænt um ykkur...
Sóldís Hind, Ari Brynjar og Hildur :)
Myndin tekin nú í kvöld...hálf og hálf og hálf systkini kærstur og stakur faðir...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Ég á mér ósk...
21.12.2007 | 00:50
Ég ætla að segja ykkur leyndarmál...
:
:
:
:
:
:
:
:
:
:
:
:
Ég er ófrísk...
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
:)
þá eru þið búin með heilaleikfimina fyrir daginn...dugleg voru þið...hressandi ekki satt að skrolla svona niður?
...og ég veit ekkert hver pabbinn er...
:)
:)
:)
:)
Harðsperrur?
....smá djók...hvað eru annars margir dagar til jóla? Ég er annars mjög létt, þakka ykkur fyrir.
Búin að öllu sem máli skiptir...þannig að núna er komið að biðinni, þar til himnarnir opnast klukkan átjánhundruð á aðfangadag og stórmerkilegu undrin munu birtast mér og þér og okkur öllum.
Langaði svona í framhjáhaldi að segja ykkur hversu ómælda gleði þið hafið gefið mér sl. ár. Og þakka ykkur um leið fyrir það. Þið eruð svo yndæl og frábær og gefandi þannig að mig langar að færa ykkur öllum gjöf. Þið eruð langflest ykkar, svo nálægt hjarta mínu að mér finnst ég tilheyra ykkur órjúfanlegum böndum. Takk fyrir það. Þið vitið hver þið eruð. Svona cyber-fjölskylda.
(og nei....ekkert cybersex takk -með myndum .....)
Gjöfin mín til ykkar er ósk.
Óskin er innpökkuð, umvafin rauðri slaufu af kærleika.
Óskin er; að þið eigið öll hamingjuríka og gleðilega hátíð. Óskin mín til ykkar er einnig að allar ykkar væntingar og óskir rætist.
Hafið þið það öll sem allra allra best elskurnar.
Ykkar Heiða
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (61)
Ég sakna pabba
18.12.2007 | 22:24
Í æsku var pabbi jólasveinninn minn, í orðsins fyllstu merkingu. Sá hann 1 sinni ár ári, á jólunum einmitt. Þá kom hann iðulega færandi hendi einsog jólasveinninn, angandi af brennivínsfílu...en það var í góðu lagi, þannig átti það að vera, hélt ég. Mér er minnistætt eitt skipti sem hann kom færandi hendi, í krumpuðum jakkafötum, unaðslegur ilmurinn af brennivíni fyllti vit mín þegar hann tók mig í fangið. Allt sem honum viðkom var ÆÐISLEGT, enda hafði ég beðið hans í ár. Hann kyssti mig á kinnina og einsog mér var mikið í nöp við skeggbrodda þá voru broddarnir á vanga pabba, einsog vingjarnlegt blíðuhót.
-Sjáðu bara hvað ég keypti handa þér elskan mín! Það er afþví pabbi elskar þig svo mikið...
Þessi jólin inniheldu kassarnir, skauta og hjólaskauta, skíðaskó (ekki skíði) og risa-risa-stóran konfektkassa.
Mér er minnistætt að hálfsystkini mín dauðöfunduðu mig af höfðingsskap pabba, enda var hann jólasveinn. Jólasveinninn minn. Ég man líka að þessar 10 mínútur í andyrinu liðu alltof hratt...og biðin þar til hann birtist á ný, var heil eilfíð. En þannig átti það auðvitað að vera líka...því annað þekkti ég ekki.
---
Í framhaldi, er ég að hugsa um þá gífurlegu ábyrgð foreldra, þegar kemur að því að mynda raunveruleika barna sinna. Hvað er þeim eðlilegt, hvað við innrætum þeim...ég veit til að mynda að stelpan mín telur ólíklegt að ég og pabbi hennar komum nokkrun tíma til að halda jól saman...
...og þá dettur mér auðvitað enn eitt í hug... þetta með að axla ábyrgð á okkur sjálfum sem fullorðnum einstaklingum. Ég þekki til konu sem kennir erfiðu uppeldi um hennar óstjórnlegu frekju. -Svona er ég bara... og svona verð ég! -Veistu hvað ég þurfti að þola þegar ég var að alast upp? ....jaaaaaaa, ef þú bara vissir!
Málið er nefnilega að mínu viti ... að ef maður veit, þá einmitt hefur maður tækifæri til að bæta sig. Svo eru auðvitað sumir sem kjósa að nota allskyns svona verkfæri til að réttlæta sjalft sig og hegðun sína...
...var einmitt að hugsa um að hringja í mömmu í kvöld og segja henni að ég hafi axlabrotnað enn eina ferðina...
-Gastu ekki gefið mér meiri mjólk mamma í stað þess að panta upp úr Freemans þegar ég var að alast upp? senda mig með nesti í skólann, í staðinn fyrir bleika varalitinn sem þú keyptir fyrir síðasta aurinn?...veistu hvernig það er að vera svona brothætt?
...en ég hætti við...
...veit sem er að ég er ekkert bættari með að velta mér upp úr fortíðardrullu-malli...nema að því leyti kannski að nýta mér það til góðs fyrir sjálfa mig og aðra.
Ég á tildæmis nóg af mjólk og fullt af varalitum en samt aura í buddunni...en ég sakna pabba alltaf á jólunum...þó ég sé alveg kona og allt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Brennum nærbuxurnar.
17.12.2007 | 23:54
Má ég frekar biðja um box með engum g-streng. Gæti ekki verið náttúrulegra og umhverfisvænna.
Annars er staðan sú að ég er nær dauða en lífi, skreið nánast heim í kvöld ...illa farið með góða konu. Rassakrem, tippate, og hvað þetta heitir allt saman kemur aldrei í stað langþráðrar hvíldar...
Þeir sem vilja minnast mín er bent á Samtökin; Brennum allar nærbuxur!
Umhverfissamtök mæla með g-streng í jólapakkann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Alvöru jólasveinn?
16.12.2007 | 22:49
Ég er frekar lásí jólasveinn en ég hitti annan mun slappari í dag. Ég vaknaði í nótt við dóttir mina þar sem hún var komin í hálsakotið og hvíslaði syfjulega;
-mamma, má ég kíkja?
-nei elskan, það er nóttin, haltu áfram að sofa...jólasveinninn er ekki búin að koma, hvísla ég á móti. Sem hún og gerði. Ég lá glaðvakandi í myrkrinu og hlustaði á andardráttinn hennar og þegar ég var viss um að hún væri sofnuð... læddist ég framúr og upp í skáp.
Ég raðaði samviskusamlega í báða skóna í myrkrinu; bókinni um Sóleyu prinsessu, logandi hjartaljósi og sælgæti. Hugsaði með mér; vonandi endist batterýið þar til hún vaknar...
...það logaði enn.
Hún leit ekki við sælgætinu, var frá sér numið af ljósinu og lestrinum í morgunsárið.
-Jólasveinninn er góur...mamma...svona svona góur! sagði hún og lyfti litlu höndunum hátt - hátt - hátt...
---
Seinnipart dags kom ég auga á jólasvein í Smáralindinni. Hann var á hraðferð, held að hann hafi verið á leið í kaffi...ég greikkaði sporið með stelpuna á arminum og náði karlinum. Talaðu aðeins við hana segi ég...
Hann lítur á mig, frekar fúll og sjálfsagt hugsandi;....OH, enn einn krakkinn...
Sóldís starir á hann, frá sér numin, ljómar og segir;
-Hæ!
-Ég er alvöru jólasveinn sjáðu...hann togaði í skeggið á sér... -prófaðu rífðu í skeggið á mér! skipar hann óðamála ...ekki beint blíður á manninn...
Stelpan starði á hann undrandi...afhverju ætti hún að tosa í skeggið á honum? Hún rífur ekki í hárið á mömmu sinni....afhverju ætti hún að efast um að hann væri alvöru jólasveinn? Hann bar engin merki þess að vera góður og blíður einsog í sögu móður hennar kvöldið áður...
Ég reif í (alvöru)skeggið... frekar harkalega og fast...segi við Sóldísi sem horfði á mig undrandi; -það er alltí lagi að toga í þennan jólasvein, bara ekki hina elskan...við horfðum undir hælana á honum þar sem hann rauk í burtu...kannski var honum mál að pissa...
...ljóta fíflið!
---
Ari minn litli-stóri var í Smáralindinni með kærustunni...greip þau glóðvolg og fór með þau í jólaland...við frekar dræmar undirtektir. -Komiði ég ætla að taka mynd af ykkur...Ari var lítið hrifin, kærastan flissaði...við vorum einsog sveitamenn frá Suðureyri við Súgandafjörð og vöktum athygli vegfarenda þar sem ég mundaði stóra myndavél 2,1 MP - skipaði þeim að brosa og segja skyr....
Fallegar þessar elskur
Hjartaljósið sem dóttir mín fékk frá "jólasveininum" logar enn á náttborðinu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Þetta drasl...
16.12.2007 | 03:09
Ein jólin fyrir einhverjum árum vorum tilfinningarnar að bera mig ofurliði, gagnvart móður minni. Ást mín til hennar var og er gjörsamlega einlæg og takmarkalaus. Þessi jól langaði mig að gefa henni eitthvað alveg sérstakt. Það er alltaf erfiðast að gefa mömmu. Ég átti svo sem nægan aurinn. En staðreyndin var sú að hún á flest allt veraldlegt. Það var/er varla hægt að loka fataskápunum fyrir fatnaði, og það af öllum stærðum, fer eftir því hvort hún sér sig stærð 8 eða 16 þann daginn sem innkaupin eiga sér stað. Gull er að finna í fjöldan allan af skúffum. Nokkrir trúlofunar- og giftingarhringir sem hafa verið soðnir saman og sameinaðir í klumpa, liggja þar á meðal.
Ef ég bæti svo mikið sem einu stykki kílói á minn grannholda rass, á ég á hættu með að brjóta innanstokksmuni eða fleygja niður blómaskreytingu þegar ég kem í heimsókn. Imvötnin í hillunum kæfa skitafíluna af eftirlíkingunum. Veggirnir eru drekkhlaðnir, því lenda myndirnar af barnabörnunum undir rúmi. Þessi jól vildi ég gefa henni eitthvað alveg spes, svona með öðru, sjálfsagt einu ilmvatninu til eða kreminu sem lofar eilífri æsku. Efasemdir gerðu þó vart við sig...
Settist niður með þær upplýsingar að vopni að það er hugurinn sem gildir. Hugur minn var hjá henni og ég lagði hjartað í gjöfina. Rómantískar hugleiðingar um blik í augum hennar kinkuðu upp kollinum. Ég útbjó lítinn ferkantaðan kassa. Pakkaði honum inn í fallegasta pappírinn sem til var í búðinni. Límdi að innaverðu, þannig að engin voru skilin. Skreytti hann með örfínum silkiborðum, blúndum og agnarsmáum silkiblómum. Gjöfin var bleik og hvít. Uppáhaldslitirnir hennar á þeim tíma. Útbjó svo með fínlegu letri lítið kort með samskonar pappír, og næstu kvöld fram að jólum fóru í að hnoða saman texta.
Hann var eitthvað á þessa leið;
Elsku fallega mamma mín,
Þessi gjöf er afar sérstök,
sem þú mátt aldrei opna.
Þegar þér líður illa,
taktu hana í hönd þér,
haltu upp að hjartanu.
Þá þú veist og finnur að ást mín,
og hugur er ávallt hjá þér.
Ég elska þig,
Þín dóttir Heiða.
Þegar ég svo keyrði út gjafirnar á aðfangadagsmorgun átti þessi litli pakki, farþegasætið. Þetta var stærsta gjöfin í sjálfu sér. Þetta var fallegasta gjöfin og sú dýrasta þar sem ég hafði lagt hjartað í hana.
Því miður þurfti hún leiðbeininga við, mömmu fannst alveg fáránlegt að mega ekki opna hana. Ég útskýrði fyrir henni að ekkert væri inn í pakkanum, nema ást mín til hennar...
-Láttu ekki svona Heiða, sagði hún einsog afundinn krakki... hvað er inní pakkanum?
... það skyggði aðeins á gleðina...
Árin liðu og gjöfin fékk sess á hornskots-borði einu þar sem gestir og gangandi sáu. Verðgildið jókst í huga móður minnar þar sem fjölmargar athugasemdir á borð við; -Nei nei mikið er þetta fallegt... -hva, afhverju fjöldaframleiðir hún ekki pakkana og selur...þetta er svo sniðugt og sætt!
En maður fjöldaframleiðir ekki ást...
Mamma sagði og dæsti;
-æi þið vitið hvernig hún Heiða er....sjálf skil ég ekkert í henni!
Einhverju sinni er ég í heimsókn. Ég hélt niður í mér andanum þannig að blómadraslið fyki ekki niður af borðum og hillum. Hélt á instant kaffinu, þvi ekki var pláss fyrir kaffikönnu, hvað þá kaffibollann á borðinu. Þegar ég svo loks andaði að mér og var nánast við það að kafna úr ilmvatnsfílu, þá sé ég pakkann. Hann var orðin eitthvað lúin og litla kortið með textanum dottið af honum, en lá samt sem áður við hliðina, ...ég segi aðeins hrærð;
-Nei, mamma, æi en sætt...áttu þetta ennþá?
-hvað?
...hún lítur í kringum sig og sér hvar ég bendi...já þetta drasl...ég man ekkert hvaðan ég fékk þetta...
...þið megið eigna ykkur hugmyndina, hún er eiginlega verðlaus
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Geðveiki - fyllerý á aðfangadagskvöld
14.12.2007 | 22:51
Ég var búin að skrifa færslu sem ég eyddi. Hún snerist að mestu um karlmann sem kunningakona mín náði sér í, skallinn á honum er einsog London bridge (að hennar sögn)...og svo maskara sem ég geypti með loforði um kóngulóarlappa - lúkk...svo hugsaði ég; dísess Heiða...hver vill kóngulóar-lappa-lúkk! og hverjum er ekki sama um karlmann sem greiðir yfir skallann -sem lýtur út í kjölfarið einsog brú......common...þú ert glötuð! Were is the spirit girl?!
Það eru nefnilega nokkrar færslur sem hafa sérstaklega fengið mig til að hugsa undanfarið. Eða hugsa meira. Tvær þeirra eru að finna á; asgerðurjoh.blog.is - icekeiko.blog.is.
Í framhaldi kemur mín;
Jólandinn hefur ekki náð tökum á hjarta mínu. Á heimilinu mínu er allt skreytt og hef ég þrifið allt hátt og lágt. Jólatréið stendur meira að segja logandi einsog viðundur og finnst því engan vegin eiga heima þar sem andann vantar. Kannski afþví það vantar toppinn á tréið. Tónlistin hljómar uppáþrengjandi úr útvarpstækinu í veikri von um að koma mér í gírinn. Ekkert skeður. Bökunarilmur er engin, hér hefur ekki verið bökuð svo mikið sem ein skitin sort vegna anna. Ekki ein einasta jólagjöf hefur verið keypt.
Í uppvextinum mínum var jólahátíðin á mínum heimilum með margvíslegu sniði. Það var samt oftast hamborgarahryggur og hangikjöt. Man samt þegar ég gramsa í minningarpokanum, að ár hvert beið ég með hnútinn í maganum og með barnslegri eftirvæntingu, eftir einhverju "sérstöku" þegar klukkan sló sex og hið óvænta skeði. Ekkert gleðilegt skeði. Man einnig eftir tómleikatilfinningunni er líða tók á kvöldið. Stundum greip skelfing mig þegar ég átti að fara að sofa. Var auðvitað fyrir löngu búin að kíkja í alla pakka og loka samviskusamlega aftur, meira að segja í pakka þeirra, sem heima áttu hvar og hverja stundina í uppvextinum mínum. Það voru svolitlar mannabreytingar nefnilega.
Ég ætla nú svo sem ekkert að fara að segja einhverjar hryllingssögur um uppvöxt barna sem alast upp í ofbeldi, drykkjuskap og geðveiki, því fer fjarri. En það sem mig langar að koma að er sú ákvörðun mín að það skiptir ekki máli hvort það sé 24. des...18. jan eða 3. nóv... maður ætti að tileinka sér "andann" alltaf, sérstaklega gagnvart börnunum sínum. Líka öðrum. Og það að gefa öllum stundum...eitt lítið skitið bros og hrós og hjálpa öðrum. Af einlægni, heilindum og án þess að vænta einhvers í staðinn.
Hlúa sérstaklega vel, að viðkvæmum barnshjörtunum, ekki bara á aðfangadag. Heldur alltaf. Verja þessum litla tíma með þeim sem við höfum, vel. Láta þau finna fyrir öryggi, alltaf. Vera svolítið góð og betri og best við hvort annað. Líta í kringum sig og athuga hvort einhverrar hjálpar er þörf. Ég er ekki að tala um fjárstyrki hér.
---
Síðasti aðfangadagur var ekki hefðbundinn í neinum skilningi. En hann var einn sá yndislegasti til þessa. Við dóttir mín vorum saman tvær. Pakkarnir voru opnaðir um hádegisbil. Ég hafði unnið gríðarlega mikið þann desembermánuð og var úrvinda. Var því feginn að taka lúrinn með henni. Áður en við kúrðum okkur saman þá stakk ég hamborgarahryggnum í ofninn. Þegar við vöknuðum tveimur og hálfum tímum seinna angaði íbúðin af hryggnum. Þegar ég opnaði ofnskúffuna blasti við kolbikasvart kjötið. Hitinn hafði verið settur á of hátt...kjötið var einsog harðfiskur. Ég hló og auðvitað hló hún með mér. Ef ég hefði tekið einhvern annan snúning á þessar aðstæður (sem ég hefði aldrei gert -þarf meira en þetta til að koma mér úr jafnvægi) þá hefði það vitaskuld hrifið litla hjartað með...
Ég sauð þvi pylsur enda uppáhald dótturinnar...við stripluðumst á náttfötunum langt fram á kvöld, hlustum á tónlist og nutum samvistanna í botn. Lékum okkur að dótinu hennar nýja og það var ekki látunum fyrir að fara. Engar óvæntar uppákomur, engin rifrildi, aðeins nærvera með litlu elskunni minni. Engin bið eftir að klukkan myndi slá í sex...klukkan var einfaldlega sex allan tímann.
Bloggar | Breytt 15.12.2007 kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)