Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
Hrikaleg vandræði!
29.11.2007 | 22:43
Ég er í svakalegum vandræðum. ROSALEGUM! Algjörlega í öngum mínum. HJALP!
Í kapphlaupi við sjálfa mig og tímann í morgun fór ég í ein mest plain en dýrustu stígvélin mín. Núna fjórtán klukkutímum síðar er ég ennþá í einu þeirra. Rennilásin er fastur og ég er búin að reyna að tala það til...strjúka því...gæla við það...en allt kemur fyrir ekki. Pikkfast. Hvað gerir maður í svona stöðu? Jú sest niður og deilir vandræðaganginum með bloggvinum og vonar að bévítans stígvélið renni af mér að því loknu...
...annars sef ég nakin í einu svörtu leðurstígvéli... Búin að reikna það út, að það er hagkvæmara að klippa utanaf mér buxurnar...heldur en stígvélið.
Hér sit ég innan um tölvuúrganga...sem liggja á víð og dreif útum alla íbúð eftir son minn og vin hans, síðan á miðnætti í gærkvöld. Þeir komu...sáu...sigruðu....fiktuðu og skildu mig loks eftir í gleðivímu þegar þeim loksins tókst að tengja nýja tölvu-gripinn.. Sonurinn gekk út að því loknu með forláta vatnshelda bað-útvarpið mitt og vin sinn og skildi ekkert í þakklæti mínu.
Annars indælasta kvöld...rokið og regnið lemur rúðurnar, inni logar kertaljós og friður og falleg tónlist ásamt stútfullum sætum og krúttlegum hugsunum sem verma hjartað.
Gjörsamlega óskipulög fríhelgi framundan með litlu sólinni í lífinu mínu.
Góða nótt ...wish my luck...eina sem skyggir á gleðina er já....
damn...stígvélið!
Snerting - lykt - nærvera og bragð. Hún Ásthildur kom með það...þessi elska.
Nú tek ég niður hanskana...þefa hann uppi...káfa á honum og loks ét ég hann með húð og hári! skítt með stígvélið...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Viðkvæmur í geirvörtunum...
29.11.2007 | 01:38
Hvað segir maður eftir geggjaða nótt? Margt og mikið svosem...það voru púkarnir. Þvílíkir belgir...djöfluðust báðir tveir og hoppuðu einsog vitfirringar ofaná mér uppí rúmi til að ganga fjögur í nótt. Ætlaði aldrei að geta sofnað fyrir kvikindunum litlu. Fleygði þeim fram í stofu en þeir smugu inn um rifuna...reittu hárið mitt og kitluðu mig þar til ég var næstum búin að pissa í mig af hlátri.
Þegar ég er andvaka og berst við að sofna þá fer ég að hugsa ....hugsa mikið og meira en vanalega. Einsog það sé ekki nóg.
Ég ætla að gefa ykkur innsýn inn í eitt....EN ALLS EKKI ALLT...sem ég hugsaði í nótt.
Þegar ég var nýkomin frá NZ og farin að vinna hjá virtu fyrirtæki hér í borg, er ég eitt kvöldið stödd á Hótel Örk að sækja fyrrverandi fósturföður sem þar var að spila. Ég sit þarna við borð og þá koma til mín tveir útlendingar...ég man að það fór í taugarnar á mér, þarna sem ég sat og hlustaði á tónlist sem hreif hjarta mitt...þetta var eitthvað svo magnað augnablik. Ég minnist þess hvorki fyrr né síðar að tónlist hafi haft svona rosalega mikil áhrif á mig einsog þetta kvöld. Þeir vildu ólmir halda uppi samræðum og ég gerði mitt besta og fórst það vel úr hendi, að gera þá skiljanlega um að félagsskapar þeirra væri ekki óskað.
Annar spyr mig að lokum um bestu veitingastaðina í Reykjavík. Þrjá staði fyrir kvöldin sem þeir ættu eftir að dvelja í borginni. Án þess að brosa fer ég ofaní veskið mitt og sæki blað og penna og skrifa;
Perlan - Lækjarbrekka - Við Tjörnina.
Læt annan þeirra hafa miðann...
Daginn eftir er ég í vinnunni hjá þessu fyrirtæki. Síminn hringir og útlendingur á hinni línunni. Til að gera langa sögu stutta, var það einn mannanna. Ég spurði; hvernig veistu hvar ég er að vinna? (ekki ánægð) ég hafði þá skrifað aftan á nafnspjaldið mitt veitingastaðina þrjá. Hann sagði mér frá vini sínum sem hafði þurft að fara strax heim vegna dauðsfalls í fjölskyldunni og þetta var allt vægast sagt dramatískt...og bauð mér á staðina þrjá. Þann fyrsta þarna strax um kvöldið. Svarið var einfalt; No way!
Á þessum tíma vorum við Ari minn (sonur) ein ...og eina tilbreytingin var þegar við fengum okkur tómatsósu með kjötbúðingum... maðurinn hringdi aftur og aftur og í þriðja skiptið þegar ég var búin að fá sendan þann alstærsta blómvönd sem ég hafði augum litið á nýja vinnustaðinn og ómælda athygli í leiðinni...sem ég vildi alls ekki. Lét ég tilleiðast... með einu skilyrði;
Að Ari minn fengi að koma með öll þrjú kvöld. Það var auðsótt mál og samþykkt og allt án nokkurra skilyrða...auðvitað sagði hann....ég elska börn. Á þrettán sjálfur!
Það sem eftir lifði dags nagaði ég mig í handarbakið...ertu fáviti Heiða - nei nei þú ert bara svo cool og spontant ...þetta er flott býður stráknum þínum loks flott út að borða....og allskyns raddir, allsstaðar að, öskruðu á mig. Við fórum. Öll kvöldin. Borðum flott og ég get með sanni sagt að framkoma mannsins gagnvart mér var þvílík að ég hef sjaldan fílað mig sem eins mikla drottningu.
það næsta sem ég komst nálægt einhverju ósæmilegu ef ósæmilegt skyldi kalla var að hann trúði mér fyrir því hann væri sérlega næmur í geirvörtunum...og ég sagði bara:
-já er það...í alvöru? án þess að reyna hið minnsta að komast að sannleikanum.
Hann sagði líka annað...eitthvað í sambandi við að ef fjórir hlutir í samskiptum konu og karls væru í lagi...þ.e. lykt, bragð, nálægð...og þetta fjórða er ég búin að vera að brölta með í alla nótt og annaðslagið í allan dag en get ekki munað það. Þá væri allt annað í lagi.
Hann fór heim til sín og lífið hélt áfram að vera kjötbúðingur og tómatsósa. Svo fengum við sendar gjafir. Ari minn fékk boomerang handmálað frá Ástralíu...ég man ekkert hvað ég fékk. Einhverjar voru e-mail sendingarnar...eða alveg þar til að hann bauð mér út til London þar sem head-office-ið var af rekstri hans.
Heiða spontant talaði um fyrir Heiðu skynsömu og ég fór út. Til London...fékk loforð og staðfestingu frá hótelinu, á að ég fengi sérherbergi. Reyndar var það flott svíta. Einsog manni sæmir sem kann ekki aura sinna tal, lét hann limmósíu sækja mig á flugvöllinn og keyra mig í þá alstærstu skrifstofubyggingu sem ég hef séð. Og einsog milljónamæringi sæmir lét hann einkaritarann segja mér að bíða meðan hann væri á fundi...mér líkaði hvorugt! Hvorki limminn né biðin.
Helgin var alveg fín (ekki ágæt því ágæt er best) Einhverju sinni á bát hvíslar hann; -Heiða sérðu úrið sem þessi dama er með. Ég kinka kolli.
-Það kostar 2 milljónir.
-Hvernig veistu það?
-Afþví ég er með eins úr...
Ég man að ég var með mynd í fanginu sem ég hafði keypt handa ömmu áður en við fórum á bátinn. Myndin var af Jesú með lýsandi geislabaug og ég hafði keypt hana á markaði fyrir krumpaðan og skítugan fimm dollara seðil. Ég man að ég hugsaði; -ohhh, ég vona að ekki skvettist vatn á hana og hún skemmist. Ég var ekkert stressuð yfir úrinu hans...
Eitt kvöldið beið ég með honum í herberginu hans. Við vorum að fara út að borða. Verið var að strauja skyrtu sem hann hafði keypt þarna um daginn. Ungur strákur kom með skyrtuna og þegar maðurinn sá að brot hafði verið sett í ermarnar...þá gjörsamlega trompaðist hann. Ég hef sjaldan séð eins mikil læti...og aldrei eins mikla geðveiki útaf skyrtu. Karlkvikindið jós yfir hann skömmum og svívirðingum og mér varð svo mikið um þegar strákgreyið var farin að gráta þarna í forstofunni að ég fór að skæla með honum...
Þarna fékk ég staðfestingu á þvi að nærvera hans var allt annað en þægileg...ég var lukkuleg þegar ég sat í flugstöðinni og beið þess að vélin tæki mig heim.
Ég sat á barnum á flugstöðinni og hrærði í köldum kaffibolla þegar ég heyri tvo íslenska karlmenn vera að tala saman...um business...um innflutning á bjór frá Rússlandi svo segir einn;
-nei, nei, heyrðu sjáðu þessa maður!
-já andskotinn sjálfur....djö.... held ég að það væri gott að taka í hana þessa maður!
-já vá...þetta er örugglega high-class hóra!
-nei heldurðu það? hún er ekki klædd þannig..
-nei en þær leyna á sér...hórurnar sko...hún gæti verið rússnesk...eða frönsk...
-tékkaðu á því...
Annar labbar til mín og segir á ensku;
-fyrirgefðu fröken...ertu frá Rússlandi?
-Nei reyndar ekki, íslensk og er ekki einu sinni léleg hóra...ég er bara Heiða.
Auðvitað misstu þeir andlitið...þetta var vægast sagt fyndið móment...
Einkennilegt er, að ég man þetta samtal... einsog það hafi skeð í gær en get ómögulega munað þetta fjórða þarna; , snerting, lykt, nærvera...ahhh....einhver?
... kannski var það bara eitthvað allt allt annað....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Þú færð það aldrei!
27.11.2007 | 23:57
Jæja það er komin tími á hana. Dónafærsluna mína, er engan veginn að standa mína plikt hérna og verð seint sæmd dónaorðu moggabloggara...ef ég fer ekki að taka á honum stóra mínum.
Nú fer klukkan senn að slá í miðnætti og ég ætla rétt að vona að hjú og húsbændur, samkynhneigðir og gagnkynhneigðir, tvíkynhneigðir og einkynhneigðir hafi það notalegt...séu komin uppí og láti vel að hvort öðru. Eða sjálfu sér. Með ljósin kveikt. Helst með 100 W rússneska ljósaperu dinglandi í loftinu. Hárómantísku augnablikin á skurðstofu LSH.
Guð er húmoristi. Hann skapaði konuna og manninn rétt einsog bíla. Karlmenn eru 8 sílendra tryllitæki...inngjöfin í botn og búnir. Konur eru díselbílar þurfa tíma til að hitna og komast í gang. Semsagt þegar maðurinn er kominn á áfangastað er konan rétt byrjuð að roðna í vöngum...eða komast í gírinn.
Tala ekki af reynslu....einsog ég hef minnst á hér...er ég afar víðlesinn.
Ég veit ekki afhverju en einhvernveginn dettur mér í hug þetta augnablik elskenda...þegar hann er búin og hún er ekki búin. Hvað segir hún?...kannski; -svona svona elskan...þetta er allt í lagi kúturinn minn, þetta gengur betur næst...eða hann; -alltaf sama vandamálið með þig kerling, þú færð það aldrei!
Var að tala við einn kunningja í kvöld og hann segir allt í einu; Heiða fer það eitthvað í taugarnar á þér að ég skuli vera svona glaður? Ég svara; -nei að sjálfsögðu ekki, það er gott að vera glaður...hef bara aldrei séð þig glaðan svo ég muni....en svo bætti ég við; -ef mér liði ekki svona vel sjálfri...þá færi það sjálfsagt í taugarnar á mér.
Svona einsog þegar maður keyrir niður eða labbar Laugarveginn á fallegu sumarkvöldi og sér ekkert nema ástfangið fólk og þegar maður er það ekki sjálfur, ekki einu sinni hrifin (eða ég...) hugsa ég stundum afundin og örlítið snúin : -iss piss, þetta endist ekki út kvöldið...
Það er annars yndislegast að vera sáttur. Sáttur við Guð og menn. Sáttur við sjálfan sig. Þá er maður fyrst tilbúin að taka við ástinni...held ég.
Mér er að förlast...ég var nú bara alls ekkert dónaleg í kvöld.
Bíð öllum góða nótt inn í nóttina....dreymi ykkur bara fallega og vel...að ógleymdu;
megi allir ykkar draumar rætast... held ég mínir muni geri það.
Bloggar | Breytt 28.11.2007 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Sváfu prúðir við hliðina á mér...
27.11.2007 | 12:14
Síðustu tvö morgna hafa þeir verið alveg til friðs. Sváfu prúðir við hliðina á mér og kúrðu hljóðir. Bara sætir og spakir. Bleiki og blái púkinn. Ég er ánægð með þá...
...annað gildir með símann. Á morgnanna finnst mér hringinginn frekjulegri en vanalega. Vekjaraklukkan á gemsanum er einsog falskur og skerandi klukknahljómur. En með fullri vitund og góðri samvisku skildi ég þá báða eftir inn í stofu í gærkveldi...
... auðvitað er það mitt fyrsta verk að kíkja á missed calls-in mín. Og hringja til baka.
-Heiða, hvaðan pöntum við ruslapoka?
-Hvenær kemur kálið?
-Fáum við útborgað fyrir eða eftir helgi?
-Var að spá í hvort þú gætir klippt mig í dag?
-Afhverju er búið að fresta fundinum?
------
Maður hugsar eitt augnablik um að maður sé ómissandi. Sem er auðvitað þvílík fásinna. Engin er ómissandi.
Kannski drullufúlt þannig ...og þá auðvitað dettur mér eitthvað í hug...einsog þetta;
Ef maður er ekki ómissandi þá hlýtur fólk að koma í annars mann stað, líka í/úr sundurtættum og rifnum ástarsamböndum.
Ég sé fyrir mér karlinn að labba með hundinn sem hittir konunna úr þarnæsta húsi. Hún er einnig með hund. Hundarnir láta vel að hvor öðrum, þau kinka kolli til hvors annars, kurteisislega. Þegandi samkomulag ríkir á milli þeirra að hittast á sama stað á sama tíma, daginn eftir. Og daginn þar á eftir og ......og ......og....
Eftir þrjátíuogþrjú skipti er hann farin að segja henni frá vandamálum heima fyrir. Að kerlinginn sé náttúrulaus. Alltaf að rífast í sér útaf engu. Hún horfir samúðarfullu augnaráði á hárið sem er farið að þynnast. Allt bannsettri kerlingunni hans að kenna. Hún segir honum að karlinn sinn vinni alltof mikið. Sofni alltaf strax á eftir og að forleikurinn sé enginn....Hann horfir blítt á barminn sem er við það að springa undan wonder-bra brjóstarhaldaranum og heldur te-pokunum í skefjum og frá hnéskeljunum.
Þau haldast í hendur það sem eftir lifir leiðar. Undir stjörnubjörtum himni, taka þau áhrifaríka ákvörðun um að ást þeirra sé sönn og þau skuli taka drulluna og skítinn úr fyrri samböndum og baka góða súkkulaðitertu.
Sem verði eins ljúffeng og ævi þeirra saman.
Það segir sig sjálft að þegar fólk hoppar úr einu sambandi í annað, án þess að vinna úr vandamálunum þess fyrra; þá fara bölvaðir hundarnir að rífast, allt fer í hundana og súkkulaðið bráðnar og verður að engu...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Eingöngu góða sögu og þakkir af frábæru starfsfólki
27.11.2007 | 11:39
Núna er á hraðspóli til baka inní minningarpoka fortíðar, til dagsins 10. okt 2004. Þá fæddist dóttir mín langt fyrir áætlaðan fæðingardag.
Ég lét tilleiðast að mér yrði skutlað á sjúkrahúsið með netta bumbu vegna blæðinga og verkja í baki. Lítið vissi ég, en rauninn reyndist að ég var komin með 10 í útvíkkun og þurfti að framkvæma bráðakeisara í hvelli.
Sem og var gert. Ég var ekki svæfð. Sá þegar litla píslinn var tekin og hlupið með hana í burtu hið snarasta.
Þrátt fyrir örvinglan...og tilfinngarlegt uppnám þá eru minningarnar af starfsfólki á bráðmóttökunni eingöngu af hinu góða. Vissulega mátti ég ekki koma fyrr en eftir klukkan eitt á daginn en minnist þess ekki að hafa agnúsast eitthvað yfir því, eða að það hafi skyggt á gleði mína yfir því hversu vel litla Sólin mín dafnaði, dag frá degi í umsjón afburðarstarfsfólks Lsh. Og mín og föður hennar. En þar dvöldum við í rúma 2 mánuði.
Ég á eingöngu góðar minningar og góða sögu af frábæru og faglegu starfsliði vökudeildar LSH.
Og færi ég þeim þakkir mínar.
Fékk ekki að sjá nýfæddan son sinn strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Guð var ekki að halda að sér við sköpunarverkið :)
26.11.2007 | 15:52
Ég á hálfbróðir sem er mér afar kær.
Hann heitir Gísli Þór og er Þórarinsson. Hann er ekki bara afburðafallegur heldur greindur og klár strákur líka. Það var nú svo sem ekki verið að skafa við nögl í himnaríki þegar tönnunum var kastað upp í hann, blessuðum. Hæfileikar hans liggja nefnilega víða.
Mig grunar að hann sé heiðingi...eða allavega ekki mjög trúheitur. Hann heldur úti bloggsíðu...og þar sem ég álpaðist áðan inn á hana, sem oftar.....einsog þjófur á nóttu...rændi og ruplaði þá langar mig að paste-a síðustu færsluna hans til ykkar;
Hér kemur færslan:
Einskær vilji Baldurs til þess að aðlagast samfélaginu aftur og láta gott af sér leiða, fór að sía inn í mig von um fyrirgefningu. Ég hitti hann nokkrum sinnum og þessi sára tilfinning byrjaði að hverfa smátt og smátt. Hann er ekki feik, hann hefur fundið trúnna og lifir eftir henni og er í krossferð til þess að kveikja á ljóstýrunni í hjarta okkar svo að við finnum ljósið sem að flest okkar þráir en eigum erfitt með að finna.
Ég get tekið í hendina á Baldri núna án þess að finna þessa sára tilfinningu, og ég vil trúa því að Magga finnst það í lagi. Hann er á betri stað og án efa í hjörtum og bænum ástvina sinna sem hann var hrifsaður svo snögglega frá.
Mér langar svona rétt í lokin til að deila með ykkur smá korni sem að ég sá á annarri síðu og ætla að fá "lánað" :)
Aðeins fyrir þig.
Kæri vinur! Hvernig líður þér? Mér fannst ég verða að senda þér nokkrar línur til að segja þér hversu annt mér er um þig.Ég sá þig í gær þar sem þú varst að tala við vini þína. Ég beið allan daginn í von um að þú myndir líka vilja tala við mig. Ég gaf þér sólarlagið til að enda daginn og svalan andvarann til að hvíla þig, og ég beið. Þú komst aldrei,það særði mig,en mér þykir samt vænt um þig,því ég er vinur þinn. Ég sá þig sofandi í nótt og mig langaði að leggja hönd mína á enni þitt,svo ég lét tunglsljósið lýsa upp andlit þitt. Aftur beið ég,tilbúin til þess að koma til þín svo við gætum talað saman. Ég hef svo margar gjafir þér til handa. Þú vaknaðir og flýttir þér til vinnu, tár mín voru samblönduð rigningunni. Ef þú bara vildir hlusta á mig. Ég elska þig! Ég reyni að segja þér það í bláum himininum og í hljóðláta græna grasinu. Ég hvísla því að laufinu í trjánum og anda því í litum blómanna. Ég hrópa það til þín í fjallavötnunum og gef fuglunum ástarorð að syngja. Ég klæði þig hlýju sólskininu og ilminum frá náttúrunni.Ást mín til þín er dýpra en hafið og stærra en stærsta þörf hjarta þíns.Spurðu mig!Talaðu við mig! Ekki gleyma mér því ég hef svo mörgu að deila með þér. Ég mun ekki þvinga þig,þetta verður að vera þín ákvörðun. Ég hef valið þig og mun bíða,vegna þess að ég elska þig.
Þinn vinur
Jesú
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Allir að drepast í kringum mig...
26.11.2007 | 12:31
Það er allir að drepast í kringum mig. Gjörsamlega að drepast. Ef að líkum lætur verð ég ein eftir í veröldinni. Alein.
Þegar ég hitti fólkið mitt og ekki fólkið mitt heyri ég oft;
-hef það fínt, bara alveg að drepast úr þreytu! eða...
-alveg góð/góður, en er að drepast úr fjárhags-áhyggjum (eða öðrum áhyggjum) ! eða...
-alveg að drepast úr verkjum, baki, höfði, maga.....eða
-alveg að drepast úr harðsperrum og strengjum...og það er einmitt sem ég segi:
Það er STÓRVARASAMT og hreinlega misþyrming á liðum, vöðvum og hvað þetta heitir, dótið sem er pakkað undir húðinni okkar... að stunda líkamsrækt - hlaup ...osfrv....
Ég ætla að verða sérlegur talsmaður og fulltrúi þeirra sem taka ekki þátt í þessháttar göslagangi.
Einu sinni ætlaði ég að vera ofsalega flott svona hlaupafrík og golfari þegar ég bjó á NZ. Golfkylfurnar voru aldrei teknar upp úr pakkningunum og í dýrindis hlaupaskóna fór ég einu sinni, sælla minninga. Með mínum hitteð-fyrrverandi...sú ferð endaði næstum með geðveiki og dauða.
Í hvíta skó með bleikum röndum fór ég...jogginggalli í stíl... sambýlingurinn var í hróplegu ósamræmi við lookið mitt....við byrjum að hlaupa. Höfðum sett stefnuna á hlaup 1 x dag..svo lengi sem hjónabandið entist. Lítið vissum við þá en hjónabandið var búið fyrir hlaupið....
Við byrjum að hlaupa hlið við hlið. Hann byrjar að hrækja...ég klígugjörn læt það nett pirra mig, segi ekkert í fyrstu,....en einbeiti mér þeim mun meira að flagsa hárinu fagurlega í sólinni....í stíl við limaburðinn...
Loks gat ég ekki orða bundist þegar hrákinn var orðinn að einum lítra og slóðin vel merkt að pirringnum sem var að kæfa mig...
-Afhverju þarftu að hrækja svona mikið, þetta er ógeðslegt?!
-Nú, ég er að hreinsa lungun....maður á að hrækja hressilega þegar maður hleypur!
-Já er það já...hræki ég?
-Nei enda kanntu ekki að hlaupa!!!
-KANN ÉG EKKI AÐ HLAUPA! (þarna er ég orðin vel móð...og hann líka -bæði pirruð)
-Nei, þú ert einsog unglingsstrákur dinglandi löppunum eitthvað með bleikan varalit í þokkabót...þú ert einsog fáviti reyndar!
-JÁ, ER AÐ JÁ! Er ég einsog fáviti!? En hvernig ert þú?....(nett pirruð...)
-Heiða sko....ég skal kenna þér að hlaupa (hann hrækti ....) þú stígur fyrst niður í hælinn svo á tábergið...(hrækti enn meira...)
-Þú þarft sko ekki að kenna mér að hlaupa! Veit ekki betur en þú sért búin að liggja í sófanum síðan ég kynntist þér. Í rúm 10 ár...OG HÆTTU AÐ HRÆKJA!
-HEYRÐU GÓÐA MÍN.......ég hræki einsog ég vil.....!!!
..áfram hélt þar til við hlupum heim á leið. Í sitthvoru lagi, sitthvora leiðina...
...og yrtum ekki á hvort annað það sem eftir lifði kvölds. Eða alveg þar til við skildum að skiptum. Þá gátum við loksins talað saman án þess að öskra...og hrækja...
Skemmst frá því að segja að barnsfaðir minn númer tvö var maraþonhlaupari. Keppti fyrir Íslands hönd. Við kynntumst ekki á hlaupum. Hann reyndi aldrei að fá mig til að hlaupa...held að hann hafi vitað innst inni að þetta er stórhættulegt athæfi. Minnist þess að liðböndin hans voru öll teygð, toguð og slitin...því náði ég að hlaupa frá honum.
Maður á bara að smyrja þetta dót að mínu viti. Tek bílinn minn sem dæmi.... ég myndi aldrei nýðast á honum...aldrei! Bara svona rétt gef í og tek í...þannig að hann stirðni ekki og lamist og deyji drottni sínum.
Sama með kroppinn minn...rölti þetta í nátturunni og nýt augnabliksins án áreynslu.
Mínar óskir til ykkar, um að þið eigið öll yndislega viku
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég elska þann bleika....
23.11.2007 | 23:10
Uppúr miðnætti í gær, lét ég renna í baðkarið í þriðja skiptið það kvöldið. Skrúfaði fyrir vatnið og lét það kólna á meðan ég sinnti einhverju þarfara en sjálfri mér. Svo tókst þetta á endanum. Ég lagðist ofaní ilvolgt vatnið og það var svoooo ljúft. Eilítil fyrirhöfn í kringum dekrið. Bubbles og læti, kerti og slökkt á ljósum. Róleg tónlist. Stundin og augnablikið nánast fullkomið.
þarna sem ég lá og lét hárnæringuna vinna verk sitt í hljóði...virti ég fyrir mér með sjálfri mér sköpunarverk Guðs. Hann var örlátur við mig þessi elska. Ég er honum eilíflega þakklát...fyrir mínar fögru tær...
Alsælan var algjör...þegar ég stundi; -ummm...þetta er það langbesta í öllum heiminum! -dró það svo til baka og hugsaði upphátt; ok,ok næstbesta þá.
Þá skeði það...sem skeður stundum....
....síminn hringdi!
-Hvað er í gangi hérna, hugsa ég ...hverjum dettur í hug að hringja í mig þegar klukkan er á nálgast hálf eitt! Ég svara EKKI!
Á endanum þagnaði síminn, þegar ég hafði "ignorað" heilar þrjátíu hringingar...
Og aftur fór ég að dást af þeim....sér í lagi þessari minnstu...hún var eitthvað svo umkomulaus litli ræfillinn...þarna sem hún stóð hnarreyst, en örlítið bólgin við hliðina á systur sinni...
En hugsunin um símtalið mig ekki í friði...og einsog allt...jafnvel það næstbesta og það besta tekur enda...tók baðtíminn minn enda. Ég vissi sem var að enginn með öllum mjalla myndi hringja svo seint...nema eitthvað MJÖG alvarlegt væri á ferðinni....sko MJÖG!
Ég klæddi mig í slopp...setti bodylotionið á "hold" fletti upp í minninu á símanum og sá kunnuglegt símanúmer. Ég hringi..
-Halló...vægast sagt æst rödd í símanum!
-Hvað skeði, hvað er að? er allt í lagi? ....
-ALLT Í LAGI! NEI HEIÐA BERGÞÓRA ÞAÐ ER SKOOOO EKKI ALLLLLT Í LAGIIIIIIII!!!! var öskrað á hinum enda línunnar...
Ég settist niður og beið...áhyggjur gerðu vart við sig í brjóstinu...
-Hvað heldurðu að hafi skeð áðan!!!!!???
-ég veit ekki....segðu mér!
-Ég fór á Select og ætlaði að kaupa mér bensín og....
-já.....spyr ég alveg forviða...
-EKKERT JÁ NEITTTTT MANNESKJA! HELDURÐU AÐ ÞAÐ SÉ EKKI BÚIÐ AÐ HÆKKA BENSÍNLÍTERINN UPPÍ 136 KKKKKRRRRRRRÓNNNNUUUUUUUUUUURRR!!!
-Ertu að fíflast í mér eða....?
-FÍFLAST.....NEI ÉG ER EKKI AÐ FÍFLAST Í ÞÉR HEIÐA!!!! ÞETTA ER ALVEG SVAAAAAAAAAAAKALEEGT ástand!
Ég fór að hlæja og mér var létt...
-nei ég meina ertu að hringja í mig á þessum tíma og segja mér að bensínið hafi hækkað? Og hvað á ég að gera í því? Missa svefn? Fara af límingunum.....róaðu þig maður!
-RÓA MIG......ÉG RÓA MÍG SKO EKKI NEITT!!!!!!!!!!!Vertu ekki svona kærulaus stelpa...stendur þér bara alveg á sama.... þér stendur nú alveg bara á sama um allt! veistu hvað þetta þýðir?
-púff nei...eða jú jú...og hvað? tókstu bensín?
-NEI AUÐVITAÐ TÓK ÉG EKKERT BENSÍN! Ég keyrði í burtu...ég ætla að bíða með það! Auðvitað tók ég ekki bensín, endurtók hann....einsog ég væri fávitinn á línunni...
Þessum vini mínum til margra ára....finnst blóðið ekki renna í æðum mínum og blóðþrýstingur minn vera á núlli....því hann veit að ég er ekki heimsk. Ég æsi mig nú svosem ekki mikið yfir hlutunum. Sveiflast ekkert svaðalega til þótt ríkistjórnin haldi velli eða falli. Held alveg coolinu yfir samráði og svikum. Allavega já...nei ég geri það afar sjaldan. Að æsa mig yfir hlutunum. Allra síst yfir verðlagi...þjóðfélagsmálum... því ég veit að ég er aðeins leiksoppur í þessu lífi. Oggulítið peð...en mjög spes peð....því engin er einsog ég. Af þvi leytinu er ég frábrugðin hinum snjókornunum.
Svo fór ég nú barasta á vit fagurra ævintýra í draumaheiminum mínum...dreymdi ekki einu sinni bensín...hvað þá tölurnar...; 1 - 3 - 6...
Svo voru þeir mættir í morgunsárið einsog vanalega. Báðir tveir. Púkarnir mínir. Annar er bleikur. Hinn er blár.
Þessi bleiki er sá skynsami...blái ber nafn með réttu...þeir mættu á undan mér...
Sá Bleiki sagði; Heiða min...(og kyssti mig á kinnina)..svona svona drífa sig...sturtan bíður...kaffið bíður...yndislegur dagur bíður þín...þér er svo illa við að verða of sein...svona svona...kjútípæ...
Blái greip frammí og glotti þegar hann fullyrti við mig að ég ætti sko alveg inni að snoosa klukkuna í það minnsta fimm sinnum...ég hefði farið svo seint að sofa....úti væri skítakuldi...mín byði stress og langur vinnudagur. Sofðu Heiða-sofðu Heiða, svo fór hann að syngja; Bíbí og blaka...
Einhversstaðar mitt á milli þessa bleika og bláa...stóð ég upp. Ég skildi þá báða eftir í rúminu mínu. Þar bíða þeir mín til morguns...ég elska þennan bleika en hlusta alltof oft á þann bláa....
Góða helgi til ykkar allra. Hafiði það rosa rosa gott...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Trúboðastellinguna fyrir mig takk!
22.11.2007 | 17:53
EF maður er þokkalega meðvitaður, getur maður orðið margsvís um sjálfan sig og aðra, dagsdaglega.
Ég lærði alveg hreint splunkunýjan hlut/hluti um sjálfan mig, þegar klukkan var rétt við það að smella í eitt í dag.
Ég er með mjög góða og vel starfandi munnvatnskirtla.
Það er nú aldeilis flott að fínt að vita það...ekki það að ég hafi haft einhverjar sérstakar áhyggjur af mínum munnvatnskirtlum. Vill bara sem minnst af þeim vita. Veit ekkert um þá (hvorki lit né lögun...) nema það að þeir eru staðsettir í mínum munni og eru gegnir og nýtilegir í góðum félagsskap tanna minna.
Ég sat í hádeginu á biðstofunni og beið eftir pyntingunum sem lágu fyrir. Blaðaði í gömlu, útslitnu og vel lesnum tímariti. Náði ekki að festa mig við eitt eða neitt áhugavert og var með hugann við það sem koma skildi. Vissi af fyrri reynslu að þetta myndi vera frekar sársaukafullur klukkutími sem biði mín..og þá hringdi síminn...
-Hæ, hitti ég illa á? Hefurðu tök á að mæta í myndatöku klukkan fjögur? Þú verður að mæta Heiða!
Og himnarnir allir sem einn hrundu í kringum mig. MYNDATÖKU!!! Og ég stödd á biðstofu tannlæknis þegar ég er boðuð í fucking MYNDATÖKU! Getur ekki orðið mikið verra...en að sjálfsögðu sagði ég nokkuð huguð, en kannski svona frekar afundin og snúin....
-OK ekkert mál, verð þarna klukkan fjögur.
Svo sönglaði ég með sjálfri mér innan um aðra kvíðafulla og prúða sjúklinga sem biðu með mér...ohh..myndatöku...myndataka...myndir...myndataka...myndataka...mynd...damn!
Þegar ég er svo sest í stólinn, spyr tannlæknirinn mig...jæja Heiða mín, hvað segirðu þá?
-allt bara í blússandi blóma þakka þér fyrir ...ég er á leið í (blót) myndatöku!!! þannig að við verðum að rusla þessu af...
Á meðan ég sat í stólnum þar sem ég var pyntuð og pínd...var ég næstum búin að missa af þeirri vitneskju sem ég var uppfrædd um...og svo auðvitað kærkomnum sársaukanum.....vegna þess hversu annarshugar ég var af myndatökunni.
Mér varð hugsað til þess að einungis 1 mynd af hverjum 10.000 sem af mér eru teknar eru góð/ar. Eða þær sem mér finnast góðar. Og sú mynd er ALLTAF tekin á því augnabliki sem ég veit ekki af því. Einhvernveginn álpast ég þá til að líta út sómasamlega. Ég er ekki þessu "pósutýpa" sem treð mér inn á allar myndir. Ég er sú sem tek myndirnar.
Með þetta ofarlega í huga hugsaði ég áfram til komandi myndatöku...ég vissi að ég yrði ekki ein. Á myndinni með mér yrði gæi...flottur gaur. Meira segja flottari en flottur gaur...ég stúderaði vangasvipinn minn, og komst að þeirra niðurstöðu að sá vinstri er betri en hægri...ég er nefnilega með ör undir hægri augabrúninni...og svo má ég ALLS EKKI ...OG ÞÁ MEINA ÉG ALLS ekki brosa of mikið...því þá koma hamingjuhrukkurnar mínar alltof mikið í ljós. Það má alls ekki sýna of mikla hamingju. Þá er maður heimskur. Svona rökræddi ég við sjálfa mig...gerði mér upp yfirvofandi slappleika...en auðvitað mætti ég af samviskuseminni einni saman. Myndatakan tók alls 5 mín og málið var dautt! Útkoman óljós...en hún kemur í ljós....
Ég minnist þess nefnilega úr síðasta heimboði síðustu helgar, þegar ég fékk senda mynd af mér á meili, úr boðinu ... að ég tók upp símann... með það sama ....hringdi og sagði frekar grimm;
-ÞÚ KANNT SKO EKKI AÐ TAKA MYNDIR MAÐUR! þú sýnir þetta engum.....annars skal ég......
Maður er annars einkar óvæginn og vondur við sjálfan sig ef maður pælir í því. Maður potar og pikkar og setur út á allt og allt hjá sjálfum sér. Dregur sig niður á meðan maður leitast við að finna það fallega hjá öllum öðrum. Skrítið en svona er þetta bara. Allavega í mínu tilfelli.
...og svo að endingu afþvi ég hef ekki verið með neitt svona dóna neðanbeltistal í einhverja daga...að mig minnir... er hér ábending til þeirra kvenna sem ætla að færa sig upp á skaftið og úr þægilegu trúboðastellingunni..og gerast yfirmáta djarfar, nýjungargjarnar og frakkar ( hmmmm.... já já stelpur mínar, þið vitið það jafnvel og ég.... þetta er alveg til sko)
HUGSIÐ YKKUR TVISVAR UM, ef þið ætlið að vera ofaná!
Komst að þessu í dag líka nefnilega, samhliða munnvatnskirtlunum. Takið bara spegil og sjáið ykkur sjálfar.... hversu álkulegar og asnalegar þið eruð þegar kinnarnar eru við það að detta framan úr ykkur og ofan á spegillinn (eða manninn)...dí ég vildi að ég hefði vitað þetta fyrr... hversu oft er maður búin að gera sig að algjöru fífli! Nú er það bara trúboðastellinginn fyrir mig takk fyrir!
Þannig get ég verið nokkuð viss um að hárið liðast fagurlega niður á koddann og er ekkert að andskotast neitt fyrir augunum á mér...og þannig get ég einbeitt mér afþví... OG BARA AF ÞVÍ að vera sæt og "pósa" vinstri vanganum fram dulúðlega....og verið meðvituð um að BROSA ALLS EKKI NEITT! allavega ekki of mikið...glotta kannski örlítið út í annað
Ég sé að með þessari færslu er ég 100%skotheld getnaðarvörn fyrir sjálfa mig....og rúmlega það
Love you guys...mismikið en alveg þokkalega mikið á línuna samt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Ég fagna...
22.11.2007 | 15:39
Þessi "dama" á samúð mína alla...
...bæði hvað varðar það sem á undan er gengið...sem og það sem koma skal.
Engin tekur þá ákvörðun að skipta út líkama sínum fyrir annan/annað kyn...bara svona rétt til að prófa.
Fagna aukinni umræðu og fordómaleysi varðandi kynskiptinga - klæðskiptinga og réttindum þeirra sem og samkynhneigðra.
Keppinautur Þóreyjar Eddu skiptir um kyn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)