Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Ekki með eitt einasta lafandi brjóst :)

Ég man þá tíð þegar ég var átján ára. Þá var mamma 38 ára. Mér fannst mamma við það kveðja hið jarðneska líf. Svo háöldruð var hún í mínum huga. Hún hafði þá þegar kramið nokkur hjörtun, því til staðfestingar hættum við börnin að leggja nöfn sambýlinganna/fósturfeðranna á minnið; þeir voru skilgreindir; þokkalegur, fínn, skárri, skítsæmó, glataður...og ef við í versta falli þurftum að  nefna þá okkar á milli blessaða, voru nöfn notuð einsog; hundur, svín, froskur...osfrv.

Þegar ég var átján ára hafði ég fundið lífsförunaut minn. Blessunarlega síðar á ævinni skildu leiðir. Annars værum við að tala um tvö ung og falleg lík hér. Nú er hann gamall og úrillur en ég ung og fersk og ekki með eitt einasta lafandi brjóst framan á mér, hvað þá tepoka. Mér þykir samt undurvænt um kauða þrátt fyrir hans endalausu leit af svörtum sokkum. Hann sór við mig um daginn að hann væri hættur að ganga í sokkum...og væri því kátur og borðaði slátur alla daga, allan ársins hring. Dreg það stórlega í efa. En hann er enn á meðal vor....

Þegar ég var átján, þá gerði ég lítið annað en spá og spekulúera í hverju ég ætti að klæðast þennan eða hinn daginn. Æfði mig grimmt undir getnað þann, sem síðar átti eftir að verða: "made in Denmark" ...og fæddist frumburðurinn rúmu ári síðar á Íslandi.  Lífið var ekki dans á rósum, botnalaus hamingja eða rósum stráð neitt. En hlutirnir voru í skítsæmilegu standi. Og við vorum áskrifandi af Morgunblaðinu einsog siðvant fólk í sambúð. Og ég var á pillunni, ekki að það hafi nokkuð með frásögnina að gera. Ég minnist þess að stundum hafi  ég verið óttalega lítil í mér eitthvað og hugsaði þá til mömmu sem var að því er virtist með allt sitt á tæru...ahhh, nei kannski ekki alveg. Hún var allavega þokkalegur gölli kerlinginn. Enda 38 ára.

Svo núna þegar ég er þrjátíu og átta...., minnug tilfinninga-flaumsins í ferðalaginu mínu í dag um hálendi hugsana minna, þá er ég bara ennþá lítið stelpuskott einhvernveginn. Svona meir í hjartanu mínu og óttaleg væmiltítla. Ég held að þessi viðkvæmni hafi með það að gera að jólin eru í nánd. Eða kannski þá staðreynd að pabbi minn dó fyrir tíu árum. Ég er fyrir löngu hætt að reyna að skilgreina sjálfa mig og heiti þeim veglegum verðlaunum, sem það tekst.

Í raun vil ég bara að einhver taki mig í faðminn og segi mér að allir hlutir verði í lagi. Að einhver strjúki á mér hárið og um vangann og þyki meira en pínkupons vænt um mig.

En það er núna... á morgun er nýr dagur og ég verð kúl sem áll. (rímaði ekki einu sinni....)þá þarf ég ekki á neinum eða neinni manneskju að halda, engin þarf að benda mér á kosti mína og þessa örrrrrrfáu galla sem ég hef....Segi upp áskriftinni af  Lifandi Vísindum og finn svörin við leyndarmálunum. Geri sjálf við tennurnar í mér og segi tannsa að troða sér og sinni stofu upp í r......á sér.

...ég lít til mömmu...og hlakka til að verða tuttugu árum eldri....eða ekki! Efast um að þetta eldist af mér nokkurn tíma...

Ég óska ykkur öllum góðrar og gæfuríkrar viku, mínir kæru bloggfélagar og vinir.Heart

 

 


Er að hugsa um að fara að skreyta jólatréð NUNA

,,Mér er bara alveg skítsama hvað öðrum finnst, ég geri bara nákvæmlega það sem ég vill, þegar ég vil"!

Bull og kjaftæði. Það er engum nákvæmlega sama hvað öðrum finnst. Ekki einu sinni mér, þó stundum eigi ég það til að segja; iss piss, sléttsama hvað öðrum finnst! Og þó að ég sé einsog enginn annar í veröldinni og enginn einsog hinn... þá held ég nú samt að við eigum öll sitthvað sameiginlegt. Einsog það að vera hreint ekki sléttsama hvað fólki finnst um okkur.

Mér datt þetta í hug í framhaldi af lestri blaðanna í morgun, þar voru þjóðþekktir íslendingar spurðir hvenær væri tímabært að skreyta fyrir jólin. Eða öllu heldur hvað væri of snemmt, að mig minnir.

Í því sambandi má fólk og öll fyrirbæri heimsins hafa sína hentusemi. Fólk má halda jólin alla daga ársins fyrir mér, held reyndar að það væri frekar til gleði en vansa. Mér persónulega finnst engin sjónmengum af jólaseríum í gluggum. Og það ætti að vera það eina sem treður sér inn fyrir augun á manni varðandi hvenær fólk skreytir heimili sín.

Það  var núna síðla októbermánaðar sem einn af mínum fyrrv. fósturfeðrum rak inn nefið. Við honum blasti jólasveinn sem náði honum næstum upp á mitti...ég afsakaði mig og sagði;

-hmm, bara svona aðeins að fá fílinginn...sko eiginlega er þetta bara fyrir stelpuna...svo er hann nú ekkert svooo jólalegur þessi sko! Ha?

Ég leit á hann einsog ég væri að biðja um samþykki fyrir því hvort "karlinn" mætti standa inn í forstofunni svona löngu fyrir jól. Á mínu eigin heimili.

Hann hló sagði ekki orð, vitandi,  að ef hann kæmi með athugasemd sem ekki "fittaði í kramið hjá prinsessunni á bauninni", myndi ég einfaldlega fleygja upp trénu með það sama. Setja jólalögin á grammafóninn...klæða hann í jólasveinabúning og bjóða honum að dansa við mig í kringum jólatréið.

Ég hef það frá fyrstu hendi að það á að skreyta verslunarmiðstöðvar okkar 6. nóv...og ég get ekki sagt að ég kvíði því sérstaklega.

Ég er með hendurnar mínar bundnar fyrir aftan bak og er að reyna sem mest ég má að skreyta ekki jólatréið mitt núna....í kvöld.......ohhh, mig langar svo! Mig klægjar svoooo!!

Læt jólasveininn minn duga í bili.

Annars þekki ég til eins karls suður með sjó... hann var það sem kallað er "túra-drykkjamaður", ein jólin keypti hann marglitaseríu og stakk henni í samband, í kassanum, útí glugga og málið var dautt. Ekkert brölt ekkert vesen ...Ekki fara sögur afþví hversu gleðileg hátiðin var.


Kvöldmaturinn endar í ruslinu

Ég held að ég gerist nú talsmaður þess að hafa hlutina í röð og reglu. Í einu og öllu! Alveg hreint með ólíkindum að trippið ég, skuli halda heimili. Heimili sem nær alltaf er í röð og reglu.

Fyrir það fyrsta á maður aldrei að taka sér frí á föstudögum frá vinnu og sofna sitjandi inni í stofu með þriggja ára stelpu-engil inn í stofu..kl: 18:00, labba svo í svefni, með hana inn í rúm í leðurstígvélunum...og sofa til kl: 07:00, daginn eftir. 2 tíma misþyrming á tannholdinu þegar tannsteinshreinsun átti sér stað, er engin afsökun fyrir þreytu...og lágþrýstingur í lofti ekki heldur...

Maður á aldrei að láta sér svo sem mikið sem detta í hug að negla einn pínkupons nagla kl: 04;00 um nótt í fjölbýli. Það kann ekki góðri lukku að stýra og eflir ekki vináttutengsl í stigagöngum...hinsvegar ef þú ert afar afar einmanna, er þetta alveg þjóðráð. Þú getur verið viss um (allavega í mínum stigagangi...)að tveir geðvondir karlar í röndóttum náttfötum birtast. ÆFIR!

Þegar maður svo fer í búðinna seinni part föstudags, rétt eftir mánaðarmót og verslar sér vínber ásamt öðru...skal aldrei aldrei setja þau neðst í pokann, þrátt fyrir að maður sé að flýta sér. Jafnvel þó allir séu að flýta sér og rétt við það að missa af síðustu lestinni. Þegar heim er komið gætu vínberin verið orðin yfir "ógerjuðu" hvítvíni ef þeim hefði dottið í hug að blandast saman við sykurinn sem átti að nota í vöfflurnar. Hvítvíni með dash af þvottalegi.

Nammidagurinn ætti ekki að hefjst í verslunarferðinni, ofaní innkaupakerru...kvöldmaturinn verður ekki étin og endar í ruslinu.. barnið einsog súkkulaðiklessa í framan og þú líka, svo lítið eitt sé nefnt.

Síðustu dagar hafa liðið í óskipulagsleysi og eru orðnir svona einsog hálfgerður grautur í minningunni. Nokkir svona sunduslitnir dagar í stað samfellu. Og eru þeir þó bara að verða tveir. Ég var rétt við það að taka upp símann áðan og hringja í þá sem ég hafði lofað fyrr í kvöld, vitandi mínu viti að kvöldið væri ungt...þegar ég gerði mér grein fyrir því að klukkan var við það "að smella alltof seint fyrir símtöl" -og hvað gerir maður þá? Nú fer að negla...og blogga.

Ekki seinna vænna þar sem helgin er að rjúka frá mér og ykkur; að bjóða Góða helgi og góða nótt og góðan dag. Love you guys (á dönsku)Heart


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband