Baldur Freyr og Gunnar Jóhann bróðir minn
21.4.2008 | 19:36
Mér er sama hvaðan gott kemur!
Skítsama. Þetta trúar-nötta-kjaftæði (ekki mitt orðalag....en minnir að skessa.blog.is kalli þessa ógæfusömu menn það, unga menn sem hafa nú snúið blaðinu við og eru stútfullir af kærleik)..þessi félagsskapur bjargaði yngsta bróður mínum úr klóm eiturlyfja og ofbeldis. Bjargaði honum úr ánauð vonleysis og þunglyndis. Og það sem meira er heldur honum við efnið.
Nú er hann að sitja af sér sinn (vonandi síðasta) dóm á Litla Hrauni. Hann er rétt liðlega tvítugur. Að hann skuli hafa fundið sér sinn æðri hátt, æðri sínum eigin sem var hroðalegur andskoti og andstæðingur, er stórkostlegra en orð fá lýst. Það bjargaði lífi hans.
Hann er þá ekki einn á meðan. Að hann hafi fundið frið í hjarta er dýrmætara en allt dýrmætt. Sérstaklega í þessum aðstæðum sem hann er í.
Það er nóg fyrir mig, móður okkar, pabba hans og allra systkina Gunna. Ástandið var orðið svo hroðalegt að sorglegra en orðum er á takandi er að nefna eitt einasta dæmi. Ég þakka Guði (mínum persónulega) að honum hafi ekki tekist að taka sitt eigið líf eða annarra.
Þó svo ég sjálf sé ekki uppfull af þessum anda Guðs í mínu hjarta, finn ég vel hlýjuna sem kemur frá þessum strákum. Meðal þeirra er Baldur Freyr. Ég skil þetta ekki allt - en ég skynja verulega hlýju. Það er nóg fyrir mig. Það er nóg fyrir mig að þessir fyrrverandi brotamenn séu að gera hluti sem okkur samborgurunum stafar engin ógn af. Það ætti að vera nóg fyrir ykkur líka.
Hvaðan sem gott kemur - er það gott að mínu viti!
Hér kemur bréf frá Gunna bróður sem ég að vísu rændi af annarri síðu hér á blogginu. Ég er viss um að Guð fyrirgefur mér.
Gunnar Jóhann , trúboði Jesú Krists á Litla Hrauni heilsar öllum heilögum í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík. Megi náð og friður margfaldast ykkar á meðal í Jesú nafni.
Þegar ég kom í fangelsið á Skólavörðustíg 9 tóku fangaverðirnir vel á móti mér. Þeir áttu von á mér og þekktu mig, því ég hafði farið og verið með samkomur í fangelsinu með öðru kristnu fólki. Nú kom léttir yfir mig, loksins var komið að þessu.Ég var afklæddur og látin fara í sturtu, síðan settur í hvítan slopp og það er gengið úr skugga um að ég sé ekki með nein fíkniefni.
Ég fæ að taka eina bók með mér og síðan er ég lokaður inni í einangrunarklefa, því fangelsið var fullsetið. Bókin sem varð fyrir valinu var,: " Góðan dag Heilagur Andi." Ég var búinn að bíða spenntur eftir þessari stund, að vera lokaður inni með Heilögum anda. Þetta var alveg frábært og bókin nær nú allri athygli minni og ég er að lesa langt fram á nótt.
Vakna snemma morguns, byrja strax að lesa, en dett fljótlega út og sofna aftur. Þá dreymir mig að það sé búið að skrifa fremst í bókina með blýanti: " Ég er Drottinn Guð þinn, hafðu engar áhyggjur, þú ert akkúrat á þeim stað sem ég vil hafa þig, ég elska þig."
Ég vakna strax við þessa sýn fullur gleði og ég finn sterkt fyrir nærveru Heilags anda. Á þessari stundu var mér ljóst að Drottinn ætlar að vinna verk inni í fangelsinu, og ég hugsaði til allra þeirra sem báðu fyrir mér áður en ég fór inn.Ég fer síðan fram á gang til að ná í matarbakkann minn og þá fæ ég að upplifa nokkuð sérstakt. Það kemur strákur til mín og spyr mig hvort ég hafi komið inn í klefann hans í morgun klæddur hvítum slopp og með biblíu í hendinni.
Þetta var alveg ótrúlegt, drenginn hafði dreymt að einhver hefði komið til hans í klefann, í hvítum slopp og með biblíu í hendinni að færa honum. Hvað var að gerast ?
Ég var settur í hvítan slopp þegar ég kom inn í fangelsið og ég ætlaði að færa föngunum biblíur sem "Kærleikurinn" var búinn að safna fyrir , og Guð mætir þessum unga manni í draumi, fyrstu nóttina sem ég er þarna. Aftur fæ ég þessa fullvissu að andi Drottins er með mér í fangelsinu.
Vikuna á eftir lá ég í pest, en næ samt að gefa öllum föngunum á Skólavörðustíg biblíur. Einn fullorðinn maður biður mig að eiga við sig orð og ég fæ tækifæri til að vitna fyrir honum og biðja með honum frelsisbæn .
Þetta byrjar vel, og ég er þakklátur fyrir Anda Guðs, sem er minn styrkur. Eymd er valkostur og þegar maður hefur tekið á móti upprisu andanum og keppist við að vera leiddur af honum þá er það ekkert sem getur stöðvað mann, ekkert fær stöðvað Anda Guðs.
Eftir að ég kom á Litla Hraun, þá tók það mig smá tíma að aðlagast staðnum, ég var ennþá veikur og það tók sinn toll.
Það var mikil breyting að fara frá yndislega lífinu sem ég lifði, fara frá kirkjunni minni þar sem kærleikurinn er í fyrirrúmi alltaf, yfir í það að vera fangi á Litla Hrauni. Þarna er föngum mikið stjórnað með andlegu ofbeldi, og ég verð vitni að því á hverjum degi að það er talað niður til fanga af öðrum föngum. Það er mikið blótað og hlegið af óförum annarra , menn reyna að upphefja sjálfa sig með því að niðurlægja veikari manninn. Mér finnst ekki skrýtið að margir fangar hafi tekið líf sitt hérna einfaldlega vegna vonsku samfanga sinna.
Einn fangi var stunginn með hníf um daginn í sjoppunni og þegar ég kom þar að, þá var verið að þrífa blóðið upp. Það var ekki skemmtileg upplifun.
En Guð er lausnin frá öllu óvinarins veldi og ég get vitnað um það sjálfur, því einu sinni var ég alveg eins og þessir strákar. En Drottinn mætti mér, þar sem ég var fastur í ofbeldisverkum og Drottinn leysti mig, þar sem ég var fastur í myrkrinu og tók mig inn í ljósið sitt. Hann bjargaði lífu mínu frá glötun og fyrir það er ég ævinlega þakklátur. Og þótt ég búi við þessar aðstæður núna þá hefur það furðulega lítil áhrif á mig, því ég er ekki hér á mínum vegum, heldur Guðs vegum.
Það fékk ég að upplifa um daginn þegar Drottinn læknaði nokkra fanga. Ég var inni í klefanum mínum að hlusta á prédikun með Todd Bentley og hann er að tala um, hvernig átta hundruð manns frelsuðust á einum degi í einu af glæpahverfum Afríku þegar Drottinn fór að lækna fólk.
Þessi prédikun kveikti svo mikinn eld í mér að ég rauk út úr klefanum og fór inn í klefa til fanga sem hafði kvartað yfir að vera slæmur í úlnliðunum vegna meiðsla. Ég spurði hann hvort hann vildi losna við verkinn og við báðum saman og verkurinn fór og honum dauðbrá. Ég sagði honum að þakka Jesú, og síðan fór ég fram á gang og hrópaði, hvort einhver væri með verki í líkamanum, því Jesús vildi lækna þá. Ég byrjaði að biðja fyrir einum sem var með verk í bakinu og á meðan ég bað fyrir honum, þá gengur annar drengur hjá og hann var líka með verki í baki. Hann fann verkinn fara úr sér bara við að ganga framhjá . Honum brá líka, og ég sagði honum að þakka Jesú, og þetta sama kvöld spurði hann mig hvar væri best að byrja að lesa í biblíunni.
Nú þennan sama dag gaf ég strákunum á mínum gangi biblíur í boði "Kærleikans" í Keflavík.
Þetta er besti dagurinn hingað til, og ég veit að Guð ætlar að gera miklu meira hérna því að Andinn vitnar um það með mínum anda.
En sumir eru erfiðir og hrokast bara upp við það að heyra minnst á Guð, og þess vegna er ég alltaf glaður, alltaf með kærleikann að vopni og ég vil enda þetta með versi úr 1.Pétursbréfi 2:12:
Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðarmönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.
Þetta er einmitt lykilinn. Ég trúi því að á tíma vitjunarinnar muni margir strákar sem ekkert vilja hafa með Guð að gera núna, á neyðardegi eiga þeir eftir að hrópa til Drottins og taka á móti honum sem sínum leiðtoga. Þess vegna keppist ég eftir því að lifa í kærleikanum, keppi eftir réttlætinu.
En ég vil biðja ykkur systkini að hafa fangana á Litla Hrauni ávallt í bænum ykkar, því að Guð er lifandi og bænheyrandi Guð og með fyrirbæn margra sigrum við allt óvinarins veldi.
Kveðja Gunnar Jóhann
Athugasemdir
Þér finnst það sem sagt alveg eðlilegt að bróðir þinn telji sig geta læknað annað fólk?
Þetta er akkúrat það sem fólk óttast við þessa trúarnöttara að þeir fari að telja öðru fólki trú um að þeir geti læknað þá sem eru sjúkir!
Beggi (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 20:01
Það sem mér finnst eðliegt, um hvað bróðir mínum finnst hann geta gert ,er aukaatriði.
Málið er Begga að hugurinn flytur fjöll....það er undir viðkomandi manneskju hvort hún trúir. Kraftaverk hafa gerst...en einsog ég minntist á; ég skil ekki allt.
En eitt veit ég; að þetta er ekki gert af neinni illkvittni ...svo mikið er víst.
Heiða Þórðar, 21.4.2008 kl. 20:09
Sorry Beggi minn, gleymdi þarna rétt örstund að þú værir gæddur yfirnáttúrulega tippi...með einföldu. Sko sjáðu; kraftaverkin gerast enn
Heiða Þórðar, 21.4.2008 kl. 20:10
Ég vona að bróður þínum farnist vel á þeirri braut sem hann hefur fundið sér, trúin flytur fjöll og hann getur örugglega hjálpað mörgum með trú sinni.
Ásdís Sigurðardóttir, 21.4.2008 kl. 20:51
Ég er svo sammála þér Heiða, að það hálfa væri nóg
Hann er að gera frábæra hluti, bæði fyrir sjálfan sig og aðra þarna fyrir austan. Það skiptir engu máli hvaðan góðir hlutir koma, og þessir strákar eru svo sannarlega með kærleikann að vopni, það þekki ég sjálf,,,ekkert fals þar.
Strákurinn er frábær penni eins og systir hans
Guð veri með ykkur öllum
Ásgerður , 21.4.2008 kl. 21:06
Hæj.Ég er búin að vera lesa hjá Skessu og öll kommentin þar.Ég er búin að gúggla Baldur Frey uppi(vissi ekki hver hann var)Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem reynir og nær að losa sig við fíknina.Hvort um kraftaverk er að ræða eða að huganum hafi verið beint á aðra braut en fíknina finnst mér ekki skipta máli svo fremi sem fíkill finnur sálarfrið án fíkniefna.
Mér finnst nöturlegt að lesa hvað eru miklir fordómar í gangi gagnvart trú/trúarofstæki.Við sem viljum þurfum ekki að meðtaka eða umgangast neitt sem við viljum ekki í þeim efnum.
Enn þá nöturlegra finnst mér að lesa dómhörkuna um að afbrotamenn/fíklar eigi eða megi ekki vera sýnilegir(tek það fram að ég las það ekki á Heiðu skessu síðu)eftir afplánun og afeitrun af hvað toga sem það er líkur.
Svo finnst mér allt annað mál ef einhver ætlar að þrengja trú sem ég aðhillist ekki upp á mig.
En hvað með það.....
Ég óska þess að bróðir þinni haldi áfram að finna frið í hug og hjarta.
Knús á þig músin mín.
Solla Guðjóns, 21.4.2008 kl. 21:37
Takk fyrir stelpur mínar og Solla vá hvað þú komst með marga gaura þarna! (nagla sko....sendu mér einn ) Dómharka er aldrei af hinu góða. Aldrei.
Heiða Þórðar, 21.4.2008 kl. 22:17
Óþarfi að fyndfrasast eitthað þetta sinnið, frábærilega framsett hjá þér kona & ég er þér sammála.
Steingrímur Helgason, 21.4.2008 kl. 22:51
Ég verð að játa á mig mikla notkun á orðinu trúarnöttari. Það nota ég yfirleitt um ofsatrúarmenn Heiða mín.
En ég óska bróður þínum alls hins besta, auðvitað.
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.4.2008 kl. 22:52
ef að trúarsog virkar þá er það bara einfaldlega frábært
Einar Bragi Bragason., 21.4.2008 kl. 23:01
Heiða mín, ég óska bróður þínum og öllum þeim sem eru að leita sér bata alls hins besta...og að sjálfsögðu líka þeim sem eiga bara eftir að taka skrefið.
Eins og þú veist þá þekki ég það vel að vera aðstandandi og ég skil svo innilega að fólk taki bata fagnandi og sé ekki að setja það fyrir sig hvaðan hann kemur
Ég ætla ekki að fara að nota kommentakerfið þitt til að troða mínum skoðunum um þetta mál á framfæri og ég vona að ég hafi ekki sært þig eða neinn annan með skrifum mínum.
Heiða B. Heiðars, 21.4.2008 kl. 23:39
Mín kæra Heiða, nei þú særðir mig ekki. Vildi bara koma mínu sjónarmiði á framfæri og var það í beinu framhaldi af þinni færslu og athugasemdum á kommentakerfinu þínu.
Ég er ekki talsmaður þessara stráka, en ég er til vitnis um að Gunni bróðir er eitt stórt kraftaverk. Ítreka, hvaðan sem gott kemur; er gott að mínu viti.
Heiða Þórðar, 22.4.2008 kl. 00:02
Heiða; viðurkenni að það krulluðust samt nett upp á mér tærnar sko...það eigum við þó eitt sameiginlegt fyrir utan auðvitað að hafa alltaf rétt fyrir okkur, vera flottastar, bestar, engin má andmæla okkur....og heita Heiða auðvitað
Heiða Þórðar, 22.4.2008 kl. 00:03
Ég sagði það líka um Byrgið, alveg sama hvaðan gott kemur....alveg fram á síðasta dag :)
En það er bara ekki alveg sama nema það standi gott fólk á bak við það. Mér fannst Guðmundur í Byrginu hetja
En ég skil þig fullkomlega. En ég vill eftirlit og eftirlit og eftirlit. Það má aldrei gerast aftur neitt í líkingu við það sem gerðist á Byrginu.
Fólk sem er nýkomið úr neyslu er barasta of viðkvæmt til þess að það sé óhætt að hleypa hverjum sem er inn í kollinn á því.
En ég endurtek
Heiða B. Heiðars, 22.4.2008 kl. 00:05
Æi sorry! Sko! Ég er byrjuð að halda ræðu! Ég sem ætlaði ekki að gera það! :)
G´nótt mín kæra! Hætt!! Ég lofa:)
Heiða B. Heiðars, 22.4.2008 kl. 00:06
Ég skil samt ekki hvað er sammerkt með Baldri og Guðmundi? Er það trúin. Mér finnst þetta í sannleika sagt einsog að líkja okkur tveimur saman! Afþví við heitum báðar Heiða. Skilurðu mig? Hefur Baldur einhverntíma verið tekin með svínshaus og ólar og svipur að hjakkast á belju útí sveit? Æi kannski fór ég yfir strikið þarna. Ahverju heldurðu að hann komi til með að feta í fótspor Guðmundar?
Blessuð vertu ég hef farið til sálfræðings, mann með flotta gráðu....sáluhjálpara...í minningunni gengu viðtölin út á lítið annað en að reyna að komast ofan í nærbuxurnar mínar! Við erum svo mannleg að það er ógeðslegt. Allir - allir - allir.
Við höfum aldrei og þá meina ég aldrei neina tryggingu fyrir því að mennsk manneskja...geri ekki eitthvað viðbjóðslegt. Hvort sem um er að ræða óflekkaða fortíð eður ei. Hvort sem um er að ræða mann með prófgráðu. Við getum ekki einu sinni treyst eigin foreldrum.
Auðvitað á að vera eftirlit...gæti ekki verið meira sammála...en á drengstaulinn aldrei að fá uppreisn æru?
Ef við erum að tala um manndrápið ... þá var þetta hræðilega slys undir áhrifum fíkniefna...ég hef keyrt drukkinn og þú kannski líka. Við hefðum getað orðið einhverjum að bana? Í sannleika sagt þá þekki ég fáa sem ekki hafa keyrt undir áhrifum....
...en nú er ég að komast á flug hérna...ætla að skríða í skúffuna mína og fara að sofa. Kannski ég skelli inn í nóttina einni lítilli bæn....og tek þig með í hana.
Góða nótt Heiða mín og þið öll
Heiða Þórðar, 22.4.2008 kl. 00:17
Ég er enn fullkomlega sammála ,en þér gengur bara svo miklu betur en mér að koma því í orð.
Vona að þú hafir sofið rótt
Ásgerður , 22.4.2008 kl. 06:17
Sæl Heiða mín.
Þetta er mjög merkilegt hvað kom yfir hann Bróðir þinn á Hrauninu,ég trúi þessu alveg,ég get ekki útskýrt margt í mínu lífi hvað þá annara,en eftir stendur,það sem hann segir frá og það nægir mér.
Ég var búinn að sjá greinina hjá KIDDA og svo úrdrátt úr henni hjá LINDU báðum á Blogginu,svo ég gat gefið mér tíma til að hugleiða allt saman.
Þú segir það satt,þetta er ekki sami bróðir þinn og sá sem var ofurseldur ægivaldi Eiturlyfjanna. Nei ,hann er ný sköpun í Kristi og KRAFTMIKIL í Trúnni.
Sæl í bili og gangi vel.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 07:30
Ég hef nú ekki lesið allt sem þið eruð að tala um, enda þarf ég þess ekki,
sammála því er ég að það er sama hvaðan gott kemur og ef þetta góða helst þá er það enn þá betra.
Engin hefur leifi að mínu mati að setja út á skoðanir annarra, þó það sé í lagi að hafa skoðun sjálfur, við verðum að bera virðingu fyrir hvort öðru.
Ég óska bróður þínum alls hins besta Heiða mín, og hann hefur upplifað þennan
draum sem er bara til góðs fyrir hann og vonandi fyrir marga aðra.
Ekki fer ég í kirkju, en ég hef mína trú, og það mega allir hafa sína trú fyrir mér.
þetta er með trúna eins og með t.d. gagnkynhneigða, hörundsdökka eða bara svona skrýtna eins og ég er, eða þannig. Ég hugsa aldrei um það hvort fólk sé eitthvað öðruvísi, því það er bara allt í lagi að vera það.
Berum virðingu og kærleika til alls fólks og sér í lagi barna.
Knús til þín Heiða Mín.
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.4.2008 kl. 10:55
Gott er gott . . hvaðan sem það kemur. Það finnst mér góður punktur hjá þér og sýnir ákveðið fordómaleysi hjá þér. Verum ánægð yfir að óhamingjunnar menn hafi fundið hamingju . . . skiptir mig engu máli hvort ég sé sannleik í því eða ekki.
Kveðja ;)
Arna (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 11:00
Gangi bróður þínum vel. Það er sama hvaðan gott kemur. Bara ef fólk gerir sér ekki of miklar væntingar sem engin leið er síðan að standa undir.
Helga Magnúsdóttir, 22.4.2008 kl. 11:23
Amen ...
Gísli Hjálmar , 22.4.2008 kl. 11:29
Nagli til þín
Solla Guðjóns, 22.4.2008 kl. 12:30
dásamlegt - og þú ert dásamleg
halkatla, 22.4.2008 kl. 18:25
Gott að bróðir þinn hefur fundið sér farveg. En er þessi Baldur Freyr ekki morðinginn sem drap ungan mann frá Ísafirði, af því að hann var bara að þvælast fyrir honum. Veit ekki hversu djúpt hann hugsar. Minnir líka að hann hafi staðið fyrir einhverri göngu og kertafleytingu, sem var eitthver áhöld um. Ég veit ekki, ég hef fylgst dálítið með fjölskyldunni drengsins sem var myrtur. Luckta lunten þar ef ég má segja svoleiðis. Alltaf gott að fela sig bak við Ésú og Guð, ef maður vill sleppa billega frá vondum hlutum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.4.2008 kl. 19:02
Hrönn Sigurðardóttir, 22.4.2008 kl. 19:06
Ég veit ekki mikið um málið sjálft Ásthildur. En mér skilst að hann hafi verið fársjúkur alkóholisti sem gerði þetta voðaverk undir áhrifum sterkra vímuefna ... ekki morð af ásettu ráði. Ekki það að ég sé að mæla því bót, þannig. En í dag stafar eingöngu hlýja frá þessum manni mér finnst hann á engan hátt vera að fela sig á bak við Jesú...heldur virðiat þeir vera hinir mestu mátar. Ganga hlið við hlið ef svo má að orði komast. Jesús og Baldur....
Mér skilst einmitt að Bænagangan hafi fallið í góðan jarðveg, nema þá helst hér á blogginu. Ég held að hann hafi nú ekkert sloppið billega frá hlutunum, sat af sér sinn dóm (samkv. okkar billega réttarkerfi) og hefur liðið helvíti fyrir verknaðinn (kom fram í viðtali)...verknaður sem er afleiðing af andstyggilegum sjúkdómi.
Viðbjóðslegur sjúkdómur sem leiðir til geðveiki.
Annars þarf ég svosem ekkert að tala fyrir hönd Baldurs, sýnist á öllu að hann sé sjálfur fullfær um það.
Neita því þó ekki að þegar svona múgæsings gætir vegna eins manns...þá fellur mér það lítið í geð. Tek ekki þátt í því. Þakklát sjálf fyrir að vera ekki í hans sporum. Ég held að við ættum öll að vera það. Hann er sterkur karakter að mínu viti að standa keikur.
Og hann er alls ekki verri maður en ég...eða hver annar, ef út í það er farið.
Njótið öll kvöldsins...
Heiða Þórðar, 22.4.2008 kl. 20:52
Love is the best cure!
www.zordis.com, 22.4.2008 kl. 20:54
Já Ari minn.
Það þurfti nú heldur meira til í denn...til að gera þig kjaftstopp...
...en það er gott að eldast, vitkast og krumpast ef út í það er farið.
Heiða Þórðar, 22.4.2008 kl. 21:01
Nei þá synda þér elskan, með kút og alles
Heiða Þórðar, 22.4.2008 kl. 21:59
það er yndislegt þegar fólk finnur frið í hjartanu sínu. hvort heldur er vegna guðs eða annars. kraftaverk, eins og bróðir þinn er að upplifa, verða til í manns eigin hjarta. það er enginn sem 'setur' guð í hjarta hans. nei. hann verður að finna hann/hana/það sjálfur. ég gleðst fyrir þína hönd og ekki síst hans hönd að hafa fundið kærleikann og ljósið.
það sem skessan er hins vegar að benda á er að einhver telji sig geta lofað kraftaverkum, eða læknað aðra. að einhverjir, BF eða aðrir, segist geta græjað guð inn í fólk. það er bara kjaftæði.
Brjánn Guðjónsson, 22.4.2008 kl. 22:25
Takk fyrir þetta Heiða mín. Ég hef setið nokkra fundina með honum Gunna og finn sterklega hvað hann meinar hvað hann segir. Það mættu fleiri hafa þennann kraft sem er að drífa hann í dag. Síðan að hann fann lausnina, þá bókstaflega skín drengurinn. Já, eins og að hann sé lýstur upp að innan.
Það er mér sönn ánægja að hafa þau foréttindi, að hafa kinnst honum Gunna þínum, og þér náttúrulega líka.
Ég veit að ég hef ekki getið áorkað það sem að ég er nú þegar búinn, einn. Og minn æðri máttur er Guð almáttugur, eins og ég skil hann og hann skilur mig.
Love ya, Jói D
Jói Dagur (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 22:26
Takk fyrir Brjánn og Jói Sammála þér Brjánn að þetta verður auðvitað að koma frá manni sjálfum. Engin treður þessu inn í hjartað á manni. Engin setur trú inn í mann svo mikið er víst.
Jói hamingjuóskir mínar til þín; fyrir að vera nákvæmlega einsog þú ert minn kæri vinur.
Heiða Þórðar, 22.4.2008 kl. 23:00
Sæl Heiðar Þórðar - Las bréfið frá bróður þínum og ég einfaldlega táraðist af gleði yfir einlægni hans og trú og ég er þér svo innilega sammála. Hann er að gera stórkostlega hluti, sá viðtalið við hann á Omega áður en hann fór aftur inn og þessi ungi maður var svo rólegur, friður skein úr augum hans og hann var tilbúin að skila samfélaginu það sem hann skuldaði því. Það væri óskandi að flestir fengu að upplifa sem hann upplifir í dag.
m. k.
Linda.
Linda, 23.4.2008 kl. 02:56
Sæl.Ég hef hitt Gunna en vissi ekki að hann væri bróðir þinn.Ég er búin að fylgjast með þessum hópi í eitt ár.12 sporakerfið er að virka í botn þarna.Kveðja til Gunna frá mér og húsbandinu mínu.Og bréfið var fá honum mig grunaði það.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 09:55
Ég óska bróður þínum allt hið besta.
Gott að honum líði betur því þetta er mun skárri fíkn en dópið.
Halla Rut , 23.4.2008 kl. 22:30
Sæl Heiða mín.
Ég óska þér til hamingju með bróðir þinn. Frábært bréfið frá Gunna bróður þínum. Ég las það hjá Kidda og líka hjá Lindu og Ásu Grétu. Ég er mjög glöð að hann skyldi frelsast úr viðjum myrkursins. Ömurlegt að eiga ættingja sem hefur villst inn í þennan heim. Ekki auðvelt að komast út þaðan aftur en sem betur fer fyrir hjálp Jesú Krists er Gunni frjáls þó hann sé að afplána dóm eins og er. Hann er gleðigjafi fyrir marga í fangelsinu í dag. Hann biður fyrir sjúkum og sorgmæddum í Jesú nafni og fólk læknast. Dásamlegt þegar fólk læknast.
Guð veri með þér og varðveiti þig.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.4.2008 kl. 23:34
Sæl Heiða
Til hamingju með bróður þinn.
Ég tek undir þér með KÆRLEIK.
BALDUR FREYR er að gera frábæra hluti
,örugglega búin að bjarga mörgum mannslífum.
Sonur minn er í prógrammi hjá honum,ásamt nokkrum góðum krökkum,sem eru að kljást við þennan hræðilega sjúkdóm,FÍKN ...
kærleikskv.
Guðrún
Guðrún Harðardóttir, 27.4.2008 kl. 15:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.