Útlitið skiptir víst máli...

Fyrir akkúrat 6 mánuðum í dag vorum við kynnt. Kökur og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeir sem vilja minnast okkar er bent á....

Á milli okkar hefur ríkt svona ást/haturs tilfinningasamband, en mikið ofsalega var ég samt ánægð Þegar hann varð minn.

Enda liðnir 3 dagar (sem er kannski ekki langur tími en..) og ég svona einhvern veginn vel veðruð og ein að mér fannst. Þurfti að treysta á sjálfa mig í öllu og einu.

Þetta var ekkert ofsalega rómantískt augnablik þegar ég leit hann fyrst augum. Fékk ekki í hnén og hreint út sagt, við fyrstu viðkynningu leist um mér ekkert á blikuna.

Hann var/er ekki beint fyrir augað.

Þegar ég kynnti hann fyrir syni mínum sem er 17 ára. Þá var mér ekki um sel! Hann leit á mig og í fyrsta skipti mátti glitta fyrir fyrirlitningu í augnaráði hans (og hefur hann nú kynnst þeim nokkrum)  þegar hann sagði:

-mamma, hann er óðgeðslega ljótur (já, ég veit ekki beint að skafa utan af því drengurinn)

-láttu ekki svona, segi ég og hugsa með mér. Hann á eftir að kunna að meta hann.

Svo bætti hann við:

-ég læt ekki sjá mig með ykkur á almannafæri...

Mig sárnaði svona svolítið, og fann aðeins til vanmáttar vegna míns annars ósmekklega smekks. En hann bara kom og ég greip hann. Hvað átti ég svo sem að gera?

Vikurnar liður og sonur minn gerði óspart grín að okkur.  Ég fann að það hafði áhrif á mig, því ég sjálf var svona farin að finna fyrir smá óánægju í sambandi við þetta allt saman. Tók til að mynda eftir því að hann var allur skakklappalegur að aftan.

Óþolinmæðin varðandi það hversu hávær hann var alltaf hreint, lét á sér kræla.

Lítið virtist skipta hvort ég hækkaði í músikinni, hann emjaði þeim mun hærra. Svona rétt til að ergja mig held ég. Hugsanir fóru að ágerast á borð við: 

-Ohhhhhh, erum við ekki að verða kominn!

Ég var gjörsamlega orðin blind á þann kost hans að vera mér þvílíkt trúr og tryggur og er farin að dauðskammast mín þegar vegfarendur flauta, á eftir okkur. Á undan okkur. Við hliðina á okkur.

Nú og svo er það nú einu sinni þannig og hefur verið frá upphafi að allir vinir/kunningjar/vinnufélagar og fjölskyldumeðlimir (langir, feitir, stuttir og mjóir) hafa meiri áhuga/áhyggjur hvernig hann hafi það, heldur en ég!

Stundum fæ ég svona aumingja-góðar augngotur og spurt er: Er allt í lagi með hann?

Ég segi:

-Flubber (hann fékk viðurnefni áður en ég kynntist honum -með það tattoverað á síðunni)?

Já já hann er fínn! Fer alltaf í gang!

-Gott, fæ ég til baka. Aðalatriðið að hana komi þér milli A-B. ( augnaráðið fylgir)

Ég blýsperrist öll og segi til baka:

-A-Ö. Klassakerra!

Þegar það svo skeði um daginn, að ég fékk far í þessum líka eðalvagni og það fór að hitna vel á mér rassinn...

... þá fattaði ég að þetta er auðvitað bara bullshit!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Bílar hafa persónuleika, engin spurning

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 25.3.2007 kl. 09:35

2 identicon

Já Heiða mín, ég er sammála að þetta er barasta fínasti bíll.  Fyrst að þú getur verið vinur minn, þá skil ég að útlitið skiptir þig ekki öllu máli.  ( hahaha) Ég kemst allavega frá A til Ö og er lítið riðgaður og eginlega ekkert beyglaður. 

Jói Dagur (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 11:57

3 identicon

Hæhæ skvís, og til hamingju með síðuna þína, eins og ég sagði ertu bara snilldarpenni, haltu áfram með þessa skemmtilegu pistla ;)  Med venlig hilsen Inga Ósk

Inga Ósk (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 13:24

4 Smámynd: Klara Nótt Egilson

Stúlka, vertu stolt af honum. Ég var iðulega handtekin meðan ég ók um á Hyundai með bilaða afturrúðu og naut fyrir vikið til hins ítrasta athygli einkennisklæddra karla. Að vísu var útvarpinu á endanum stolið, sumardekkin neituðu að hemla og ég eyðilagði skilningsríkan leigubíl, drengurinn minn gekk í skólann (unglingaveikin yfirtók vitund hans, aðrir foreldrar óku víst um á Benz) en ég ... tjah ... mætti undantekningarlaust í vinnuna á réttum tíma.

Lengi lifi ótótleg þrjóska og litlar buddur

Klara Nótt Egilson, 25.3.2007 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband