Áður en þið dæmið geðsjúka móðir...lesið;
22.1.2009 | 08:09
Mig langar í raun að skríða ofan í skúffu og vera bara þar. Hluti uppvaxtar okkar systkina liggur nú fyrir sjónum almennings í dag vegna forsíðuviðtals Vikunnar við minn ástkæra bróður, Gísla Þór. Blaðið liggur sjálfsagt næstu árin á biðsölum læknastofa og síst mun ég vera í felum þar til ég verð elliær og meira gaga en ég er nú þegar.... Mér finnst þessi staða vond og óþægileg, þó ég dáist að honum bróður mínum. Með viðtalinu opinberar hann líf mitt og æsku í leiðinni (hann fékk samþykki af hálfu okkar systkinanna allra) sem ég hef þagað yfir og er aldrei til umræðu.
Mér finnst betra að koma fram með mitt sjónarmið með þessum hætti, frekar en að fólk geti í eyðurnar. Þetta reynist mér samt drullutöff. Þetta sem ég er að gera núna. Eitthvað kom ég inn á ákveðna hluti í viðtali við Sölva Tryggvason á Íslandi í dag fyrir ekki alls löngu...hélt að þar með væri "opinberuninni" á lífi mínum eða uppvexti lokið. Það átti að vera endapunkturinn á fljótfærnisbloggfærslu sem sett hafði verið fram í smásögustíl.
Svo er ekki.
Mér persónulega finnst saga okkar systkina ekkert merkilegri en hver önnur. Öll, hvert og einasta okkar eigum við sögu. Það er svo spurning hvernig við vinnum úr reynslu okkar. Kannski var örlítið grófgerðari vegurinn hjá okkur, en hjá flestum, enda alinn upp í geðveiki; geðklofa, drykkjusýki og geðhvarfasýki.
Hvað mig varðar persónulega er fortíðin ekkert stórt issue, í raun ekkert til að tala um, þannig. Lít alls enganveginn á mig sem fórnarlamb. Því síður hetju.
Ég rita þennan pistil í þeim tilgangi einum að biðja fólk að sýna móður okkar umburðalyndi og vægð. Sýna aðstæðum hennar skilning og ekki síst veikindum hennar.
Eins og mig langar lítið til að tala um atvik og atburði, þá verð ég að segja sitthvað til að gefa ykkur mynd afþví sem ég er að fara. Mig langar lítið til að opinbera hluti um mig nema það eitt að ég sit núna í náttbuxunum mínum. Næsta víst er að kunningjar og vinir mínir koma til með að standa á öndinni...vona samt að þeir fari frekar og gefi öndunum.
Ég var níu ára þegar Gísli fæddist. Ég man fyrstu jólin okkar vel. Ég er glöð að hann man þau ekki. Ég man hvað hann var fallegur. Hefur alltaf verið. Að innan og utan. Hann var aðeins tveggja og hálfs mánaða gamall okkar fyrstu jól. Ég spilaði á munnhörpu inn í litlu læstu herbergi. Gísli grét. Ég grét afþví að hann grét. Systir okkar sat á gólfinu. Hvað átti sér stað fyrir utan herbergisdyrnar, læt ég ósagt hafa.
Einsog fram kemur í viðtalinu var gert upp á milli okkar barnanna. Ég er kannski ekki sú sem alla jafna ætti að standa upp fyrir henni mömmu, en ég geri það samt. Ég er næstelst, sú elsta af okkur þremur sem bjuggum í því umhverfi sem lýsir. Samkv. mömmu var/er ég skilgreind; ljótust og alveg vita laglaus. Ég var barin með belti og því sem hendi var næst, ég var misnotuð. En ég var ekki alslæm; t.d. var ég góð í að taka til, ég var kattþrifinn (ófáar myndirnar til af mér með svuntu) og svo gekk mér hvað best í skóla af okkur öllum. Á meðan Gísli bróðir fékk útrás í íþróttum...sótti ég sjálfsvirðingu mína í góðum einkunnabókum. Einsog sumir (bloggvinir) vita; hef ég grínast með að vera með fallegt bak og fallegar tær. Það er sagt í gríni en er dauðans alvara, það einasta sem þessi elska (hún mamma) sér við mig er hversu tærnar mínar eru fallegar og bakið mitt flott.
Sem sú elsta í "partýinu" bar ég eðlilega ábyrgð á þeim tveimur yngri; Gísla og systur okkar þegar hlutirnir voru ekki einsog þeir áttu að vera, sem þeir voru auðvitað sjaldnast eða aldrei. Ég þekki það að vera svöng í ljótum og slitnum fötum. Ég þekki augnaráð skólafélaga. Ég þekki það að langa til að rífa úr auga eða tvö, fyrir bita af snúð. Ég var sú sem fékk gamla, graða karla, vini mömmu og drykkjufélaga inn í herbergi að næturlagi með stórar loðnar krumlur...þar kom krókurinn sem ég setti upp að innanverðu að góðu. Ég þekki það að vera óttaslegin og hrædd. Tíu ára gömul hélt ég upp á barnaafmæli systur minnar sem þá var 4 ára. Gísli því 1 árs. Mamma týnd. Ég man eftir atviki þegar við lágum í rúmi saman; ég (10 ára) systir min (4ra), Gísli (1) og mamma (30). Við vorum nýflutt í hrörlegt tímabundið lítið leiguhúsnæði. Við lágum öll í sama rúmi í þögninni og horfðum upp í loft. Ég veit ekki hvernig hinum leið. Ég man hvernig mér leið. Ég var hrædd og mér var kalt á tánum. Það var mikil rigning þetta kvöld. Ég í minningunni er svo agnarsmá. Ég man þegar ein flísin datt ofan á okkur úr loftinu. Mér fannst himnarnir hrynja...mamma hló.
Ég man. Ég man. Ég man. Ég man ótal söngva (bíbíogblaka) fyrir þau yngri - fyrir svefn undir glasaglaumi og gauragangi en engri gleði. Með krók á innanverðri hurðinni og stundum vorum við læst inni. Gæti sagt ykkur ótalsögur af hörmungarjólum og atburðum. En nei...ég læt það vera.
Einsog fram kemur í opinskáu bloggi Gísla (fowler.bloggar.is) var mér vísað úr "partýinu" 12 ára gamalli, það eitt -hef ég aldrei látið uppi. Hef alla tíð sagst hafa strokið; tekið á mig ábyrgðina. Ég fluttist til föðurömmu minnar. Alla tíð hefur Gísli Þór átt stóran hluta af hjarta mínu. Sem barn og eftir að við urðum fullorðið fólk einnig. Hann er sá sem alltaf hefur staðið þétt með mér í öllu. Tekið þátt í sigrum mínum og ósigrum. Sá einasti og alltaf. Gísli er einstakur persónuleiki. Gegnumheill og stór og mikil manneskja. Sameiginlegt með okkur Gísla er kaldhæðnislegi húmorinn. Hvert og eitt okkar systkina fengum skilgreiningu og vorum "flokkuð" eða öllu heldur valið hlutverk... af hugsjúkri móður. Öll höfum við systkinin sloppið frá geðveikinni. En geðveiki getur jú verið ættgeng...og eða afleiðing. Öll erum við fínasta fólk og vegnar vel, hver á sínu sviði.
Ég endurtek; Ég segi frá þessum atburðum einungis í því skyni að koma ykkur í skilning um að mér ber engra hagsmuni að gæta varðandi minn þátt í að taka örlítið upp hanskann fyrir mömmu (eða öllu heldur veikindum hennar) og koma með mitt sjónarmið. Minn skilning á hlutunum. Ég var enganveginn uppáhalds og hef aldrei verið. Ekki í dag heldur. Síðast á mánudagsmorgun kíkti ég á hana í heimsókn.... hún segir við mig (af yfirvegun og í mestu rósemd) yfir kaffibolla;
-þú ert alveg einsog hann pabbi þinn Heiða mín...
-takk ... -segi ég vitandi hvað koma skyldi...
-TAKK????!!!!....Ohhh...hann pabbi þinn var svo ógeðslegur alltaf ....og forljótur! Algjör viðbjóður! Ömurlegur!
Pabbi minn lést af slysförum fyrir um tíu árum og ég elskaði/elska hann útaf lífinu, ég missti mikið þegar ég missti hann.
Enn þann dag í dag.... sárnar mér pínu slíkar athugasemdir, eðlilega, en ég reyni að taka ekki slíku persónulega. Mér sárnar aðallega fyrir hönd minningu pabba míns. Þetta dæmi sýnir svo ekki verði um villst hversu lasin hún mamma er í reynd. Þetta dæmi er það nærtækasta á þessari stundu, eitt af mörgum í okkar samskiptum. Ég segi það og meina; ég elska mömmu og mun alltaf gera. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hún er sjúk. Geðsjúkdómurinn ræður hegðun hennar, gjörðum og tungu og hefur gert í rúm tuttugu ár. Hún kaus ekki þennan sjúkdóm. Hann kaus að festa sér bólsetu í sálu hennar og huga. Ég tók sögu Gísla meira inn á mig en nokkurn grunar. Ef ég væri þess megnug tæki ég þjáningarnar af honum. Ég eiginlega þarf þess ekki samt, hann er stór og sterkur sjálfur.
Aðstæður okkar systkina voru afleiðing af drykkju og geðveiki fyrst og fremst. Hvort kom á undan eða eftir er algjört aukaatriði. Þetta var ekki yfirvegað plott af ásettu ráði af hálfu illkvittinnar konu um að eyðileggja bernsku saklausra barna sinna. Hún stjórnaði/stjórnar ekki eigin gjörðum. Allt sem hún sagði og gerði, eða gerði ekki, segir og gerir er sökum sjúkdóms hennar.
Fyrir alla muni upprætum fordóma gagnvart geðsjúkum! Dæmum ekki aðra. Sýnum öllum sömu virðingu. Geðsjúkum sem og öðrum.
Tilgangur viðtals Gísla var að vekja athygli á alkóhólisma, geðveiki og afleiðingum og átti það ekki að vera til að tala niður til hennar. Ég vona að það komist til skila til lesandans. Von Gísla er að viðtalið yrði einhverjum til hjálpar. Ég segi; -ég vona það svo sannarlega líka. Viðtalið er ekki að gera sig fyrir móður okkar sem aldrei kemur tilbaka úr geðveikinni sinni.
Hrund Þórsdóttir blaðamaður Vikunnar var með afbragðsefni undir höndum og flottan og sterkan karakter sem sögumann. Mér finnst hún hafa skilað sínu illa. Ég þekki ekkert til verka hennar umfram þetta, en ég veit hvernig hægt er að koma skilaboðum á framfærði með penna, burséð frá gráðum og diploma-sneplum. Fyrir mér kemur engan veginn nógu skýrt fram hvaða kraftaverk kom út úr þessum hörmungum. Þ.e. Gísli Þór bróðir minn. Þetta er svona krassandi blaðasnáfakjaftæðisstíll unninn í algjörri fljótfærni að mínu mati!....og eftir situr hvað?....að vekja fólk til umhugsunar...? Á hverju? Alkóhólisma? Að mamma hafi kannski selt líkama sinn? Ég segi enn og aftur og bið ykkur; ekki dæma geðsjúka móður of hart. Ekki neinn ef út í það er farið. Ekki einu sinni Hrund Þórsdóttir. Sjálfsagt prýðisdama. Ég vona svo sannarlega að það verði einhverjum til hjálpar og blessunar þetta viðtal. Ég er auðvitað ekki hlutlaus. Kannski finnst einhverjum þetta hreinasta afbragð; þessi afurð blaðamanns ...og er það vel. Fyrir mér smakkaðist þetta einsog kæst skata. Og mig hlakkar hreint ekki til að finna eftirkeiminn í munninum...sem mun þó koma...
Lausn mín einsog ég sagði á sínum tíma í viðtalinu í Ísland í dag felst í fyrirgefningunni. Rétt einsog Gísli hef ég aldrei leitað aðstoðar fagaðila og eða sálargæsluliða, en ég fann mína leið, rétt einsog hann. Vinur minn sagði að suma hluti gæti maður lært að lifa með, en aldrei fyrirgefið. Ég segi; annaðhvort fyrirgefur þú af öllu hjarta og ert laus eða sleppir því. Það er ekki hægt að fyrirgefa bara að hluta. Burtséð frá því hvort manneskjan sem gerir á hluta þinn biðst fyrirgefningar eða ekki. Að fyrirgefa er ekki það sama og að gefa samþykki fyrir því að brotið hafi verið á þér. Það felst stórkostleg lausn í fyrirgefningunni.
Fyrir mér er kærleikurinn flottasta og sterkasta vopnið sem ég hef eignast. Með hjarta fullt af kærleika eru manni flest allir vegir færir.
Mamma er ekki vond manneskja. Hún er í raun yndisleg á sinn hátt. Vissulega var og hefur forgangsröðunin hjá henni verið einkennileg, alla tíð. Mér finnst álíka mikil firra að ætlast til að bakbrotinn maður flytji 300 kg. píanó upp á þriðju hæð, sama og að ætlast til að mamma hafi verið fær um að taka nokkra skynsamlegar ákvarðanir er varðaði okkur börnin eða annað sem viðkom hennar lífi. Númer eitt, tvö og þrjú snerist allt hennar líf um veikindi hennar og litaðist af þeim. Við börnin vorum ferðafélagar, að okkur óforspurðum, á almennu farrými í þessu ferðalagi hennar.
Ég bið ykkur um að sýna henni sömu samhygð og þið mynduð sína þeim bakbrotna. Ég veit fyrir víst að ég myndi aldrei vilja skipta út minni fortíð, mínum foreldrum og öllum mínum stjúpfeðrum, einfaldlega vegna þess hversu sátt ég er við þá manneskju sem ég hef að geyma í dag. Ég meðvitað reyni að vera betri í dag en í gær. Ég tek ábyrgð á mínum gjörðum, burtséð frá allt og öllu.
Ég segi og ítreka; fyrirgefning og kærleikur ...
Þeir sem áhuga hafa á að koma í heimsókn til mín, bíð ég velkomna -Ala Cyber-heimsókn þ.e.a.s. Í öllum bænum farið úr skónum, ég var að skúra. Kaffið er því miður búið, bring yours...veskú...læt linkinn fylgja með. Þetta viðtal virðist hvort sem er ætla að loða við mig meir, en mig hefði nokkurntíma grunað! Það er með gleði sem ég játa -það hjálpaði nokkrum þ.e. að ég veit til þess að fólk hefur leitað sér hjálpar fagaðila í kjölfar viðtalsins. Með þessari færslu vonast ég svo sannarlega til að ég geti farið að staðsetja mig aftur í árinu 2022... Dramadrottningarhlutverkið fer mér enganveginn. Passar svo illa við augn- og hárlitinn. Vinsamlegast gangið hljóðlega um, mér er frekar illa við læti.
http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=STOD2&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=6adfa41b-d092-466b-979b-108169e9b686
Að endingu segi ég og meina; öllum eru allir vegir færir. Látum okkur dreyma. Einu höftin eru þau sem við setjum okkur sjálf.
Megi allar góðar vættir vernda ykkur öll...
Ég er farin til Kína...
Athugasemdir
Brynja skordal, 22.1.2009 kl. 08:21
Takk fyrir þessa færslu elskuleg, hvað get ég sagt annað en þú ert frábær!
Sjáumst............
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 08:23
Elsku Heiða mín þetta er nú ekki glæst fortíð hjá þér kellan mín :) en framtíðin er betri og svo þar að auki ertu algjör snillingur sem penni.
Guðborg Eyjólfsdóttir, 22.1.2009 kl. 08:25
Heiða Þú ert æði
Einar Bragi Bragason., 22.1.2009 kl. 08:26
Orðlaus yfir frásögn þinni, sendi þér stjórt faðmlag.
Læðist til þín með kaffi í krús ... (hjarta) Það er margt sem mig langar að segja en því verður ekki komið svo auðveldlega í orð. Okkur eru allir vegir færir!
Takk!
www.zordis.com, 22.1.2009 kl. 08:28
Af misjöfnu þrífast börnin best, eða hvað?
Lífið er langur skóli og persónulega er ég ánægður með hvað ég hef sjálfur upplifað í mínu lífi og hefði ekki viljað breyta miklu þó svo að oft hafi ýmislegt gengið á.
Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.1.2009 kl. 08:30
Ómar Ingi, 22.1.2009 kl. 08:31
Ef það hefur eitthvað að segja, þá færðu *KNÚS* frá mér núna!
Einar Indriðason, 22.1.2009 kl. 08:34
Maður veit ekki alveg hvað maður á að skrifa en þú, Gísli Þór bróðir þinn , systir þín og öll önnur börn sem alist upp við aðstæður eins og þessar. Þið eruð hetjur. Þið eruð hetjur af þvi að þið standið uppi í dag og getið upplíst okkur hin og við kannski farið að taka okkur saman í andlitinu í sambandi við fordómana. Við hin, sem ólumst upp við "venjulegar" getum auðvitað á engan hátt sett okkur í ykkar spor og ég ætla ekki að reyna það.
Ég mun fjárfesta í vikunni, lesa viðtalið við bróður þinn og reyna að lesa það með þínum augan frekar en blaðamannsins.
Þú ert frábær, haltu því áfram
Kveðja úr norðri
Anna Guðný , 22.1.2009 kl. 08:39
Heiða mín takk fyrir þessa færslu. Ég hef sjálf átt gott atlæti í uppvexti og þekki ekki svona gjörðir vegna þess. En ég er með 11 ára dreng, sem hefur einmitt lent í svona móður. Sem betur fer var hann settur til okkar, og er búin að vera í bráðum 7. ár. En við erum ennþá að berjast við ákveðna skapbresti og viðbrögð sem helgast af sambandi hans við móðurina. Og hún er ennþá að hafa samband við hann, sem kostar erfiðleika bæði í samskiptum við afa sinn og skólann. Það er nefnilega erfitt að banna símtöl. En eitt stendur alveg upp úr, hann elskar móður sína, og við höfum aldrei gert neitt til að skemma þá ást eða ímynd. Einungis sagt honum að mamma hans sé veik. Eftir því sem hann eldist og verður skynsamari gerir hann sér betur grein fyrir því hve sjúk móðir hans er í raun og veru. Inn og út úr fangelsum í dag á valdi fíkniefna. En hann mun elska hana alla tíð, alveg eins og þú elskar þína móðir. Ástin og kærleikurinn sigrar allt ekki satt elskuleg mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2009 kl. 08:41
Þetta eru ekki góðar aðstæður til að alast upp við en þið stóðuð þetta af ykkur og eruð sterkari eftir.
Þórður Ingi Bjarnason, 22.1.2009 kl. 08:43
Heiða mín. Þakka þér fyrir að deila þessu með okkur hinum. Þessi færsla hreyfir verulega við mér.
Alkoholismi og geðveiki virðast fela hvort annað í sér.
Ég skil færsluna þína svo vel, þetta bölvaða mein sem þessir sjúkdómar valda þekki ég , birtingarmyndirnar eru vitanlega misjafnar í lífi okkar sem hafa reynt á eigin skinni.
Það að þið skulið koma svo sterk og heil út úr þessum brimgarði er ekki sjálfgefið og nánast kraftaverk. Líkt og sú staðreynd að enginn getur hjálpað alkoholista að höndla lausnina við sjúkdómnum, nema annar alkoholisti. þá er örugglega erfitt fyrir þann, þrátt fyrir háskólagráður og tilbehör, að skrifa um þessar aðstæður án þess að hafa staðið í eigin skinni í návígi við hinar eyðileggjandi og ömurlegu aðstæður sem fylgja virkum alkoholisma.
Gangi þér alltaf sem best. Sendi þér stórt knús.
Einar Örn Einarsson, 22.1.2009 kl. 08:44
Ást knús og kærleikur til ykkar allra
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 08:45
Heiða mín, engin er fær um að dæma aðra, við getum haft skoðun en að mínu mati ekki dæmt og um hvað eitthvað sem við höfum ekki hundsvit á, því það höfum við ekki.
Engin mun dæma móður þína, hún gerði það eina sem hún kunni hverju sinni.
Þú ert yndislegur persónuleiki svo sterk og falleg, hefur unnið í þínu á þinn hátt það er það besta ef maður getur það. Á því þroskast maður best.
veistu ég held bara að ég sendi þér ljós og kærleik.
Þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.1.2009 kl. 08:45
Risa knús til þín.
Þarf dug og kjark til að opna sig svona
Þú ert duglegust og ég óska þér alls hins besta.
Hulla Dan, 22.1.2009 kl. 09:06
Hjartablóm! Þetta var góð lesning og þörf! Kennir mér að vera ekki "bara" að velta mér upp úr eigin vandamálum, fylgifisks sjúkdómsins. Ég þekki sjúkdóminn, afleiðingar hans og hvað hann gerir fólk ruglað.
Þú ert hetja, falleg og góð - og þú átt allt það besta skilið í lífinu. Ég get komið í heimsókn, ég drekk nefnilega ekki kaffi :) Love - Ingibjörg
Ingibjörg Gunnarsdóttir, 22.1.2009 kl. 09:11
Heida mín .Tig hef ég tekt í mörg ár og ekki vitad neitt.Tú er hetja í mínum augum og hefur alltaf verid falleg.Tóti pabbi tinn var glæsilegur madur og gódur madur.Siggu ömmu tekkti ég vel eins og tú veist og var engin smá kjarnakona alveg eins og tú.Hún var vel kinnt í litla fallega bænum sem vid bjuggum í á vestfjördum.
Hjartanskvedja elsku Heida.Læt sjá mig í heimsókn med kaffilús í farangrinum. Í næstu íslandsferd.
Gudrún Hauksdótttir, 22.1.2009 kl. 09:14
Elsku Heiða, ég sit með tárin í augunum eftir þennan lestur og dáist enn meira af þér en fyrr. Ef hlýjr hugsanir senda einhverja strauma og megna úr einhverju böli að bæta þá sendi ég þér mínar ásamt mínum bestu kveðjum.
Steingerður Steinarsdóttir, 22.1.2009 kl. 09:14
Heiða ég trúi því að þrátt fyrir að fólk hafi átt slæma fortíð að þá eigi allir skilið að fá annað tækifæri til að bæta fyrir það sem þau hafa gert.
Ég er allveg viss um að mamma þín eigi eftir að bæta fyrir það gamla. Allavegana finnst mér þú vera yndisleg;) eigðu góðan dag :)
En mér finnst það samt ekkert rangt hjá Gísla að tala um þetta, því að eflaust opnar þetta dyr fyrir aðra sem hafa lent í svipuðum aðstæðum. Gísli getur þá notað sína reynslu til að hjálpa öðrum þegar hann hefur unnið úr þessu.
Sigvarður Hans Ísleifsson, 22.1.2009 kl. 09:27
Alkahólismi og geðveiki er nógu slæmt sitt í hvoru lagi og oft leiðir annað til hins og hlýtur að vera djöfulleg blanda.Í báðum þessum tilfellum tekur sjúkdómurinn völdin.Ekki af því að viðkomandi kýs það síður en svo.Sem betur fer er í dag fleiri og betri úrræði fyrir fólk með þessa sjúkdóma heldur en var á þeim tíma sem móðir þín lendir í þessu.
Hjarta mitt grætur fyrir ykkar allra hönd.En ég er líka glöð í hjartanu hvað þið systkinin komust vel frá þessu.
Eins og ég hef sagt áður þegar þessi mál ber á góma þá vildi ég vera að tala við þig akkúrat núna.
Faðmlag frá mér.
Solla Guðjóns, 22.1.2009 kl. 10:16
Þið systkinin hljótið að vera alveg ótrúlega sterkar og heilsteyptar persónur að hafa komið heil út úr þessu. Ég las viðtalið við Gísla Þór í gær og fannst með ólíkindum hvað þið hefðuð þurft að þola. Meginástæðan fyrir því hvað þið sluppuð vel er þessi einstaka geta til að fyrirgefa sem mér finnst mjög svo stórmannlegt af ykkur systkinum.
Helga Magnúsdóttir, 22.1.2009 kl. 11:20
Þau hafa það í genunum, og hjálpa hvort öðru.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.1.2009 kl. 11:28
Sæl Heiða! Ég verð síðasti maður til að dæma móður þína.
Aldist upp með geðveikri móður sjálfur og við systkinin þurftum að halda henn stundum 2 - 3svar í viku meðan beðið var eftir lögreglu sem fór með hana.
Þó alkólismi hafi ekki verið með í mínu tilfelli, þá er alkhólismi geðsjúkdómur og ætti að meðhöndlast sem slíkur. Þetta gæti verið að stórum hluta saga mín þegar ég var að alast upp.
Og þetta er enn svona. Félagsmálstofnun reynir að komast undan öllu svona veseni ef þeir geta. Ég var samt "sendur í sveit" á þeirra vegum og hefði alveg eins getað þolað móðir mína.
Það var Biblíugeggjun í gangi og þurfti ég að hlusta á Biblíunna á hverjum degi í 6 ár. Þá slapp ég úr því helvíti á jörðu. Frelsaðist alla vega frá öllum trúarbrögðum, þó ég hafi hitt fólk sem kann með trúarbrgð að fara.
Þú er svei mér kjörkuð Heiða, að koma með svona pistil. Ég dáist af þer fyrir þessi skrif.
Ég hef skrifað niður ALLT sem ég man eftir í minni æsku og svo kveikti eg í því á eftir. Þannig þurkaði ég út martraðarkenndar minningar fyrir mig, sem nú koma aftur í gloppum.
Óskar Arnórsson, 22.1.2009 kl. 11:34
" Að fyrirgefa er ekki það sama og að gefa samþykki fyrir því að brotið hafi verið á þér. Það felst stórkostleg lausn í fyrirgefningunni.
Fyrir mér er kærleikurinn flottasta og sterkasta vopnið sem ég hef eignast. Með hjarta fullt af kærleika eru manni flest allir vegir færir."
Heiða, þú ert mögnuð!
Þú átt mína aðdáun fyrir að vinna svo vel úr erfiðri reynslu. Fyrirgefningin stórlostleg, kærleikurinn er magnaður
Kær kveðja
Guðrún Þorleifs, 22.1.2009 kl. 11:37
Sæl, x.
Kíki á blaðið á læknastofunni í dag. Færð frá mér spark í rassinn (minnir að hann hafi verið flottur líka), ekki til að minna á liðna tíð heldur koma þér að verki.
Þinn einlægur,
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 11:39
Búin að lesa og held að ég skilji. xxx
Heiða B. Heiðars, 22.1.2009 kl. 12:09
Mér finnst í sannleika sagt leitt að ég hafi "daprað" einhvern...en á móti kemur; vá hvað er ljúft að finna væntumþykju ykkar.
LA; já og hann er flottur...hehe
ÉG ELSKA YKKUR!
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 12:09
Þú ert einstök..það var mín lukka að kynnast þér
Erla Ósk Arnardóttir Lilliendahl, 22.1.2009 kl. 12:39
Æi ....
.... við erum alls ekkert huguð! Þetta er bara spurning um að beita almennri skynsemi. Einstök? já svo sannarlega...einsog sérhvert ykkar.
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 13:00
Elsku Heiða mín, ég er orðlaus, ég vissi alltaf að eitthvað hafði litað líf þitt sterkum litum, en þetta er rosalegt. Ég ætla að láta mér duga að lesa psitilinn þinn, ekki Vikuna, tel mig fá meiri skilning á málinu svona beint úr hjarta þínu. Þú ert algerlega einstök og hefur tekið á málunum á þann eina hátt sem í raun er hægt til að lifa þetta allt af. Ég er stolt af því að vera vinkona þín og mér þykir óendanlega vænt um þig, vonandi fæ ég fljótlega tækifæri til að hitta þig á ný og faðma þig elskan mín. Kærleiksfaðmlag sendi ég þér núna og allar mínar bestu hugsanir.
Ásdís Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 13:04
Hæ dúlla. Þú ert alltaf jafn frábær manneskja. Hjartahlý og falleg. Aldrei aldrei gleyma því.
Mér dettur ekki til hugar að dæma mömmu þína. Ég held að flestir hafi einhverja hugmynd um þá sjúkdóma sem þú nefnir, annað hvort af eigin raun eða annarra.
Það er kerfið sem ég dæmi. Á þessum tímum var það álíka sjúkt og einstaklingarnir sem áttu við þennan vanda að stríða. Og þjóðfélagið var fordómafullt. Ég þekki ekki kerfið í dag en ég vona af öllu hjarta að það sé betra.
Allt sem opnar augu fólks fyrir svona heimilisaðstæðum er af hinu góða. Því svona hlutir gerast enn í dag - því sjúkdómarnir eru ennþá við líði. Kennum fólki að bregðast rétt við. Ekki fordæma fólkið og líta börnin hornauga. Komið frekar til hjálpar. Persónulega mundi ég ekki hika við að setja mig í samband við yfirvöld ef ég yrði vitni af einhverju þessu líku.
Knús á þig dúllan mín. Engin ástæða til að fara til Kína (nema þig virkilega langi:) Og þú ert alltaf velkomin í kaffi til mín, cyber or not.
knús,
Lísa
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 22.1.2009 kl. 13:30
Frábær og voguð skrif. Gangi þér vel Heiða mín.
Bergur Thorberg, 22.1.2009 kl. 13:31
Elsku Heiða. Hvernig á maður að skrifa eitthvað að viti eftir að hafa lesið þetta og horft á viðtalið við þig. Jú bara frá hjartanu. Mér hlýnaði um hjartaræturnar bara af að sjá þig á skjánum. Hlýjan og innileikinn er svo ekta og það var gott að fá að SJÁ þig !!! Ég man svo vel eftir þér litlu skottunni þegar þú "fluttir" til Heiðu ömmu og við fórum að vera saman. En ekki hafði ég hugmynd um allt sem þú varst búin og varst að ganga í gegn um. Er það ekki "tibískt" samt að við (börn) höldum vel utan um svona leyndarmál. Við hefðum geta deilt ýmsu ef við hefðum þorað að tala saman þá. Mér finnst alveg frábært að heyra hvernig þú hefur unnið með þetta og sjálfa þig, og er stolt af því að þekkja þig !!
Risa knús og kærleikur til þín frá mér, Sigrún.
Sigrún Friðriksdóttir, 22.1.2009 kl. 13:33
Elsku Ásdís mín, Sigrún og Lísa. Sendi ykkur kærleikskveðju til baka ástarfuglarnir mínir. Mig hlakkar til að knúsast.
Hefði aldrei komið fram með þessum hætti nema bara til að verja mömmu og koma með mitt sjónarmið. Ítreka; elskið mig en ekki vorkenna mér! Ég er dúndurgóð! Fögnum lífinu bara og brosum
Yndislegar
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 13:44
...og gangi þér vel minn kæri Bergur í þínu
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 13:45
þetta er ekkert smá rosaleg reynsla og mér finnst þú standa uppúr mannhafinu með þvílíkri prýði, þú ert bara töffari - Guð blessi þig og fjölskyldu þína
halkatla, 22.1.2009 kl. 14:25
Hæ Heiða. Langaði bara til að segja að ég las greinina í Vikunni. Áður hafði ég lesið frásögnina hjá Gísla sjálfum á blogginu hans. Mér fannst hún betur skrifuð en þær voru mjög álíka. Ef ég vissi ekki betur þá hefði ég aldrei tengt hans frásögn við þína (þarna í sjónvarpinu). Þú sérð þetta örugglega öðruvísi af því að þú ert tengd málum. Mér finnst frásögnin gefa til kynna hversu heill bróðir þinn er að koma útúr þessu og ekki eins slæm og ég hafði gert mér í hugarlund fyrirfram. Hún, ein og sér hefði ekki heldur orðið til að vekja upp fordóma í garð móður þinnar né nokkurra annarra í fjölskyldunni. Sjúkdómurinn skín glögglega í gegn um frásögnina af henni.
Þú þarft engar skúffur til að skríða í. Fæstir munu tengja hans frásögn við þig - hvorki núna né seinna.
Hélt bara að þú vildir kannski vita hvernig þetta lítur út fyrir "utanaðkomandi" sem þó veit.
knús og kram,
Lísa
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 22.1.2009 kl. 14:34
Hæ elsku Lísa.
Gott að heyra. Auðvitað lítur þetta öðruvísi út fyrir mér en öðrum. Ég hafði minnstu áhyggjur afþví að ég yrði tengd við hann bróður minn. En mér var/er mikið í mun að skilmerkilega komi fram að mamma er ekki vond heldur veik.
Forsíðan finnst mér afleit. Þar sem ég stundaði nám í uppl-og fjölmiðlafræði veit ég svo sem hvað selur. Fyrir mína parta -hefði ég gert þetta öðruvísi. Sama hver á í hlut. (Aðgát skal höfð í nærveru sálar) Fyrirsögnin finnst mér ósmekkleg...og hallærisleg, algjörlega afleit. Gísli reddar henni aðeins afþví hann er svo fríður... hehe
Hver kýs þetta hlutskipti? Enginn...mér finnst blaðamaður ófaglegur er varðar jafn stórt mál...og ég stend við það! Ég segi fyrir sjálfa mig; ég ætlaði aldrei að verða einsog mamma heldur. Hef engan hitt sem dreymir stóra drauma um verða geðveikur þegar hann er orðin "stór".
Þetta er ekki spurning um val...þetta er spurning um hlutskipti.Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 15:02
Ég skil nokkuð vel. Enda ekki langt undan á tímabili.
Sem lítil stúlka varstu bara falleg og afskaplega viðkvæm. Ekki láta segja þér neitt annað.
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.1.2009 kl. 15:07
Ég man hversu góð þú varst mér, alltaf. Hef ég þakkað þér?
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 15:17
Þú þarft ekkert að þakka Heiða mín, návist þín eins kallaði ekki á neitt annað.
Knús.
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.1.2009 kl. 15:50
Ég geri það samt Jenný; takk.
...og Helga ég þakka þitt innlegg mín kæra. Ég mæli eindregið með því að fólk sem á í einhverjum vandræðum leiti sér aðstoðar hjá fagaðila og taki okkur tvö sér ekki til fyrirmyndar hvað það varðar.
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 16:33
Veistu það Heiða! Þetta breytir ekki áliti mínu neitt á þér. :) Þú ert bara stærri persóna í dag en þú varst í gær. Þetta er holl lesning fyrir alla. Hver er fullkominn? Ekki ég.
Ef allir skilja kærleik, þá er fyrirgefning ekki langt undan. Þú skilur hvortveggja vel.
Marinó Már Marinósson, 22.1.2009 kl. 17:20
Veistu það Heiða! Þetta breytir ekki áliti mínu neitt á þér. :) Þú ert bara stærri persóna í dag en þú varst í gær. Þetta er holl lesning fyrir alla. Hver er fullkominn? Ekki ég.
Ef allir skilja kærleik, þá er fyrirgefning ekki langt undan. Þú ert í þeim hópi. :)
Marinó Már Marinósson, 22.1.2009 kl. 17:22
Óskar Þorkelsson, 22.1.2009 kl. 17:25
Afsakaðu tvöfaldann texta
Marinó Már Marinósson, 22.1.2009 kl. 17:27
Já þú ert sko Einstök Heiða mín...ég dáist af þínum karakter og hvernig þú sérð hlutina...lífið..
Í barnæsku minni gekk oft mikið á þar sem allt var litað af alkohólisma og var ég oft stútfull af kvíða og var ekki gömul þegar ég smakkaði áfengi fyrst og þar var mín laus komin....hélt ég... :(
Ég náði samt alltaf einhvernveginn að sjá þetta sem sjúkt ástand þar sem bakkus réði ríkjum....og hef oft sagt að ég vildi ekki fyrir nokkurn mun breyta minni fortíð, því hún hefur vissulega mótað mig og ég er ekki svo slæm :)
Einhver sagði: Af misjöfnu þrífast börnin best, eða hvað ?
Já það felst sko mikill máttur í fyrirgefningunni og þetta sem þú segir að kærleikurinn sé besta vopnið er gullmoli, ég vildi óska ég gæti oft verið meðvitaðri um það.
Takk fyrir að vera ÞÚ :)
Helga Nanna Guðmundsdóttir, 22.1.2009 kl. 17:47
knús knús og ljúfar kveðjur
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 22.1.2009 kl. 17:56
Manni er eiginlega orda vant eftir svona pistil, ég er bara hér full virdingu fyrir thér og thínum,hvad thid hafid høndlad allt á ótrúlegan hátt og standid eftir sem sterkar og frábærar manneskjur.
bestu kvedjur,knús og kram hédan frá Mørkinni minni
María Guðmundsdóttir, 22.1.2009 kl. 18:30
Spáðu í það hvursu gott eintak þú ert. Að komast svona æðrulaust í gegnum þetta. Að lifa í kærleik er tær snilld. Njóttu þess að vera ÞÚ. Takk fyrir frábær skrif. kveðja
Kristín Jóhannesdóttir, 22.1.2009 kl. 19:00
Púff ég er orðlaus og eiginlega hálffeimin.
Eina sem ég get sagt er; takk
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 19:13
Veistu Heiða eftir að hafa lesið kommentin til þín fyllist ég bara kærleik og gleði með þér flotta stelpa.
Milla
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.1.2009 kl. 19:13
Heiða mín
Ég valdi ekki geðveikina hún valdi mig.
Þú ert hetja.
egvania, 22.1.2009 kl. 19:56
Fyrir einhverjum vikum síðan (rétt fyrir jól minnir mig) rakst ég á bloggsíðu ungs manns. Hann var að tala um jólin og minningar um jólin. Og mömmu sína. Alkahólistan. Ég var djúpt snortin af lestrinum og skyldi eftir mig einhver spor. Reyndi eins og ég gat að koma til skila hversu frásögn hans snerti mig mikið.
Vikuna fékk ég í hendur í dag og tengdi strax. Svo sá ég skilaboðin frá þér rétt í þessu..
Elsku Heiða. Elsku elsku Heiða. Takk fyrir þessa stórkostlegu færslu. By the way.. veistu hversu vel hún er skrifuð? Þú ert hörkupenni.
Sjálf ólst ég til skamms tíma upp við aðstæður sem sennilega hafa verið ofsalega líkar þeim sem þú lýsir. Ég er bara svo heppin að muna ekki eftir því. Nema að ég hafi bara blokkerað minningarnar (eins og mig stundum grunar).
Stundum langar mig að loka fyrir augu, eyru og allar tilfinningar hjartans þegar ég les um börn í slæmum heimilisaðstæðum. Og það breytir engu þó að frásagnirnar séu gamlar. Jafnvel þó heill mannsaldur skilji að mína æsku og æsku sögumanns. Það er beinlínis sársaukafullt af hugsa um litlar varnarlausar sálir í skelfilegum aðstæðum.
En nú ætla ég að hætta að skrifa. Ég vildi bara að þú vissir að mér finnst þú flott. Og það gleður mig óendanlega að vita að þið systkinin eruð a union.
Ég ætla að lesa viðtalið við fallega bróðir þinn og svo ætla ég að horfa á viðtalið þitt.
Sendi þér stóran stóran faðm.
Jóna Á. Gísladóttir, 22.1.2009 kl. 20:26
Hjartans fyrirmyndin mín.
Enn og aftur strýkurðu hjartarætur mínar og lesenda þinn ofurblítt með einlægni og kjarki. Takk fyrir að deila með okkur. Takk fyrir að minna á mátt fyrirgefningarinnar. Takk fyrir að sýna okkur fram á að hægt er að eiga kærleiksrík samskipti við veikt fólk eins og móður þína og taka því eins og það er. Takk fyrir að sýna að það er hægt að rétta úr sér og verða sterk, sjálfstæð og kærleiksrík kona eftir erfiða æsku. Ég vona sannarlega að sem flestir lesi þetta. Það hafa allir gott af því.
Olga Björt (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 20:51
Takk elsku Jóna, ég finn algjörlega samhljóm í orðum þínum og með þér. Þú hefur gefið mér mikið, án þess að vita afþví. Takk - takk - takk
Olga þú ert yndisleg
Takk öll enn og aftur
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 21:18
Átakanleg lesning og ljóst að það er sterkur og hugaður einstaklingur sem skrifar hér. Ég dáist að styrk þínum. Ég sjálf gæti aldrei fyrirgefið slíkt né þeim sem þannig kom fram við mig og/eða systkyni mín, þrátt fyrir að viðkomandi hafi verið sjúkur. Mér er ljóst að það færi eflaust verst með mig sjálfa, en samt ..... þetta er móðir sem fer svona hræðilega með börnin sín ásamt því að leyfa öðrum að gera slíkt hið sama. Þú ert greinilega ótrúlega vel innrætt kona Heiða og ég óska þér alls hins besta.
Katrín (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 21:19
Heiða mín! Þegar ég les svona frásögn langar mig mest til að herða hjartað upp og hætta að lesa. Þetta komi mér ekki við!
En þetta kemur mér við. ÞÚ kemur mér við! Þú hefur kennt mér ýmislegt í gegnum þann tíma sem ég hef "þekkt" þig og bara smábrot af því er að fólk komi mér alltaf við.
Þú ert ein sú sterkasta og mér þykir undurvænt um þig!
Hrönn Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 21:25
Takk fyrir póstinn Heiða...og ég ítreka að mér finnst frábær afstaða þín til móður þinnar.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 22.1.2009 kl. 21:36
Mér þykir líka undurvænt um þig Hrönnslan mín Ekki málið min kæra Hrafnhildur.
Katrín; ég skil þitt sjónarmið. Ég skil líka þá sem geta ekki fyrirgefið. Hef verið á þeim stað sjálf. Það var ekki að gera sig fyrir mig að bera gremjuna, reiðina og sjálshatrið. Ég hinsvegar fann gríðarlega lausn í fyrirgefningunni. Vildi óska að allir sem eiga um sárt að binda finndu lausn sína þar. Sjálfs sín vegna fyrst og fremst. Gangi þér sem allra allra best og ykkur öllum.
Heiða Þórðar, 22.1.2009 kl. 22:36
Það hlýtur að vera mikilsvert fyrir veika móður þína að börnin hennar skuli koma svona stórkostleg út, þrátt fyrir það sem þau þurftu að ganga í gegnum í æsku.
Ég er áskrifandi að Vikunni, og verð að viðurkenna að þegar ég las viðtalið hugsaði ég hvers vegna að enginn hefði áttað sig á aðstæðum og komið drengnum til hjálpar. Jafnframt hugsaði ég hversu mörg börn væru að ganga í gegnum svipað í dag? Ég hreifst af bróður þínum í viðtalinu og af þér í þessari frásögn; hvorugt ykkar þurfið að vera ofan í skúffu eða fara til Kína!! Þið getið alveg staðið stolt uppi á hillu eða uppi á Arnarhóli þess vegna!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 22.1.2009 kl. 23:45
Elsku Heiða bloggvinkona. Ef ég þekkti þig persónulega, meir en hér af blogginu, þá kæmi ég umsvifalaust í kaffi, færandi blóm og faðmaði þig langt og innilega. Ef þessi einstöku skrif þín snerta ekki hvern þann er les og veita viðkomandi leiðsögn varðandi æðruleysi, virðingu og kærleik gagnvart öllu lífi og fólki þá veit ég ekki hvernig hægt er að taka á svona hlutum.Þessi skrif þín segja mér að þú sért einstök persóna sem skilur lífið, tilgang þess og fegurð af svo mikilli dýpt. Þú átt mikla þökk skilið fyrir að deila þessu með okkur samferðafólki þínu á svo einlægan og fallegan hátt.Sendi þér mínar bestu bloggkveðjur og knús:)
Hólmgeir Karlsson, 22.1.2009 kl. 23:48
Takk fyrir yndisleg orð bæð tvö. Sendi ykkur risaknús
Já það er hægt að velta sér endalaust upp úr því afhverju ekkert var gert á sínum tíma. Afhverju hllutir voru látnir viðgangst. það var hinsvegar ekki gert og því ber okkur systkinunum að gera það besta í stöðunni.Taka fullkomna ábyrgð á eigin lífi.
Í mínu tilfelli; að fyrirgefa og elska hana
Heiða Þórðar, 23.1.2009 kl. 00:20
Þú ert stórkostleg kona. Punktur.
Halla Rut , 23.1.2009 kl. 00:50
Áhrifamikil lesning. Ekki síst vegna þess hvað þú hefur unnið ótrúlega vel úr málunum.
Jens Guð, 23.1.2009 kl. 00:55
Þið eruð hetjur þið systkininn,Knús á ykkur
Óla
Ólöf Karlsdóttir, 23.1.2009 kl. 00:58
Sæl og blessuð Heiða mín.
Takk fyrir síðast.
Ég var búin að lesa bloggið hans Gísla Þórs og eins keypti ég Vikuna í dag. Þetta er svo sorglegt en það er ekki hægt að bakka. Nágrannar hugsa kannski núna af hverju hjálpuðum við ekki blessuðum börnum og eins er alveg ótrúlegt að kennarar skuli ekki hafa tekið eftir neinu.
Eftir að ég missti móður mína á tíunda ári hrundi tilveran mín og í fjögur ár lærði ég ekkert. Ég fékk bara þann stimpil að ég nennti ekki að læra. En að einhver skildi skoða málin og komast að því að ég var óhamingjusöm og eirðarlaus var ekki inní myndinni.
Meira að segja lenti einn vinur minn í því sem er þrítugur í dag að komast í gegnum grunnskóla í Reykjavík lesblindur án þess að það væri uppgötvað. Ég skil ekki hvernig svoleiðis fór fram hjá kennurum frekar en með Gísla en þeir eru á sama aldri.
Nú trúi ég á betri tíð fyrir ykkur. Það er alveg nauðsynlegt að opna á sárin sín eins og ég gerði á sínum tíma.
Mundu að þú ert falleg og þú lætur engan segja þér neitt annað.
Megi almáttugur Guð lækna hjartasárin ykkar.
Megi almáttugur Guð miskunna móður ykkar.
Vertu Guði falin kæra vinkona.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 23.1.2009 kl. 01:36
Ég er yfirfull af þakklæti og væntumþykju til ykkar elsku vinir
Heiða Þórðar, 23.1.2009 kl. 08:43
orðlaus yfir lestrinum -- þú ert hugrökk -- mér fannst þú alltaf vera eins og allir aðrir krakkar þegar við vorum litlar -- verð að segja þér að þú ert sönn hetja og þið systkinin , þið eigið allt gott skilið - það er gott að fyrirgefa
Margrét M, 23.1.2009 kl. 13:34
Elsku besta...
það er auðvitað svo að við veljum okkur ekki foreldrana. Inkar trúa/trúðu því að börn velji sér foreldra fyrir fæðingu (ekki öfugt) og getur það svo sem vel verið svo.
Ég velti því stundum fyrir mér hvort einhver tilgangur, öðru æðri, sé með þessu öllu - að þær raunir sem við sum göngum í gegnum séu okkur ætlaðar af einhverri ástæðu !
En eins og þú segir svo flott - þá voruð þið ferðafélagar móður ykkar að ykkur óforspurðum - og örugglega á almennu farrými.
Þig þekki ég nú nokkuð vel og þú er bara svo ótrúlega sterk, trú og trygg samferðarfólki þínu.
Það er mér heiður að fá að ferðast með þér nú - á fyrsta farrými og vona ég að því ferðalagi ljúki aldrei.
Elska þig vinkona
Linda Lea Bogadóttir, 23.1.2009 kl. 13:54
Hvað get ég sagt nema það að ég votta þér samúð mína að þurfa að ganga í gegnum þetta en jafnframt virðingu mína því þú ert greinilega mjög sterk og heilbrigð manneskja eftir þetta allt saman.
Bestu kveðjur
Eggert
Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 14:13
Kærar þakkir enn og aftur
Heiða Þórðar, 23.1.2009 kl. 15:00
Mér var þetta átakanlegt að lesa og ekki hef ég rétt á að dæma móður þína eða nokkra aðra mannesku og ætla mér ekki að gera.
Í mínum augum og huga ertu HETJA og systkini þín líka.
Ég elska þig eins og þú varst, ert og munt vera. ;)
Aprílrós, 23.1.2009 kl. 15:19
Sæl Heiða, ég hef ekki lesið nýjustu vikuna, en ég sá viðtalið við þig á sínum tíma, þó ekki allt. Að lesa þessa færslu þína hefur verið fræðandi og já lýsandi um þina innri persónu.
Fyrirgefningin er eina leiðinn, hún er líka erfið, en lausnin sem fæst með henni er svo sannarlega þess virði.
Móðir þín er veik, svo einfalt er það, og enginn hefur rétt til þess að dæma hana, fyrir utan ykkur systkinin, því þið þekkið hana best. Ég þakka þér þessa lesningu. Guð verði með þér Heiða og gefi þér bjarta og gefandi framtíð.
kv.
Linda.
Linda, 23.1.2009 kl. 18:10
Takk Heiða !!
Takk fyrir að deila fortíð þinni með okkur. Takk fyrir að sýna mér að þótt silfurskeiðina skortir í æsku þá geti allir átt möguleika á bjartri framtíð.
Ég á slæmar minningar úr æsku, ekki jafn slæmar og þið systkynin, en þó það vondar að ég, 25 árum seinna, er enn reiður.
Í dag hef ég allt sem ég mögulega get óskað mér, ég er sæmilega stæður og á yndislega og fallega konu, á 3 frábær börn, ég hef allt sem ég vil en samt er þetta tómarúm innra með mér sem ég get aldrei fyllt upp í, sama hvað ég moka miklu fé eða hlutum í það, alltaf er það tómt.
Ég hef þó lært það strax af skrifum þínum að það sé alltaf til von.
Ég hef oft séð andlit þitt hér á blogginu en fyrst nú tengi ég það við kraftaverk !!!
Rúnar (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 18:26
Takk Rúnar, takk öll. Það er svo sannarlega von mín að þér takist að fylla tómarúmið innra með þér.
Peningar voru ekki að gera sig fyrir mig sjálfa, þ.e. fylla upp í tómarúmið, heldur það að gefa af sjálfri mér, fyrst og fremst. Reiðin gerir ekkert fyrir mig eða aðra nema ég verð grimm og ljót ....að auki hrukkótt ... hehe.
Það að fylla hjarta sitt af þakkæti fyrir allt sem maður á og hefur...er leið. Ansi töff og ekki hægt að vera reiður og þakklátur á sama augnablikinu.
Svo er ósköp "notó" að trúa á æðri mátt. Guð er flottasti gæinn í bænum!
Heiða Þórðar, 23.1.2009 kl. 20:57
Mjög áhrifamikil lesning Heiða mín. Þakka þér fyrir
Auður Proppé, 23.1.2009 kl. 21:08
Ég sleppti því viljandi að athugazemdast fyrr enn fyrztur, veit þú líður mér það auðveldlega. Þabbara er þannig að ég hefði bara byrjað að endurtaka mig um hvernig mín upplifun hefur verið af þér, það hefði orðið skítvæmið & hundleiðinlegt afleztrar & dregið úr bitið í rittönnum annara um þig & þínar fráfærur í þezzari færzlu.
Ert bara lángbezt í gegn, & allann hringinn um.
.
Steingrímur Helgason, 23.1.2009 kl. 21:48
Kæra Heiða. 'Eg var sem betur fer með kaffi við höndina þegar ég hóf lesturinn því það er ótrúlega erfitt fyrir fólk sem fékk góða barnæsku að lesa hvernig æska annarra var eyðilögð. Ég held að það sé ekki hægt að skilja almennilega hvernig líf þitt var, hversu vel sem þú lýsir því.
Frábært að sjá hversu vel þú hefur komið út úr þessu og sorglegt að vita að ekki var meiri aðstoð við hendina, bæði ykkur systkinunum til handa og eins mömmu þinni.
Ætla að fara að kíkja á bróður þinn því ég á ekki aðgang að Vikunni.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.1.2009 kl. 22:27
Datt hérna aftur bara til að knúsa þig soldið dúllan mín
Hafðu það notalegt vinkona
Ómar Ingi, 23.1.2009 kl. 23:15
Heiða Þórðar, 24.1.2009 kl. 01:26
Hæ yndislegust.
Rosa knús og ást til þín
Viktoría (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 03:28
Bara votta virðingu mína einu sinni enn Heiða mín!
Knús á þig og takk aftur fyrir pistilinn. Ég er ekki búin að læra enn að fyrirgefa. Þú hefur alveg rétt fyrir þér í því. Ég verð að læra að fyrirgefa öllum. Ekki bara sumum eins og ég geri.
Ég hef reynt með hjálp frá góðu fólki, eins og t.d. Rósu, enn það tekst ekki.
Þú hefur hjálpað mörgum og eflaust fleirum enn þig grunar með þessum pistli og viðtalinu í Vikunni.
Segðu bróður þínum að ég hneigji mig honum fyrir að hafa þorað í þetta viðtal.
Óskar Arnórsson, 24.1.2009 kl. 06:22
Guð blessi þig Heiða, þið systkinin verðið til þess að hjálpa mörgum í ykkar sporum að horfast í augu við afar ógeðfellda hluti
börn geðsjúkra hafa því miður orðið útundan í sjálfshjálparbókunum, og ennþá er geðsjúkum foreldrum gefin alltof rúmur séns til að halda börnum á heimilum.
Guðrún Sæmundsdóttir, 24.1.2009 kl. 14:45
Þú ert mögnuð. Þvílíkur kjarkur? Og ræðir um kærleika. Ég segi á öðrum stað að þá fyrst kynnist maður manninum þegar hann er undir álagi. Þar berðu höfuð og herðar yfir marga. Og sýnir hvaða mann þú hefur að geyma.
Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 15:16
Þetta viðtal við bróður þinn hitti í mark hjá mér. Það má vera að það sé illa unnið en það náði til mín.
Ég dæmdi ekki móður þína, ég hef samúð með henni en ekki sjúkdóm hennar. Sjálf berst ég við þennan hvimleiða sjúkdóm alkolisma alla daga. Viðtalið við bróður þinn var mér góð áminning um hvert ég færi og hvað börnin mín myndu upplifa færi ég aftur að drekka.
Þitt innlegg er merki um hversu mikin kjark þið systkinin hafið og hversu vel ykkur hefur tekist upp í lífinu, það er ekki sjálfgefið að geta tekið svona á uppvexti sínum eins og þið gerið og fyrir það eigi þið skilið hrós.
Það væri óskandi að fleiri létu í sér heyra með álíka uppeldi, því við þurfum að heyra þetta hvort sem við séum í sömu sporum "eiga hættu á að fara sömu leið" eða ekki.
En mikið langaði mig að ferðast aftur í tímann þegar ég las greinina í vikunni og bjarga ykkur systkinum, en meira langaði mig það þegar ég les innlegg þitt. Langaði að taka utan um ykkur að segja að allt yrði í lagi.
Takk fyrir þetta innlegg og til bróður þíns takk fyrir viðtalið í vikunni.
Guðrún Hulda Fossdal
A.L.F, 24.1.2009 kl. 17:23
Ég dáist óendanlega að ykkur systkinunum. Bestu kveðjur af Skaganum!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.1.2009 kl. 20:36
.........
Þetta er ólysanlegt dæmi---
Hver og einn fer í gegnum sína bardaga; sumir tapa, aðrir vinna.
Þú hefur greinilega unnið...........en borgað dýrt fyrir sigurinn.
Hann er samt þinn.
Ótrúlegt.
guðrún garðarsd. (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 21:24
A.L.F., Guðríður, Hallgerður, Guðrún, Óskar og Viktoría. Takk ástsamlega. Ég finn væntumþykjuna í loftinu með fingrunum. Takk öll
Mér finnst gott að heyra ALF að þú varst ánægður með viðtalið, að það náði til þín, endurtek; er enganveginn hlutlaus
Heiða Þórðar, 24.1.2009 kl. 23:04
Engill í mannsmynd? Allavega eitt það tærasta hjarta sem að ég veit um!
Styrkur þinn er ótrúlegur fallega kona!
Knús og
Sporðdrekinn, 25.1.2009 kl. 02:53
held að englar kúki ekki....ég geri það....en bara einu sinni pr. viku
Heiða Þórðar, 25.1.2009 kl. 11:03
Já en það er lyktarlaust er það ekki?.....
Sporðdrekinn, 25.1.2009 kl. 17:39
kæra heiða - ef fleiri væru eins og þú...
bestu óskir frá mér til þín og þinnar fjölskyldu um gott líf. kv d
doddý, 25.1.2009 kl. 21:39
Takk fyrir þetta Heiða.
Haraldur Davíðsson, 26.1.2009 kl. 11:34
Takk kærlega fyrir góðan pistil.
Það eru enn í dag miklir fordómar í garð geðveikra, fordómar sem oft lita skoðanir fólks dökkum litum. Það þarf fleiri eins og þig sem að ræða um sjúkdóminn opinskátt og án þess að dæma hinn sjúka.
Enn og aftur takk fyrir pistilinn.
Aðalsteinn Baldursson, 26.1.2009 kl. 12:05
Takk fyrir að deila reynslu þinni með okkur og gangi þér vel!
Héðinn Björnsson, 26.1.2009 kl. 15:25
En flottur og fallegur og skilningsríkur pistill um elsku dóttur til móður!Takk!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 26.1.2009 kl. 18:32
Heiða Þórðar, 26.1.2009 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.