Ég er bara grillaður kjúklingur
3.8.2021 | 03:27
Er það merki um manngæsku að "hugsa hlýlega" til þeirra sem eiga um sárt að binda?
Hvað finnst þér? Kveikja svo upp í arninum og kúldrast undir hlýju teppi einsog úfið, úldið stykki upp í sófa. Og bara hugsa, hugsa, hugsa...
...gera ekki neitt, hvorki meira né minna...eða alls ekki neitt, nema bara hugsa?
Mér persónulega er það til efs að það verði einhverjum að gagni...
Trúir einhver því virkilega að sá sem hugsað er hlýtt til, verði var við það? Gróa sárin? Mettast sá hungraði? Fær sá heimilislausi skjól? Er mannshugurinn svo magnaður að frostnar tær stikna og brenna?
Hvert og eitt okkar upplifir allt sitt nánasta umhverfi sem sinn eigin persónulega raunveruleika. Það er alveg á hreinu að sá sem hugsar fallega eða miður fallega til einhvers annars, finnur fyrir því í eigin skinni.
Ekki sá sem hugsað er til.
Er þá ekki bara skárra að loka augunum fyrir því sem er að gerast í kringum okkur ef við ætlum okkur ekki að gera rassgat? Krækja saman höndum og vöðla saman fótum, fast og læsa á eftir sér? Ef maður ætlar bara að h u g s a? Gildir þá einu hvort hugsunin er hlý, volg, köld eða frosin... það bara skiptir engu máli.
Það eru verkin sem tala.
Ég á mér háleita drauma. Til góðra verka. Ein hugmynd var algjörlega steikt, sá fyrir mér, mig standandi upp á stól, á háum hælum - í g-streng að gefa útigangsmönnum kjötsúpu á jóladag. Svo gufaði þessi hugmynd upp einsog prumpubóla beint upp í loft og hvarf. Enda eru nærbuxur stórkostlega ofmetnar. Raunveruleikinn óþægilegur, rétt einsog blúnduband upp í rassgatið.
Það stingur mig í hjartastað að horfa upp á hversu eymdin er mikil í kringum mig og ekki síst raunveruleg og þá finn ég svo sannarlega fyrir vanmætti mínum. Ég nefnilega þekki það að vera svöng. Og kalt. Og ein. Aldrei einmana. Og hef staðið andspænis allskyns áskorunum sem lífið hefur boðið mér uppá, án aðstoðar frá nokkrum manni.
Ég á því mjög auðvelt með að setja mig í spor þeirra sem aðrir álíta sem eitthvert óþarfa "drasl".
Stundum heltaka hugrenningar mínar hvor aðra um hvort einhverjum af þeim sé kalt á fótum og höndum. Þyrstir eða svangir. Velti fyrir mér hvort ég eigi að færa hinum eða þessum brennivín, súpu, bjór, sígarettur eða kók. Kannski blanda þessu öllu saman og umvefja allt draslið í pappír og vefja utan um rauða slaufu.
Mögulega til að friða eigin samvisku? Afþví að ég hef það svo ofboðslega gott nei.
Ég fer alltof oft á svona hugsunar-fyllerý. En stundum leyfi ég mér að dreyma. En ekki núna, þegar ég átta mig á því að flest fólk er sjálfmiðað og að drepast úr sjálfselsku. Allt mitt er mitt og allt það.
Djók, ég er fyrir löngu búin að fatta það, hef reyndar alltaf vitað það, ég varð nefnilega kona sem barn. Núna er ég bara grillaður kjúklingur. Spes?
Hjartað mitt springur í tætlur ef ekki verður gerð búbót á úrræði fyrir útigangsmenn og allra þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.
Springur!
Nágrannar mínir, útigangsfólkið mitt, er samofið raunveruleikanum og fyrir löngu orðnir hluti af hversdagsleikanum, en venjast ekki vel. Þá á ég við, stundum verð ég einfaldlega svo döpur yfir því hversu margir eiga um sárt að binda. Hversu aumt sem það nú er. Rómantískar hugleiðingar um að færa þeim bjór, brennivín og vindlinga fjúka út í veður og vind þegar ég verð heltekin að því hvort ég eigi að fylla sveppina með gráðosti eða ekki.
Hvort ég eigi að taka hárið upp eða hafa það slegið. Hvort ég hafi keypt nógu mikið af andskotans rjóma út á skyrið. Þetta er bilað!
Hver er tilgangurinn með því að "hugsa" til þeirra sem eiga um sárt að binda og gera ekkert? Og hvernig bindur maður um sárt? Hvaða fíflalæti eru þetta eiginlega? Ég get ekki betur séð en að þetta sé hrokafull yfirlýsing um eigið ágæti þess er hugsar, blastar því í framhaldi á samskiptamiðlum, kengbogið með kryppu fyrir framan símann sinn, tölvuna eða bæði. Og einmitt, eru ekki að hugsa. Eru ekki einu sinni með meðvitund.
Bilað!
Góðverk missa marks ef það er notað sem skiptimiði til að forða sér frá brennandi helvíti og inn í dúnmjúkt himnaríki. Það segir sig sjálft. Svo ég tali nú ekki um ef "það" er notað sem gæðastimpill á eigið rassgat í veikri von um að hljóta aðdáun frá öðrum...
Gera meira, lofa minna og já, tala minna og hlusta meira. Verum meðvituð um hvort annað og þá ekki síst þeirra sem minnst mega sín.
Kærleikskveðjur til ykkar frá mér, með von um að þær flengi ykkur eitthvað áfram inn í komandi viku
Er ekki öllum alveg örugglega heitt og hlýtt á fótunum? Allir saddir, graðir og sælir? Gott mál, þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því.
Ást Heiða Þórðar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.